16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2315)

128. mál, saga Íslands í tveim heimsstyrjöldum

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. um söfnun erlendra heimilda að sögu Íslands í heimsstyrjöldinni. Nefndin hefur leitað álits Háskóla Íslands um till., og mælir háskólinn eða rektor fyrir hans hönd eindregið með samþykkt hennar og telur þetta mikilsvert mál á sínu sviði.

Nefndin hefur einnig leitað álits menntamálaráðs, og mælir það einnig með till., telur, að hægt muni verða að bjarga ýmsum heimildum, en óskar eftir því, að þessi rannsókn verði einnig látin ná til styrjaldarinnar 1914–18, þar sem slík heimildasöfnun fyrir það tímabil hafi aldrei farið fram.

Þess vegna mælir allshn. með því, að till. verði samþykkt með brtt., sem fluttar eru á þskj. 359 samkvæmt óskum menntamálaráðs.