10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

18. mál, umferðarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við þær umr., sem orðið hafa um till. á þskj. 283, hefur það komið fram hjá flm. og þeim öðrum, sem hafa haldið till. fram, að ástæðan til, að við ætlum að samþ. þessa till., væri sú, að hún gengi í sömu átt og álit þeirra sérfræðinga, sem undirbjuggu þetta frv.

Nú skal ég játa það, að ég er minna þingvanur, en aðrir menn hér á hv. Alþingi. En ég hef samt ekki orðið var við það þann stutta tíma, sem ég hef hér setið, að skoðanir manna færu eftir því, hvað sérfræðingar legðu til um afgreiðslu mála. Það frv., sem hér liggur nú fyrir, var samið af sérfræðingum, og því hefur þó verið breytt. Það er eðlilegt, að þingmenn afgreiði mál samkvæmt sinni skoðun, en ekki að vilja þeirra, er málin undirbúa, þótt sérfræðingar séu. Þetta hefur verið ríkjandi sjónarmið, og þess vegna er málum breytt hér á Alþ. Það atriði út af fyrir sig er því ekki svo veigamikið, að það eigi að samþ. þessa till. vegna þess.

Það er út af fyrir sig rétt, að það getur verið öryggi í því að banna akstur á vélknúnu tæki, vegna þess að slysahætta er þar mikil. En það hafa orðið hér stórkostleg slys á bifreiðum og öðrum tækjum. Samt leyfum við mönnum að aka þessum tækjum áfram. Það hafa orðið slys á dráttarvélum, en það er ekki allt vegna barna og unglinga, sem þar hafa verið að verki, og sjálfur veit ég til þess, að fullorðinn maður hefur hvolft dráttarvél, þó að það yrði ekki að slysi, en hann heldur samt rétti sínum til þess að aka henni þrátt fyrir ákvæði þessarar till.

Við eigum að vinna að því, eins og frekast er hægt, að forðast slysin og að setja reglur þannig að, að þeim megi vera öryggi. En við getum aldrei fyrirbyggt slys með reglum. Það gerum við með því einu móti að hætta þá starfseminni. Samt leggjum við það almennt ekki til vegna atvinnuhátta og hagsmuna þjóðarinnar.

Hitt er mikill misskilningur, ef menn halda, að hér sé ekki um nokkuð veigamikið atriði að ræða, hvort rétt er að leyfa krökkum innan við I4 ára aldur að fara með þessi tæki, eins og nú á sér stað í sveitunum. Það er víða þannig ástatt, að þessi tæki væru kannske ekki notuð, ef unglingar innan við 14 ára aldur fengju ekki að fara með þau. Það gegnir öðru máli, þótt leyfi þurfi við stjórn dráttarvéla úti á þjóðvegum. En heima á túnum og í flögum er því mjög fjarri lagi að hanna þetta. Og ég held, að hv. 3. þm. Reykv. hafi gert of mikið úr því, að hér væri um hættulegt tæki að ræða fyrir heilsufar barnanna. Ég held, að það mundi reyna anzi mikið á þau, ef þau mættu ekki nota orku sína til þess að vinna með þessum tækjum, þegar þau væru orðin 12–13 ára, og það er alveg öruggt, að það yrði aldrei það eftirlit með framkvæmd þessa máls, að þetta kæmi að tilætluðum notum.

Hér er um að ræða verulegt hagsmunamál fyrir bændastéttina og mál, sem ég held að sé heldur ekki sanngirnismál, því að aldurinn einn mun ekki skera úr um þetta, eins og hv. þm. Borgf. tók fram.

Ef út í það ætti að fara, sem hv. 3. þm. Reykv. tók hér fram áðan, að unglingavinna muni ekki vera talin fram í sambandi við verðlag á landbúnaðarafurðum, þá hygg ég, að þar mætti þá fleira tína til, svo sem eftir- og næturvinnu bænda, sem ekki er heldur tekin með í þeim verðlagsgrundvelli, svo að þar mun ekki á hallast.

En aðalatriðið er þetta, að aldurinn einn sker ekki úr um slysahættuna, en það er mikil nauðsyn að mega nota unglingana við þau störf, sem hér er um að ræða, og það væri því mjög miður farið, ef löggjafinn byndi hendur bænda í þessu máli, eins og hér er lagt til. Ég mun því snúast gegn till. á þskj. 283 og vonast til, að hv. þm. geri það yfirleitt.