20.05.1958
Neðri deild: 101. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er stefnt að því að ráða bót á vissum annmarka, sem hefur komið fram í sambandi við sveitarstjórnarkosningar. Eins og kunnugt er, gilda ákvæði kosninga til Alþingis að ýmsu leyti um sveitarstjórnarkosningar, þ.e.a.s. almenn ákvæði um framkvæmd kosningaathafnarinnar og ýmislegt fleira. En ákvæði kosningalaganna um kjörskrár, hvenær þær skuli semja, hvenær þær verða lagðar fram, hvenær kærufrestur er úti o. s. frv., eru miðuð við, að kjördagurinn sé síðasta sunnudag í júnímánuði, eins og hann er ákveðinn við kosningar til Alþ. En þegar kjördagurinn við bæjarstjórnarkosningar er síðasta sunnudag í janúar, þá er ekki annar kostur en kjósa eftir kjörskrá, sem þá er í gildi, en sú kjörskrá er þá í raun og veru 11 mánaða gömul. Af þessum ástæðum hefur komið fram sá annmarki við bæjarstjórnarkjör í kaupstöðum, sem stefnt er að að ráða bót á með þessu frv.

Það er skoðun mín, og ég hef látið hana í ljós áður hér í d., að það sé bezta lausnin á þessu máli að færa kjördaginn við bæjarstjórnarkosningar til, frá því sem nú er, færa hann nær kjördegi til alþingiskosninga, heldur en nú er ákveðið. Ég tel því, að þetta frv. út af fyrir sig stefni í rétta átt að þessu leyti. Hitt er alltaf álitamál, hvaða dag eigi að ákveða.

Það var á það minnt fyrr á þessu þingi, þegar til umr. var frv. til l. um breyt. á kosningalögum, að starfandi væri mþn., sem hefði það hlutverk eftir skipun Alþingis að taka til endurskoðunar lög um kosningar til Alþingis og lög um kosningar til sveitarstjórna.

Það er að sjálfsögðu ekki hlutverk mþn. að hlutast til um það, hvaða lagasetningu Alþ. afgreiðir hverju sinni. En það kom greinilega fram, a.m.k. hér í þessari hv. d., fyrr á þessu þingi, að eðlilegt væri, þar sem þessi n. er að athuga málin, að afgreiða ekki breytingar á kosningalögunum, án þess að hún hefði um þær breytingar fjallað.

Nú vil ég benda á það, að skv. því frv., sem hér liggur fyrir, á það að öðlast gildi 1. júlí 1958, eða fáum dögum eftir að hreppsnefndarkosningar fara fram nú á þessu ári. Bæjarstjórnarkosningar og hreppsnefndarkosningar fara ekki fram aftur, fyrr en að fjórum árum liðnum, því að í því efni er ekki um neinn þingrofsrétt að ræða eða styttingu kjörtímabilsins, þannig að þótt ákvæði þessa frv. verði lögfest nú, þá geta þau ekki komið til framkvæmda fyrr en að fjórum árum liðnum. Þegar á þetta er litið, þá virðist nú minni ástæða til en ella að hraða afgreiðslu þessa máls nú.

Kjördagurinn í sveitum er ákveðinn síðasti sunnudagur í júnímánuði. Það er sá tími ársins, sem er mjög hentugur til ferðalaga, og ég hygg að, að því leyti verði naumast fundinn hentugri dagur fyrir sveitafólk að neyta kosningarréttar síns, heldur en undir lok júnímánaðar. En ég vil leyfa mér að benda á það, að þar sem kjördagurinn er hinn sami við kosningar til Alþingis og við hreppsnefndarkosningar í sveitum, getur farið svo, að báðar þessar kosningar eigi að réttu lagi að fara fram á einum og sama degi, vegna þess að kjörtímabil við alþingiskosningar er hreyfanlegt, þar sem um þingrofsrétt er að ræða, og kjörtímabilið er því ekki alltaf full fjögur ár. Og það vill nú svo til, að við höfum ofurlitla reynslu í þessu efni, því að einmitt þetta hefur komið fyrir oftar en einu sinni á undanförnum árum.

