02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1851)

157. mál, kostnaður við skóla

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í grg. þessa frv. er það rakið, hvernig þetta mál er til komið. Ungfrú Ingibjörg Jóhannsdóttir, eigandi og skólastjóri skólans að Löngumýri, hefur gefið þjóðkirkju Íslands öll hús tilheyrandi skólanum að Löngumýri í Skagafirði að undanskildum helmingi gamals timburhúss, en sá helmingur er eign systur hennar. Húsunum fylgir húsbúnaður allur, kennslutæki, bókasafn og annað það, sem við kemur skólahaldi, eins og það er nú. Síðan eru talin upp nánari skilyrði fyrir gjöfinni, m. a. þau, að þjóðkirkja Íslands skuldbindi sig til að starfrækja framvegis á Löngumýri húsmæðraskóla eða verknámsskóla gagnfræðastigsins fyrir ungar stúlkur, þar sem lögð verði aðaláherzla á að reyna að þroska kristilega siðmenningu nemenda og auka áhuga þeirra á fögrum bókmenntum og öðru því, er til eflingar mannkosta horfir, jafnframt því sem haldið sé þar uppi hagnýtri verklegri fræðslu,

Biskup Íslands hefur mjög eindregið mælt með því, að þjóðkirkjan veiti þessari gjöf viðtöku, og leggur til, að þjóðkirkjan starfræki kirkjulegan skóla á Löngumýri. En til þess að svo geti orðið, telur hann, sem eðlilegt er, að skólinn verði að fá þá fjárhagslegu aðstöðu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en í frv. segir, að ákvæði laga um húsmæðraskóla skuli taka til kennaralauna og rekstrarkostnaður kvennaskóla þjóðkirkju Íslands að Löngumýri í Skagafirði, enda sé námsskrá hans samþ. af fræðslumálastjórninni.

Þetta er efni málsins. Það var lagt fyrir hv. Nd. Alþ., og voru flutningsmenn báðir þm. Skagf. Málið fór til menntmn. Nd., og mælti hún einróma með því, að það yrði samþ. óbreytt. Málið kom fyrir Ed., var vísað til menntmn. hér. Sú nefnd mælti einnig með því einróma, að frv. væri samþ. óbreytt. Það er því búið að ganga með fullu samkomulagi í gegnum þrjár umr. í Nd. og komið til 3. umr. hér í Ed., og veldur það því að sjálfsögðu nokkurri furðu, að hæstv. ríkisstjórn skuli nú vilja stöðva málið.

Hæstv. menntmrh. (GÞG) hefur fengið málíð tekið út af dagskrá á síðustu stundu, og nú leggur hæstv. forsrh. til, að málinu sé visað til ríkisstj. og þar með sé það úr sögunni á þessu þingi. Röksemdir hans fyrir þessu eru tvær.

Önnur er sú, að endurskoðun skólalöggjafarinnar allrar sé nú á döfinni. Nú má gera ráð fyrir eftir fyrri endurskoðun skólalöggjafar, að sú endurskoðun geti tekið nokkur ár. Sú n., sem undirbjó núgildandi skólalöggjöf, sem er að mestu frá árunum 1946 og 1947, var að störfum í mörg ár, þótt skipuð væri hinum færustu og nýtustu mönnum, vegna þess, hve hér var mikið og ábyrgðarsamt starf á ferðinni. Ég geri ráð fyrir, að sú n., sem annaðhvort er búið að skipa eða er ætlunin að skipa, — ég hef nú ekki heyrt um, að búið sé að því, — muni einnig þurfa alllangan starfstíma, og þessi röksemd mundi því leiða til þess, að málinu yrði slegið á frest um alllanga hríð, jafnvel nokkur ár. Ég get því ekki fallizt á hana.

Hin röksemdin er sú, að húsmæðraskólar, sem hér séu starfandi, séu ekki og hafi ekki verið um margra ára skeið fullskipaðir og þess vegna þurfi m. a. að endurskoða það mál sérstaklega. Þessu er því til að svara, að sá skóli, sem hér um ræðir. Löngumýrarskólinn, hefur verið og er fullskipaður nemendum um undanfarin ár, Ég ætla, að það séu um 30 nemendur, sem þar geta verið, og er engin ástæða til að ætla annað, en sá skóli verði fullskipaður áram, eins og hann hefur verið undanfarin ár. Ég fæ því ekki séð, að sú röksemd, að húsmæðraskólar séu ekki fullskipaðir sumir hverjir, fái staðizt varðandi þennan skóla.

Ég vildi eindregið leggja til, að mál þetta yrði nú afgr. sem lög, eftir að það hefur hlotið jafneinróma meðferð og samþykkt í báðum þd, hingað til og menntmn. beggja deilda.