28.03.1958
Neðri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2122)

158. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Jón Sigurðsson) : Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkvæmt beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Það er samið af fjhn. búnaðarþings og samþykkt að efni til af búnaðarþingi með 21:2 atkv., en tveir voru fjarverandi.

Húsbyggingarmál Búnaðarfélags Íslands hefur lengi verið á dagskrá. Skortur á hentugu húsrými fyrir starfsemi félagsins veldur með hverju ári sem líður sívaxandi óþægindum og lamar á ýmsan hátt starfsemi Búnaðarfélags Íslands.

Það er nú svo komið, að félagið verður að hafa bækistöðvar á mörgum stöðum úti í bæ, bæði fyrir skrifstofur og fyrir bókasafn félagsins.

Bæjarstjórn Reykjavíkur lét Búnaðarfélagi Íslands í té lóð undir húsið á ágætum stað í bænum, við svokallað Hagatorg. Hefur bæjarstjórn Reykjavíkur auðsýnt Búnaðarfélaginu mikinn skilning og velvild í þessu máli, sem vert er að þakka fyrir og yfirlýst var á síðasta búnaðarþingi af núv. búnaðarmálastjóra, Steingrími Steinþórssyni.

Árið 1958 ákvað búnaðarþingið, að hafizt skyldi handa um bygginguna og að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda reistu hús í félagi yfir starfsemi sína. Byggingarframkvæmdir hófust á síðari hluta ársins 1956. Síðan hefur verið unnið að byggingunni, svo sem fjárfestingarleyfi hafa heimilað hverju sinni.

Þó að byggingin sé enn skammt á veg komin og Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda hafi enn allmikið fé handbært til byggingarinnar, er nú þegar augljóst, að með þeim byggingarkostnaði, sem nú er orðinn, hrekkur það fé engan veginn til.

Búnaðarþingið var því nokkurn veginn einhuga um, að leita yrði úrræða til fjáröflunar. Taldi búnaðarþing eðlilegast að leita til bændanna sjálfra um nauðsynlegt viðbótarframlag til að koma byggingunni upp, svo að það, sem gert hefur verið og gert verður, þyrfti ekki að grotna niður sökum fjárskorts.

Með þetta í huga og óviðunandi húsakost, sem þegar hefur verið lýst, samþykkti síðasta búnaðarþing að óska eftir, að Alþingi samþykkti bráðabirgðaákvæði, er heimilaði að innheimta á árunum 1958–61 ½% viðbótargjald af söluvörum bænda, er renni til húsbyggingarinnar. Með þessu framlagi er talið tryggt að húsið komist upp.

Eins og oft vill verða um meiri háttar framkvæmdir, voru í fyrstu allskiptar skoðanir um, hvernig haga skyldi þessari byggingu. Ekki var þessi ágreiningur þó af pólitískum toga spunninn, heldur af mismunandi skoðunum á ýmsum atriðum og það nokkuð sitt á hvað. En eftir að endanlega var gengið frá teikningunni og byrjað var á byggingunni, hafa þessar raddir þagnað að mestu.

Á síðasta búnaðarþingi voru aðeins tveir menn, sinn úr hvorum flokki, af 25 búnaðarþingsmönnum, sem lýstu sig mótfallna þessari till., sem hér liggur fyrir, með tilliti til fyrri afstöðu sinnar í málinu. Það er því tæplega hægt að gera kröfu til öllu jákvæðari undirtekta í máli, sem fjallar um fjárkröfur á hendur búnaðarþingsmönnum sjálfum og stéttarbræðrum þeirra.

Ég vona því, að Alþingi taki þessu máli vel og afgreiði það svo, að það verði að lögum á yfirstandandi Alþingi.