25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1809)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. 9. landsk., að tilgangur hans og hv. 5. þm. Reykv. hafi verið sá, að báðum þessum frv. væri vísað til hæstv. ríkisstj., og það gat út af fyrir sig verið eðlilegt sjónarmið. Nú eru það ekki tillögur n. í heild, og skal ég ekki fara að svo stöddu lengra, út í að ræða það.

En hjá hv. form. fjhn., þm. V-Húnv., kom það fram nú hér eins og fyrr, að það, sem hann telur mest að þessu mínu frv., er það, að í því er gert gert ráð fyrir því, að yfirskoðunarmenn hafi íhlutun um það, hvernig skipt er þeim fjárveitingum, sem ákveðnar eru á fjárlögum sameiginlega til ákveðinna verka. Þetta er sérstakt atriði og getur náttúrlega verið alveg eðlilegt, að menn séu ósammála um það, og stóð alveg opið fyrir hv. fjhn. að gera till. um að fella þetta ákvæði út úr frv. Það hafa þeir þó ekki gert. En tilgangurinn með þessu ákvæði er fyrst og fremst sá, að ef þessu fyrirkomulagi yrði á komið, mundi það verða nokkurs konar svipa á Alþingi og fjvn. Alþingis sérstaklega til þess að hætta því fyrirkomulagi, sem er í raun og veru mjög gallað, að veita stórar upphæðir til sameiginlegra verka, án þess að Alþingi skipti þeim sjálft. Og ég gæti hugsað mér, að ef þetta ákvæði væri sett inn í lög, þá mundi afleiðingin fyrst og fremst verða sú, að Alþingi sjálft skipti upphæðunum miklu meira, en það hefur gert að þessu, og þá miðar það að því að herða á því, að Alþingi noti sitt vald til fjárveitinga, en kasti því ekki alveg í hendur verandi ríkisstjórnar.

Þá minntist hv. þm. V-Húnv. á það, að það væri náttúrlega mikil nauðsyn að vinna að því að auka sparnað í ríkisrekstrinum, og það er nú stundum talað um það, en hefur orðið lítið úr, því að alltaf er eyðslan sívaxandi og aldrei eins gífurlega sívaxandi og núna síðustu tvö árin. Nú skal ég segja það alveg hreinlega, að ég er ekkert viss um það, þó að þessu eftirlitsfyrirkomulagi yrði komið á, að það væri nokkur trygging fyrir því til þess að auka sparnað. Það á að vera trygging fyrir því, að það sé Alþ., sem ákveður fjárútlátin, en ekki ríkisstjórnin, og meiri hl. Alþ. hefur það á hverjum tíma eðlilega í sinni hendi að ákveða þau fjárútlát, sem því sýnist, án tillits til þess, hvort þetta eftirlit yrði sett á eða ekki. En það er ætlun mín með þessum frumvarpsflutningi, að það sé Alþ., sem ákveður þetta, en ekki ríkisstj., eins og nú er að mjög verulegu leyti og oft hefur áður verið. Og mér þykir, úr því að þetta er hér til umr., rétt að taka það fram, að það, sem herti alveg sérstaklega á mér með að flytja þetta frv., var það, þegar ég fór að yfirfara reikninga ríkisins fyrir árið 1956 og sá þar, hvílík ósköp er þar að sjá af umframeyðslu á öllum sviðum. Nú get ég sagt það, að endurskoðun þess reiknings er lokið, og áður en ég varð lasinn fyrir páskana, höfðu mínir samstarfsmenn og ég í félagi gengið frá 40 aths. En ég áskildi mér rétt til þess að bæta þar við, eftir því sem mér sýndist, og ég hef nú verið að fara í gegnum það undanfarið og hugsað mér að bæta þar við 25 aths., svo að það mun verða skilað þessum reikningi með 65 aths., og þar munu hv. alþm. á sínum tíma fá að sjá ýmislegt af því, sem ég er að finna að í grg. míns frv. og ég vil reyna að koma í veg fyrir.

Ef það verður niðurstaðan, sem ég geri ráð fyrir, að það verði samþ. að vísa þessu frv, til hæstv. ríkisstj., eins og fjhn. leggur til, þá væri það kannske mjög heppilegt, að við yfirskoðunarmenn eða ég sérstaklega birtum einhvern slatta, svona 30, 40 af þessum aths., í víðlesnu blaði, til þess að þjóðinni gæfist kostur á að sjá, hvernig svipurinn hefur verið á fjármálastjórninni á því herrans ári 1956.