25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (1807)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni í þeim umræðum, sem nú hafa farið fram um þetta mál, sem hér liggur fyrir, taka eftirfarandi fram um afstöðu okkar sjálfstæðismanna í fjhn. til þessa máls og frv. hæstv. ríkisstj. um eftirlit með rekstri ríkisins, sem er þessu máli náskylt, þannig að eðlilegt er, að þau séu rædd sameiginlega :

Á þeim fundi fjhn., sem frv. þessi bæði voru afgreidd, tókum við fram, að við teldum eðlilegt, að þessi mál fengju nánari athugun, áður en endanlega yrði kveðið á um skipan þeirra, og hefðum því talið æskilegast, að afgreiðslu þessara frv. beggja yrði frestað.

Við tókum það að vísu fram, að við hefðum meiri trú á því, að eftirlit með þessum málum í samræmi við þær hugmyndir, sem fram koma í frv. hv. þm. A-Húnv., væri líklegra til að ná árangri, heldur en það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstj. Við töldum þó, að einnig í frv. hv. þm. A-Húnv. væru viss atriði, sem nánari athugunar þyrftu við, eins og t. d. ákvæði um valdsvið eftirlitsnefndarinnar eða í þessu tilfelli endurskoðenda ríkisreikninganna, ásamt fleiru, þannig að það eðlilegasta væri að fresta þessum málum báðum.

Nú kom það hins vegar fram í hv. nefnd, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafa um það samið að láta frv. ríkisstj. ganga fram á þessu þingi, þannig að það mál varð að afgreiða á fundinum, og töldum við þá ekki aðra leið fyrir hendi varðandi það frv. en að bera fram okkar brtt., þar sem sniðnir væru af því að okkar áliti verstu vankantarnir. Eru þar teknar upp ýmsar hugmyndir úr frv. hv. þm. A-Húnv., m. a. það meginatriði, sem mestur ágreiningur hefur verið um í bessu sambandi, að þessi nefnd sé kjörin af Alþingi, en ekki skipuð á þann hátt, sem frv. hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir.

Við tókum það einnig fram, að við hefðum mjög litla trú á því, að þetta eftirlit kæmi að verulegu gagni, ef ekki næðu fram að ganga þær brtt., sem við bárum fram. Um það er auðvitað ekki vitað, hvaða meðferð þessar till. fá á þinginu. Við töldum í samræmi við þetta, að við gætum eftir atvikum sætt okkur við það, að frv. hv. þm. A-Húnv. yrði vísað til ríkisst., og væntum þá auðvitað þess, að málin fái nánari athugun. Við berum að vísu í þessu efni sem öðrum takmarkað traust til hæstv. ríkisstj., þannig að vel má vera, að þessu máli verði ekki sinnt, en þá er möguleiki á að taka það upp aftur. En ég vil undirstrika þá afstöðu okkar, að við teljum, að jafnvel þó að okkar brtt. við frv. ríkisstj. yrðu samþykktar, sé hér aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, þannig að skilyrði fyrir því, að þetta eftirlit geti náð tilgangi sínum, verði, að málið í heild verði nánar athugað, hvort sem það verður nú gert fyrir næsta þing eða ekki. Það er auðvitað undir hæstv. ríkisstj. komið.