1942 fóru fram kosningar til Alþingis á hinum reglulega kjördegi, síðasta sunnudag í júní, og þá áttu að réttu lagi einnig að fara fram hreppsnefndarkosningar. Þá var litið svo á, af stjórnarvöldum landsins, og ekki er annað kunnugt, en það væri einnig álit þeirra, sem í sveitunum búa, að það væri ekki heppilegt og sums staðar kannske varla gerlegt að láta þær kosningar fara fram samtímis, hreppsnefndarkosningar og alþingiskosningar. Og þá var gripið til þess að setja sérstök lög um tilfærslu á kjördeginum við hreppsnefndarkosningar í það skiptið. Það er meginákvæði þeirra laga, að hreppsnefndarkosningum þeim, sem ákveðnar eru síðasta sunnudag í júnímánuði 1942, skal frestað, og skulu þær fara fram 12. júlí 1942. Og í grg. fyrir þessu frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta.: „Frv. þetta er flutt að beiðni félmrh., og fylgdu því svo látandi ástæður:

Í 4. gr. laga nr. 81 23. júní 1936, um sveitarstjórnarkosningar, er svo ákveðið, að í þeim hreppum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru ekki búsettir í kauptúni, skuli hreppsnefndarkosningar fara fram síðasta sunnudag í júnímánuði. Þar sem hentugra þykir, að framangreindar hreppsnefndarkosningar fari fram að afstöðnum alþingiskosningum, er svo ákveðið í frumvarpi þessu, að þær skuli fara fram sunnudaginn 12. júlí næst komandi.“

Þetta frv. var lögfest og framkvæmd hreppsnefndarkosninga hagað skv. þeirri löggjöf á árinu 1942.

Nú vildi svo til, að frá 1942 til 1946 sat Alþingi, sem kjörið var 1942, út heilt kjörtímabil, svo að 1946 endurtóku sig sömu ástæður og verið höfðu 1942, þannig að hreppsnefndarkosningar og alþingiskosningar áttu að réttu lagi að fara fram í sveitunum á einum og sama degi. Þá var litið alveg eins á af þáverandi ríkisstj. og gert hafði verið 1942, og þá var gripið til þess ráðs að gefa út brbl. um tilfærslu á kjördeginum við hreppsnefndarkosningar í það skipti. Þau brbl. voru gefin út að tilhlutun þáverandi dómsmála- og félagsmálaráðherra, Finns Jónssonar, og forsendur fyrir þeim eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 4. gr. l. nr. 81 23. júní 1936, um sveitarstjórnarkosningar, er svo ákveðið, að í þeim hreppum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru ekki búsettir í kauptúni, skuli hreppsnefndarkosningar fara fram síðasta sunnudag í júnímánuði. Þar sem miklir annmarkar eru á því að láta hreppsnefndarkosningar fara fram samtímis alþingiskosningunum, er að þessu sinni fara fram 30. júní n.k., verður að telja nauðsynlegt að fresta þeim um vikutíma eða til 7. júlí 1946. Með því að ég fellst á, að brýna nauðsyn beri til að setja brbl. um téð efni skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, set ég bráðabirgðalög á þessa leið:

1. gr.: Hreppsnefndarkosningum þeim, sem ákveðnar eru síðasta sunnudag í júnímánuði 1946, skal frestað, og skulu þær fara fram 7. júlí 1946.“

Eftir þessum brbl. var að sjálfsögðu farið við hreppsnefndarkosningarnar það ár og þau síðan lögð fyrir næsta þing og samþykkt, eins og yfirleitt er venja.

Þessi reynsla bendir til þess, að ef þingið tekur nú sérstaklega þetta eina atriði út úr kosningalögunum og ætlar að lögfesta það, þá sé full ástæða til að gefa því gætur, hvort það sé ekki þörf á að taka tillit til þeirrar reynslu, sem fengin er, annaðhvort á þann hátt að ákveða kjördaginn við hreppsnefndarkosningar t.d. viku fyrr, en ráðgert er í þessu frv. eða þá á hinn bóginn að hafa heimild til þess að færa kjördaginn við hreppsnefndarkosningar til um eina viku eða svo, þegar þær falla saman við alþingiskosningar.

Enn fremur má á það benda, að í lögum um framboð og kjör forseta Íslands er gert ráð fyrir því, að forseti Íslands sé valinn með allsherjarkosningu um allt land fjórða hvert ár. Það hefur raunar, síðan sú skipan var tekin upp, ekki alltaf komið til kosninga, þar sem einn maður hefur stundum verið í kjöri, en eigi að síður gera lögin ráð fyrir þessu.

