21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

176. mál, matreiðslumenn á farskipum

Frsm. (Björgvin Jónsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af iðnn. eftir óskum frá Sambandi matreiðslu- og framreiðslumanna, og fylgir því allýtarleg grg., þannig að þess gerist ekki þörf að skýra til muna hinar ýmsu gr. frv. Iðnn. deildarinnar stendur óskipt að flutningi málsins, en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að fylgja og flytja brtt. N. hefur sent frv. til umsagnar skipafélögum og Alþýðusambandi Íslands. Alþýðusamband Íslands mælir eindregið með framgangi málsins, en skipafélögin telja sig mótfallin því.

N. telur að athuguðu máli, að þar sem hér er um frv. að ræða, sem ekki eykur á nokkurn hátt útgjöld skipafélaganna, heldur á þvert á móti að geta orðið til sparnaðar, þá sé ekki ástæða til að taka mótmæli skipafélaganna til greina. Matreiðsla og framreiðsla var löggilt sem iðngrein árið 1941, og árið 1955 tók matsveina- og veitingaþjónaskólinn til starfa í sjómannaskólanum. Það virðist því augljóst, að nauðsynlegt er að veita hinum iðnlærðu matsveinum og framreiðslumönnum svipaðar tryggingar í lögum hvað við kemur þeim störfum, er beinlínis heyra undir iðngrein þeirra, eins og iðnaðarmenn í öðrum iðngreinum hafa nú þegar. Engum dytti í hug í dag að ráða matsvein eða framreiðslumann sem rafveitustjóra, svo að dæmi séu nefnd, og enda þótt einhverjum dytti slíkt í hug, þá mundi sá hinn sami fljótlega reka sig á lögvernd þá, sem rafvirkjar og rafmagnsfræðingar njóta hvað við kemur þeim störfum. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu í lögum, að skipafélag geti ráðið rafvirkja eða mann alveg ófaglærðan í framreiðslu eða matreiðslu til brytastöðu á skipi.

Telja má eðlilegt, að þeir iðnaðarmenn, sem lagt hafa á sig iðnnám í þessum greinum, vilji fá forgangsaðstöðu til starfa, er beinlínis heyra undir iðngrein þeirra. Þá er og þess að geta, að mjög mikil verðmæti fara í gegnum hendur þeirra manna, sem fást við þessi störf. Á sérþekking í faginu að tryggja það að öðru jöfnu, að verðmætin séu betur nýtt. Hinn kunni útgerðarmaður Guðmundur Jörundsson gat þess t. d. í útvarpserindi fyrir fáum dögum, að hann þekkti þess dæmi, að allt að100 þús. kr. munur væri á fæðiskostnaði sambærilegra skipa á einu ári.

Iðnnám ásamt þriggja vetra skólagöngu á og hlýtur að tryggja það, að matsveinar og brytar geti látíð í té fyrsta flokks fæði við lágmarkskostnaði. En það er og hlýtur að vera forgangskrafa í þessum þætti framleiðslunnar eins og öllum öðrum, að unnt sé að skapa hámarksnýtni fyrir lágmarksverð.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði, sem tryggja það, að þeir ófaglærðir menn, sem nú vinna að þessum störfum, geti á næstu fimm árum eftir gildistöku laganna fengið viðurkenningu til starfans. Hér er um sanngirnismál að ræða og fylgt sömu venjum og áður hefur verið gert við setningu hliðstæðra laga.

6. gr. er aðallega sett í l. með tilliti til fiskiflotans, en þar er enn þá mjög örðugt að fá til starfa lærða matreiðslumenn. Hins er rétt að geta, að hlutarsjómenn greiða sjálfir fæðiskostnað sinn, og kemur misræmi í fæðiskostnaði hinna ýmsu skipa hvergi jafngreinilega í ljós og þar, þar sem mismunurinn nemur oft hundruðum króna og jafnvel þúsundum hjá skipverjum á einstökum skipum á einu úthaldi. Sést jafnvel það gleggst á því, hver nauðsyn ber til þess, að menn með sérþekkingu í matreiðslu séu á sem flestum skipum.

Mál þetta hefur mjög lengi verið eitt helzta baráttumál Sambands matreiðslu- og framreiðslumanna. Vona ég, að hv. deild taki því með velvild og skilningi, þar sem fullyrða má, að það er til bófa.

Ég vil svo aðeins endurtaka, að einstakir nm. í iðnn. hafa áskilið sér rétt til að flytja og fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.