09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

73. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég gáði nú þess satt að segja ekki, þegar ég bað um orðið, að ég er í allshn., sem fær málið til meðferðar, og hefði þess vegna getað sparað mér að segja nokkuð núna. En það eru tvö atriði, sem mig langar til að minnast á.

Annað er það, að ég held, að 4. gr. geti ekki staðizt, eins og hún er. Það eru nokkuð mörg kjördæmi, þar sem sýslumenn koma ekkert við yfirkjörstjórninni. Það verður að vera sá gangur á því þar, að kjörskrárnar sendist ekki til sýslumanna. Sýslumaðurinn á Ísafirði hefur ekkert að gera með kjörskrárnar úr Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það fer um það til yfirmanns kjörstjórnarinnar þar. Og sýslumaðurinn á Akureyri hefur ekkert að gera með kjörskrárnar úr Eyjafjarðarsýslu. Það er yfirkjörstjórnin, sem þarf að fá þær. Þess vegna held ég, að það þurfi að breyta allri greininni á þann hátt að láta senda kjörskrárnar með atkvæðakössunum innsiglaðar til yfirkjörstjórnarinnar og hún eigi að fá þær, en ekki sýslumennirnir, Þetta var annað.

Og hitt, sem ég vildi benda á, var það, að ég held, að það vanti tilfinnanlega í þetta frv., úr því að verið er að breyta lögunum, ákvæði, sem gera það að verkum, að allir menn geti neytt síns kosningarréttar, en eins og lögin eru núna, þá er það ekki. Það eru búnar til á tveimur ólíkum tíma ársins kjörskrár, aðrar fyrir hreppsnefndarkosningar og hinar fyrir alþingiskosningar, og menn, sem flytja á milli kjördæma á milli þess tíma, sem skrárnar eru samdar, missa kosningarréttinn á öðrum hvorum staðnum, en aðrir geta kosið á tveim stöðum. Þetta held ég þurfi að athugast líka, þegar nú er verið að endurskoða þessi lög. — En sem sagt, ég gáði ekkert að því, þegar ég bað um orðið, að ég er í n., sem fær þetta til meðferðar, og skal þess vegna ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég held það þurfi að bæta inn í ákvæðum hér að lútandi.