16.12.1957
Neðri deild: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

83. mál, sveitastjórnarkosningar

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Flest af því, sem hv. þm. A-Sk. (PÞ) tók fram í ræðu sinni, er lýsing á alkunnum atriðum í sambandi við kosningalögin, sem allir þekkja, sem þeim eru kunnugir. Hins vegar viðurkenndi hv. þm. það, sem ekki er hægt annað en viðurkenna, að annmarkar eru fyrir hendi í þessum efnum, sem frv. gerir tilraun til að leiðrétta, en þeir eru, að kosningarrétturinn er tekinn af fjölda manna á því ári, sem þeir flytjast milli sveitarfélaga og kosningar fara fram á.

Ég þykist vita, að hv. þm. hafi veitt því athygli, að frv. fer ekki fram á neinar breytingar varðandi kosningar til Alþingis, heldur fer fram á, að samin verði önnur kjörskrá til sveitarstjórnarkosninga. Verður annaðhvort að gera það til þess að koma fram leiðréttingum í þessum efnum ellegar hitt, sem auðvitað getur komið til mála, að færa saman kosningatímann eða breyta honum frá því, sem hann nú er. Það er algerlega óhæft að hafa þann hátt, sem nú er á hafður, vegna þess að kosið er eftir kjörskrá, sem tilheyrir sitt hvoru árl. Það á t. d. að kjósa í bæjarstjórn Reykjavíkur í n. k. janúarmánuði eftir kjörskrá, sem gilti árið 1957, og ef í Reykjavík ættu að fara fram kosningar til Alþ. í vor, þá yrði kosið eftir kjörskrá sem var samin í ársbyrjun 1958, sem sagt kjörskrá annars árs.

Út af mótbárum hv. þm. um það, að of lítill tími sé til að semja kjörskrá í desember, frá því að manntal er tekið í des., sem eigi að öðlast gildi í ársbyrjun, og að kærufrestur yrði því nokkuð stuttur, þá væri hægt að komast hjá vandræðum af þessum sökum með því að heimila að hafa kærufrest þangað til viku fyrir kjördag. Með þeim hætti gætu kjósendur borið fram sínar kvartanir, ef þeir hafa ekki verið settir á kjörskrá eins og vera ber, en það er algengast, að fólk breyti um heimilisfang annaðhvort á haustin eða um áramótin.

Það er alveg óhæft, að allur sá fjöldi af fólki, sem flyzt til Reykjavíkur frá því í febr. í fyrra, fái ekki að hafa kosningarrétt hér nú, en væri eðlilegt, að það fólk, sem þannig flyzt frá sveitarfélögunum úti á landi, fengi ekki að kjósa þar, en ætti að kjósa hér. Mér er kunnugt um, að í mínu héraði eru kjósendur, sem þangað hafa flutzt, og einnig um fólk, sem þaðan hefur flutzt, að ýmist er atkvæðisrétturinn alveg tekinn af þeim eða þá að þeir verða að kjósa í allt öðrum bæjar- eða sveitarfélögum en þeir eiga nú heima í. Þess vegna er hin ríkasta nauðsyn á því, að þetta misræmi sé leiðrétt. Til þess að koma þessu í framkvæmd í þetta sinn, við næstu kosningar í bæjarfélögum og kauptúnum, mætti taka inn á aukakjörskrá kjósendur, sem hafa breytt um heimilisfang frá því í febrúar í fyrra og þangað til um næstu áramót. En að öðru leyti er þetta framtíðarmál, sem þarf að athugast. Og ég játa, að vel getur komið til mála í framtíðinni till. sú, sem hv. síðasti ræðumaður (PÞ) stakk upp á, að færa þetta betur saman, því að þetta er ólag hið mesta að hafa svo mikið bil á milli kosningatímans í sveitahreppum annars vegar og kauptúnahreppum og bæjum hins vegar eins og nú er.

Ég vænti þess því, að hv. allshn. afgreiði þetta mál sem allra fljótast og að því verði hraðað gegnum hv. Alþ., hvort sem á því verða gerðar einhverjar breytingar frá því, sem er í frv., eða ekki. Það legg ég ekki áherzlu á, heldur að gengið sé þannig frá málum, að þessi annmarki, eins og hann liggur fyrir nú, sé leiðréttur.