12.12.1957
Efri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

35. mál, útsvör

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem sett voru í sept. s.l. Efni frv. er það eitt, að í stað þess að samkv. áður gildandi l. var yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd aðeins heimilt að leiðrétta útsvör, sem kært var yfir, ef álagningarskekkja hafði reynzt a.m.k. 10%, er þessum nefndum nú heimilt að leiðrétta útsvörin, þótt ekki skakki meiru en 3% á annan hvorn veginn. Þetta og ekkert annað er efni þessa frv., og þarfnast það ekki skýringar, svo einfalt sem það er.

Fjhn. hefur haft frv. til meðferðar, og var n. sammála um að mæla með samþykkt þess, en tveir nm. kváðu þó það skilyrði vera fyrir fylgi sínu við frv., að brtt. sú, sem hv. þm. V-Sk. (JK) hefur flutt, verði samþykkt. En efni þeirrar brtt. er það, að allar hömlur, sem þessi gr., 26. gr. útsvarslaganna, fjallar um, verði afnumdar og nefndunum sé heimilt að leiðrétta hvað litlar skekkjur sem þær kynnu að finna.

Meiri hl. n, taldi þetta hins vegar það mikið álitamál, að hann tók ekki afstöðu til þess á þeim fundi, sem fjallaði um þetta, og hefur meiri hl. þannig algerlega óbundnar hendur um atkvæði gagnvart þessari till. En ég get lýst yfir því, að mín skoðun er sú, að það sé mjög mikið álitamál, hvort ekki sé ástæða til að hafa þarna einhverjar hömlur til þess að koma í veg fyrir það, að mikill fjöldi af algerlega tilefnislausum eða tilefnislitlum kærum berist til yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar, sem kynni að leiða til þess, að þær yrðu mjög að færa út starfsemi sína, en útsvör hins vegar þess eðlis, a.m.k. þar sem þau eru ekki lögð á á algerlega vélrænan hátt, heldur eftir svokölluðum efnum og ástæðum, að álitamál sé, hvort kæra vegna svo lítillar skekkju sé réttmæt.