25.10.1957
Efri deild: 9. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

18. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vildi beina örfáum orðum til hv. nefndar, áður en málið fer lengra, í tilefni af þeim umræðum, sem fóru fram á síðasta þingi um þetta mál.

Þar á ég fyrst og fremst við skilgreiningu á bifreið og dráttarvél. Það kom fram þá, að ef lögfest væru ákvæði eins og þau, sem eru í frv. nú, þá gæti það haft þær afleiðingar, að vissar tegundir af dráttarvélum yrðu ekki lengur fluttar inn, sem þó hafa verið fluttar inn áður og reynzt mjög vel. Ástæðan til þess, að þetta getur farið svona, er sú, að skilgreining í frv. á bifreið og dráttarvél er hraðinn, sem tækið á að geta farið á klukkustund, og er þar miðað við 30 km hraða á klst. Það var upplýst þá, að til eru tegundir dráttarvéla hér í landinu, sem geta farið hraðar. Mér þykir sennilegt, að það yrði skilið svo, ef einhver flytur inn slíka dráttarvél hér eftir, að hún verði úrskurðuð bifreið, þegar við innflutning. En það hefur þær afleiðingar samkvæmt okkar tollalöggjöf, að tollarnir yrðu svo háir á slíkum dráttarvélum, að það væri sama og að banna innflutning á þeim. Mér er kunnugt um eina tegund, sem þetta mundi hafa þau áhrif á, að verð hennar mundi hækka um 50–60 þús. kr., vegna þess að hún yrði flokkuð undir bifreið í staðinn fyrir dráttarvél, og ég fæ ekki heldur séð, en að þannig yrði hún flokkuð, ef þetta ákvæði á að standa, að 30 km. ökuhraði ráði þarna mestu eða öllu.

Ég vil enn fremur beina til hv. nefndar að athuga um ákvæði í 25. gr., þar sem rætt er um, að ekki megi aka bifreið, ef áfengismagn í blóði manns er eins og þar segir. Þarna er tvískipting á þessu, annars vegar, að hann telst eigi geta stjórnað tækinu örugglega, ef vínandamagn í blóði hans er 0.60%0 til 1.30%0, og svo kemur, að hann telst óhæfur, ef það er 1.30%0 eða meir.

Ég vil beina því til hv. nefndar, hvort það er nokkur ástæða til að vera að hafa þessa tvískiptingu, heldur verði refsiákvæði fyrir brot á þessum lögum hvað þetta snertir eitt og hið sama, ef áfengismagn er í blóði á annað borð. Það skiptir vist litlu máli, þegar slys hefur orðið, hvort áfengismagnið er fyrir neðan 1.30%0 eða rétt fyrir ofan það, þegar það er sagt í sjálfum lögunum, að það sé óleyfilegt að stjórna bifreið, ef nokkurt áfengismagn er í blóðinu. Ég vil beina þessu til nefndarinnar, hvort það er nokkur ástæða til að hafa þessa tvískiptingu á þessu.

Að lokum vil ég svo minna á það, sem mjög kom fram hér í hv. d. í fyrra undir umr. um þetta mál, að það eru sannarlega skiptar skoðanir um það, hvort sá aksturshraði, sem tekinn er upp í frv. og var í því í fyrra, er réttmætur. Vænti ég þess, að hv. nefnd geti nú komizt að þeirri niðurstöðu að taka stökkið ofur lítið minna, en hún vildi þó láta gera þá, þ.e. að auka aksturshraðann í þéttbýli úr 30 km á klst. upp í 45, eða um 50%. Mér sýnist, að atburðirnir þessa dagana ættu að minna menn á að fara gætilega í þessu efni.