21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

177. mál, eignarnámsheimild fyrir Hvammstangahrepp

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala á móti þessu frv., það er síður en svo, því að ég er sammála um það, eins og ég hef látið í ljós áður hér í deildinni og bað oftar en einu sinni, að það heppilegasta er, að þorp og kauptún eigi landið, sem þau standa á. En það eru tvö atriði í þessu samt, sem ég held að ég vildi benda n. á til frekari athugunar.

Ef ég man rétt, þó er ég ekki alveg viss um það, því að ég hef ekki gáð að því, — en ef ég man rétt, þá hefur nýbýlanefnd leyft að byggja tvö nýbýli, sem munu liggja nyrzt í Hvammstangalandi. Ég er ekki viss um, að þeirra land, sem er lítið, þurfi neitt að koma í bága við skipulagsuppdrátt. Muni ég rétt, liggja þau eiginlega í jaðrinum eða utan við sjálft þorpið, og ég er ekki viss um, hvort það á að leyfa hreppsnefnd að taka það. Það er búið að láta þarna bæði hagkvæm opinber lán og styrki í þessi nýbýli, og hvort á að leyfa hreppsnefndinni að taka þau, þar sem hún hefur nóg land sjálf til að byggja á, það efa ég. Þetta bið ég þá að athuga í sambandi við nýbýlastjórn og þó sérstaklega Pálma Einarsson, sem er þessum málum náttúrlega langkunnugastur, og til frekari upplýsinga um þetta getur hún náttúrlega snúið sér til skipulagsstjóra, sem hefur skoðað Hvammstangalandið og athugað, hvernig hagkvæmast er að skipuleggja byggðina. Þó að ekki séu komnar neinar till. um það, þá getur hún gengið úr skugga um, hvort það er rétt, sem ég held, að þessi nýbýli geti verið alveg sjálfstæð, þó að þau séu ekki tekin eignarnámi.

Aðeins þetta tvennt vildi ég benda á til frekari athugunar fyrir nefndina.