30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2348)

133. mál, söngkennsla

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að kanna, hvort ekki muni fært að taka upp umferðarkennslu í söng við þá barnaskóla, þar sem ekki eru starfandi söngkennarar.“

Allshn. hefur haft þessa till. til meðferðar og liggur fyrir nál. á þskj. 417 frá þrem nefndarmönnum, sem mæla með samþykkt hennar. Aðrir þrír nefndarmenn voru á fundi, þegar málið var til afgreiðslu í nefndinni, en töldu sig þá vanbúna að taka afstöðu til þess.

Svo sem séð verður á nál., hefur allshn. leitað álits fræðslumálastjóra og Sambands ísl. barnakennara um till., og mæla báðir þessir aðilar með því, að hún verði samþykkt.

Eins og fram kom á sínum tíma í greinargóðri framsöguræðu hv. flm., 2. varam. S-M., er till. fram borin til þess að stuðla að nokkrum úrbótum á sviði söngfræðslu í skólum í fámennari byggðarlögum, þar sem ekki er kostur sérmenntaðra manna til að annast þennan þátt barna- og unglingafræðslunnar, sem margir telja mjög mikilvægan, en víða er að mestu eða jafnvel öllu vanræktur sökum skorts á kennslukröftum. Í gildandi ]ögum um fræðslu barna er svo fyrir mælt, að söngur skuli kenndur öllum börnum á skólaskyldualdri. Mun það ekki vera nein hending, að það ákvæði hefur verið sett við hlið annarra um hagnýtari fræðslu, heldur eðlilegt mat á sönglistinni og mætti hennar til þess að þroska uppvaxandi kynslóð. Virðist sú ósk ekki fram borin að ófyrirsynju, að nokkur bráðabirgðaúrræði séu fundin, sem tryggi öllum börnum í landinu einhver kynni af því söngnámi, sem lögskylt er að veita þeim, en í þá átt gengur sú till., sem hér ræðir um.

Að öðru leyti er mál þetta svo ýtarlega reifað bæði í grg. og fylgiskjölum með nál., að ég sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.