09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jón Kjartansson:

Herra forseti, Hingað til hefur stefnan jafnan verið sú, þegar breytt hefur verið kosningalögum, að auðvelda kjósendum sem mest að neyta atkvæðisréttar síns. Með þessu hefur verið reynt að tryggja það sem bezt, að lýðræðinu væri fullnægt. Allar breytingar, sem gerðar hafa verið á kosningalögunum, hafa hnigið í þessa átt. Allt annað hefur þótt ósamboðið lýðræðishugsjóninni.

Með frv. því, sem lagt er hér fyrir hv. d., er stefnt í þveröfuga átt. Hér er farið fram á að þrengja rétt kjósenda til þess að neyta atkvæðisréttar síns. Hér er með öðrum orðum sporið stigið aftur á bak frá því, sem verið hefur til þessa. Afleiðingin getur auðveldlega orðið sú, að fjöldi kjósenda verði sviptur atkvæðisrétti sínum.

Ég tel þessa aðferð gersamlega ósæmilega í lýðræðisþjóðskipulagi og ósamboðið að sýna elzta löggjafarþingi heims slíkt mál sem þetta.

Í 2. mgr. 2. gr. þessa frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjörfundi skal þó eigi slita síðar en kl. 2 á kjördegi. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á að greiða atkvæði.“

Hæstv. ráðh. leiðrétti að vísu þetta: kl. 22, og sagði, að meiningin væri sú, að það ætti að slíta kl. 23. Ég fagna þessu út af fyrir sig, að hæstv. ríkisstj. hefur séð, hvílíkt glapræði hún var að fara út á, og viljað þó leiðrétta að einhverju leyti.

Hæstv. ríkisstj. gefur skýringu við þessa grein í athugasemdum, og þar segir svo:

„Þetta mundi í framkvæmd verða þannig, að útidyrum kjörfundarhúss yrði lokað kl. 22,“ —þ.e. kl. 23, nú eftir skýringu hæstv. ráðherra, — „og þeir, sem þá væru komnir inn í húsið, gætu kosið.“

Þetta, komnir inn í húsið, þýðir auðvitað það, að þeir séu komnir inn í anddyri hússins. Varla mega þessir menn fara alla leið inn þangað, sem kjördeildirnar starfa, þó að þeir vilji það gjarnan, til þess að geta fengið að neyta atkvæðisréttar síns. En nú vitum við það, að anddyri kjörfundarhúsa eru venjulega mjög lítil og rúma fáa. Lokið dyrunum, segir þá hæstv. ríkisstj. Það er hennar stefna. Enda þótt tugir, jafnvel hundruð kjósenda standi utan dyra, þá skal dyrunum lokað og þeir sviptir atkvæðisrétti, sem utan dyra standa og ekki komast inn í húsin.

Mér finnst þetta ekki samboðið lýðræðislandi. Mér finnst, að það sé skylda Alþingis að auðvelda kjósendum sem allra mest að unnt er að neita atkvæðisréttar síns. Ég fyrir mitt leyti hefði ekkert við það að athuga, þó að fyrirskipað væri í lögum, að slíta skyldi kjörfundi kl. 12 á miðnætti. Í raun og veru tel ég alveg sjálfsagt að gera það. Þá er kjördagurinn liðinn. Og venjan er sennilega sú, að þetta sé gert. En þó hygg ég hitt hafi komið fyrir, að kjörfundur hafi staðið eitthvað fram yfir kl. 12 hér í Reykjavík. En að banna kjörfund kl. 10 að kvöldi eða jafnvel þó að það sé 11, sem nú er ætlazt til, það finnst mér ósæmilegt með öllu.

Ég mun ekki á þessu stigi málsins ræða ýmis önnur atriði í frv. Mér sýnist í fljótu bragði sem þau sýni flest sömu einkennin, þau einkenni, að hæstv. ríkisstj. sé hrædd, hún óttist dóm kjósenda. Þess vegna vill hún takmarka þeirra rétt til þess að neyta atkvæðisréttar síns. Það er einræðis- og ofbeldisstefna, sem hér teygir sig fram enn á ný.