11.12.1957
Efri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. skjóta og góða afgreiðslu á þessu frv., sem hér er nú til 2. umr. Við 1. umr. málsins var þeirri fyrirspurn beint til mín af hv. þm. V-Sk., hvernig hag félagsheimilasjóðs væri nú varið, eftir þær ráðstafanir til tekjuöflunar, sem gerðar voru á s.l. vori. Ég gerði ráðstafanir til þess, að þessar upplýsingar lægju fyrir hv. n., eins og formaðurinn hefur upplýst að orðið hafi, en ég skal skýra hv. dm. frá því í fáeinum orðum, hvernig þessum málum er varið, þar eð gera má ráð fyrir, að hv. deildarmenn hafi áhuga á að vita staðreyndir varðandi þetta mál.

Rétt er kannske, að ég geri svolitla grein fyrir staðreyndum varðandi félagsheimilasjóðinn undanfarin ár. Fjárfesting vegna byggingar félagsheimila, frá því að félagsheimilasjóður tók til starfa, hefur verið sem hér segir, en lögin tóku gildi á árinu 1948: 1948 3.5 millj., 1949 1.9 millj., 1950 1.9 millj., 1951 1.9 millj., 1952 fer þetta mikið stökk upp á við, upp í 3.9 millj., 1953 3.7 millj., 1954 4.2 millj., 1955 5.9 millj. og 1956 annað gífurlegt stökk upp á við, upp í 9.4 millj., og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um fjárfestingu í ár í félagsheimilum um land allt, má gera ráð fyrir, að fjárfestingin í ár verði um 10 millj. kr.

Alls hefur þá fjárfesting í félagsheimilum frá stofnun félagsheimilasjóðs numið um 46 millj. kr.

Í gildandi lögum um félagsheimilasjóð er stjórn hans heimilað að veita félagsheimilum byggingarstyrk, er nemi allt að 40% byggingarkostnaðar. Fyrsta árið var svo gert ráð fyrir, að í félagsheimilasjóð rynnu 50% skemmtanaskattsins, en það var þegar á árinu 1949 rýrt ofan í 40%, og 1951 var hlutdeild félagsheimilasjóðs í skemmtanaskatti rýrð ofan í 35%, og var það — bara þessi 35% — allt þangað til á s.l. vori, að samþ. var stjórnarfrv. um, að hlutdeild félagsheimilasjóðs í skemmtanaskatti skyldi aftur aukin upp í 50%, eins og hún hafði verið fyrsta árið, sem lögin voru í gildi. En þær tekjur, sem félagsheimilasjóður hefur fengið af skemmtanaskatti, hafa frá upphafi numið sem hér segir: 1948 1.2 millj., 1949 1.2 millj., 1950 1.1 millj., 1951 1.1 millj., 1952 1.1 millj., 1953 1.3 millj., 1954 1.6 millj., 1955 1.6 millj., 1956, sem að vísu eru ekki fyllilega komin reikningsskil fyrir enn þá, verða tekjurnar þar 2 millj. Nákvæmari tölur get ég ekki nefnt, því að endanleg reikningsskil liggja ekki fyrir. Áætlunin, sem gerð hefur verið um árið 1957, en er þó varleg, nemur 2.4 millj. kr. En í sambandi við það er þess að geta, að ákvæði um hina auknu tekjuöflun koma ekki til framkvæmda, fyrr en á miðju yfirstandandi ári.

Að skattstofninum alveg óbreyttum ætti að mega gera ráð fyrir því, að tekjur félagsheimilasjóðs yrðu á næsta ári 2.8 millj. kr. varlega reiknað, en þar eð gera má ráð fyrir því, að aukning verði á skattinum vegna aukinnar mannfjölgunar og slíkra atriða, auk þess sem búast má við, að skattstofninn gefi nokkru meiri tekjur vegna minnkandi undanþáguákvæða, mun óhætt að gera ráð fyrir því, að hlutdeild félagsheimilasjóðs á næsta ári verði ekki undir 3 millj. kr.

Á árinu 1956 hefði sjóðurinn þurft að hafa yfir að ráða 4.7 millj. kr. til þess að geta styrkt allar félagsheimilabyggingar með 40% framlagi, en hafði aðeins yfir að ráða um 2 millj. kr. En miðað við það, að fjárfestingin verði 10 millj. kr. á yfirstandandi ári, er augljóst, að til þess að geta greitt 40% styrk af byggingarkostnaði, þyrfti sjóðurinn að hafa yfir að ráða um 4 millj. kr. En kunnugir telja, að fjárfestingin á árunum 1956 og á yfirstandandi ári sé óvenjulega mikil, enda tekur hún stökk úr 5.9 millj. 1955 upp í 9.4 millj. 1956 og er áætluð 10 millj. kr. núna, þannig að svo mikil fjárfesting sé algerlega óvenjuleg og ekki þurfi að reikna með henni framvegis, þar eð óþarfi sé að miða tekjuöflunaráætlanir handa félagsheimilasjóði við svo mikla fjárfestingu.

Stjórn félagsheimilasjóðs, eða íþróttafulltrúi fyrir hennar hönd, gerði á s.l. vori áætlun um, að reikna mætti með árlegri fjárfestingu í félagsheimilum á næstu árum um talsvert árabil um 7 millj. kr. á ári. Þá áætlun hefur hann enn endurnýjað eða staðfest í bréfi nú. Miðað við það, að eðlileg fjárfesting í félagsheimilum verði á næstunni um 7 millj. kr., er sá hámarksstyrkur, sem gert er ráð fyrir úr félagsheimilasjóði, 2.8 millj. kr. á ári, en einmitt við þessa tölu voru þær ráðstafanir miðaðar, sem gerðar voru á s.l. ári, þegar félagsheimilasjóði voru tryggðar a.m.k. 2.8 millj. kr. árlegar tekjur með því að fá honum aftur helming af skemmtanaskatti, og má þó raunar gera ráð fyrir því, að tekjurnar verði heldur meiri.

Það mun óhætt að gera ráð fyrir því, eins og ég gat um áðan, að tekjur af skemmtanaskatti 1958 og framvegis, ef ekki verða gerðar lagabreytingar í aðra átt, verði aldrei undir 6 millj. kr., þannig að hlutur félagsheimilasjóðs ætti að geta orðið ekki minni en 3 millj. kr. En með því móti er séð fyrir árlegum þörfum hans framvegis. Hitt er síðan annað mál, að vegna þess að undanfarin ár hefur hlutdeild félagsheimilasjóðs í skemmtanaskattinum verið of lítil, óeðlilega lítil, miðað við upphaflegar fyrirætlanir, þá er um að ræða byggingar, sem eðlilegt er að styrkja til viðbótar því, sem þegar hefur verið unnt að gera, þannig að þær geti einnig fengið styrk, er nemi um 40% af sínum byggingarkostnaði. Hvernig fram úr því máli verður ráðið endanlega, vil ég ekki um fullyrða núna, aðeins láta þess getið, að nú virðast málefni félagsheimilasjóðs vera komin í það horf, að tekjur hans standi undir eðlilegri árlegri fjárfestingu í félagsheimilum. Vonir standa til þess, að tekjurnar verði meiri, en sem því nemur, þannig að unnt verði sem allra fyrst að inna af hendi þær greiðslur, sem stjórn félagsheimilasjóðsins og ég tel bráðnauðsynlegt að inna af hendi sem allra fyrst, þ.e.a.s. greiðslur til þeirra aðila, sem enn hafa ekki fengið 40% styrk vegna byggingarkostnaðar sinna félagsheimila.