Það hefur ekki fallið saman enn sem komið er, síðan þessi skipan var tekin upp, kjör forseta Íslands og hreppsnefndarkosningar, en kjörtímabil forseta Íslands er að vissu leyti hreyfanlegt, þannig að maður getur fallið frá eða sagt af sér störfum, svo að kjörtímabilið breytist af þeim ástæðum. Nú eru þær kosningar ákveðnar síðasta sunnudag í júnímánuði, þannig að það er a.m.k. fræðilegur möguleiki til þess að löggjöf óbreyttri, að í sveitunum geti borið að þrenns konar almennar kosningar á einum og sama degi. Það er fræðilegur möguleiki til þess að löggjöf óbreyttri. Þetta virðist mér eðlilegt að hafa til hliðsjónar, þegar gengið er frá löggjafaratriði eins og því, sem hér liggur fyrir.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að kjörskrár vegna sveitarstjórnarkosninga og bæjarstjórnarkosninga þurfi ekki að semja nema það ár, sem kosningar fara fram, þ.e.a.s. fjórða hvert ár. Og í umsögn hagstofustjóra er það tekið fram, að þetta hafi í för með sér hagræði frá því, sem nú er.

Ég vil ekki neita því, að gagnvart kaupstöðunum séu það rétt rök, sem hagstofustjóri tekur fram. En það gegnir að ýmsu leyti öðru máli í sveitunum. Fyrst er nú þess að geta, að í raun og veru er aldrei hægt að komast hjá því að semja árlega eða endurskoða árlega kjörskrár vegna alþingiskosninga, því að þegar þingrof ber að, þá þurfa kjörskrár vitanlega alltaf að vera í fullu lagi, þannig að það sé hægt að undirbúa kosningu innan þess tiltölulega stutta tíma, sem stjórnarskráin ákveður, þegar kosningar skulu fara fram eftir þingrof, enda nær þetta frv. vitanlega ekki til þess. Þetta snertir einungis lögin um sveitarstjórnarkosningar. En í sveitunum er það svo, að ef semja á kjörskrá vegna alþingiskosninga, þannig að hún sé alltaf endurskoðuð og tiltæk, hvenær sem er, þá er það eiginlega nær ekkert verk að hafa einnig nýja kjörskrá til staðar vegna sveitarstjórnarkosninga, því að í langflestum tilfellum fellur kosningarréttur aðila saman. Enn fremur vil ég benda á það, að kosningar í hreppsnefndir fara allvíða þannig fram, að það eru ekki listakosningar, heldur kosið óbundnum kosningum um vissa menn, og það er beint ákvæði kosningalaganna, að ef hreppsnefndarmaður fellur frá eða forfallast varanlega á kjörtímabilinu, þá skuli kjósa annan mann í hans stað, og slíkar kosningar til þess að fylla í skörð í hreppsnefndum í sveitunum fara iðulega fram einhvern tíma á kjörtímabilinu og án þess að það sé almenningi í landinu kunnugt eða stjórnarvöldum landsins. Það leiðir aðeins af sjálfu sér, að sveitarstjórnir, sem hlut eiga að máli, gangast fyrir því, að hreppsnefnd verði fullskipuð á þann hátt skv. ákvæðum kosningalaganna. Þegar slíkt ber að höndum, þá verður þó að vera til staðar í sveitinni kjörskrá, sem er í gildi. Það nægir ekki að taka þá tveggja eða þriggja ára gamla kjörskrá, heldur verður það að vera kjörskrá nýlega endurskoðuð, sem treysta megi á að sé nothæf og í gildi.

Mér virðist því, þegar á þetta er litið, að gagnvart sveitunum sé þetta ekki stórvægilegt atriði, sem felst í 2. gr. frv., en ég viðurkenni, að það gegnir um það nokkuð öðru máli í kaupstöðunum.

Ég hef leyft mér að benda á þessi atriði, og virðast þau nú þannig vaxin, að í sjálfu sér sé ekki óeðlilegt að fresta því um sinn að lögfesta þetta frv. Hins vegar mun ég ekki, þó að ég bendi á þessi atriði, bera fram brtt. um þau nú, þar sem kosningalögin öll eru í athugun og þeirri athugun verður haldið áfram, hvort sem þetta frv. verður lögfest eða ekki.