16.12.1957
Efri deild: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

92. mál, happdrætti Flugfélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Það er einungis vegna þeirra þm., sem ekki hafa verið hér í d., þegar rædd hafa verið happdrættismál hér áður, sem ég kveð mér hljóðs.

Ég hef alltaf verið og verð sjálfsagt alltaf á móti því að gera allt að einu happdrætti í okkar þjóðfélagi, og þess vegna alltaf á móti öllu, sem ýtir undir það að taka alla ábyrgð af manni sjálfum af sínum verkum og sínum störfum og gera þau að einu happdrætti.

Það aukast stöðugt happdrættin í þjóðfélaginu. Menn hrósa happi yfir vinningum. Síldin er komin í eitt happdrætti, útvegurinn í eitt happdrætti, og verið er að reyna að gera landbúnaðinn líka að einu happdrætti, sem allt saman á að velta á guði og lukkunni og svo ríkisstj. komi til og hjálpi upp á sakirnar.

Ég er á móti þessari stefnu og hef alltaf verið, og þess vegna greiði ég atkv. á móti þessu frv. Þetta vita allir, sem hafa verið með mér áður á þingi, því að ég hef oft sagt þetta áður. En þá, sem ekki hafa setið hér áður í d. með mér, vil ég láta heyra þessa skoðun mína.