30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2446)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Flm. till. þessarar, hv. þm. N-Þ., gerði rækilega grein fyrir henni, er hann lagði hana fram. Ég get því verið stuttorður um efni hennar. Tilgangur með henni er að kalla fram með endurskoðun athugun á því, hvar heppilegast sé, að aðsetur ríkisstofnana sé og embættismannanna í landinu.

Menn hafa áhyggjur af ójafnvægi í byggð landsins. Mörg fjárveiting af opinberu fé hefur verið gerð á seinni árum til þess að draga úr ójafnvæginu, Þetta hefur verið til mikilla bóta, en samt ekki hrokkið. Vissir staðir og þá fyrst og fremst höfuðborgin draga til sín fólkið með ómótstæðilegu afli frá minni máttar stöðum. Í þessu er hætta fólgin fyrir framtíðarhagsæld og hamingju þjóðarinnar. Um það munu ekki almennt skiptar skoðanir.

Aðsetur ríkisstofnana og embættismanna hafa í þessu sambandi mikla þýðingu. Dreifing valds og fjár og verkefna á vegum hins opinbera vinnur á móti því, að þjóðin hnappist saman og nytji ekki land sitt svo sem vera ber og hagfelldast er. Ríkisstofnanir og góðir embættismenn eru aflgjafar umhverfi sínu og auka byggðaröryggi og búsetufestu í grennd sinni. Mikilsvert er að slíkum aflgjöfum séu rétt valdir aðsetursstaðir. Á það auðvitað að ráða við aðsetursstaðaval, að aðstaða sé fullkomin til þess, að stofnunin eða embættismaðurinn geti notið sín, en einnig að öðru jöfnu, að þjóðfélagslega sé heppilegt að efla staðinn með aðsetrinu.

Miklar breytingar hafa orðið í landinu seinustu ár: Samgöngur allt aðrar og betri en áður, póstgöngur sömuleiðis, sími tiltækur, svo að segja eftir þörfum. Þessar breytingar gera eðlilega endurskoðun aðsetursstaðanna nú, miðað við breytingar, sem kynni að vera rétt að gera á því, sem er, en jafnframt ætti endurskoðunin að geta orðið grundvöllur fyrir viðbætur framtíðarinnar. Um það verður að minnsta kosti varla deilt, að umrædd endurskoðun er réttmæt viðleitni til þess að reyna að hafa áhrif á þróun í þessum efnum.

Fjvn. mælir með till. óbreyttri í meginatriðum. Einn nm., hv. þm. Borgf. (PO), var þó ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í n. N. sendi till. til stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga til umsagnar. Stjórn sambandsins lagði till. fyrir fulltrúaráð sambandsins til athugunar og umræðu. Bæði stjórn sambandsins og fulltrúaráð þess tjáðu sig síðan einróma meðmælt tili. með lítils háttar breytingu, sem fjvn. telur rétt að taka til greina. Er sú breyting í því fólgin, að Samband ísl. sveitarfélaga verði ásamt þingum landsfjórðunganna gefinn kostur á að láta fulltrúa frá sér taka þátt í endurskoðuninni. Má það teljast bæði sanngjarnt og eðlilegt. Ætlazt er til, að fjórðungsþingin svonefndu fái að láta einn fulltrúa hvert taka þátt í endurskoðuninni, en þau eru starfandi austan-, norðan- og vestanlands. Sunnlendingar geta vitanlega stofnað sitt fjórðungsþing, ef þeim þætti ástæða til, og öðlazt með því aðild að þessari endurskoðun.

Gera verður ráð fyrir, að ríkisstj. láti einhverja úr hópi reyndustu og víðsýnustu starfsmanna sinna vinna að endurskoðuninni. Ætti þess vegna að vera með till. sæmilega fyrir því séð, að verkefna- og staðháttaþekking geti verið fyrir hendi hjá þeim, er endurskoðunina gera. Að öðrum kosti væri endurskoðunin líka þýðingarlítil. Og auðvitað dettur mér ekki í hug, að hægt sé fyrir fram að vera víss um, að umrædd endurskoðun verði að stórfelldu gagni. En hitt liggur ljóst fyrir, að hún er réttmæt og rökrétt tilraun til þess að hafa áhrif til mótspyrnu óheppilegri þróun í búsetumálum þjóðarinnar, og þess vegna mælir fjvn. með samþykkt hennar að tilskilinni þeirri litlu breytingu, sem er að finna á þskj, 511 og ég hef gert grein fyrir.