14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

73. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það hefur verið látið í veðri vaka, að tilgangur þessa frv. væri sá að friða kjördaginn, eins og það hefur verið orðað. Eins og komið hefur fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. og annarra sjálfstæðismanna, sem um frv. hafa talað, þar sem það hefur verið til meðferðar, í Ed., er það ljóst, að árangur frv. hlýtur einmitt að vera sá gagnstæði, og ég dreg mjög í efa, að þeir, sem að þessu frv. standa, trúi því einu sinni sjálfir, að það muni ná einhverjum árangri í þessa átt. Nei, það er öllum ljóst, að tilgangur þessa frv. er allt annar, nefnilega sá, að þeir, sem að því standa, halda með réttu eða röngu, að þetta frv. geti að einhverju leyti orðið til þess að klekkja á Sjálfstfl, við kosningar þær, sem fara í hönd í næsta mánuði. Hvort svo verðar eða ekki, verður auðvitað aldrei skorið úr um, það verður aldrei sagt um það, hvort úrslit kosninga hefðu orðið einhver önnur, ef þær hefðu farið fram undir öðrum kringumstæðum.

Það er auðvitað eðlilegur hlutur, eins og stjórnmálaáhugi manna er mikill hér á landi, að þeir menn, sem áhuga hafa fyrir kosningum, beita áhrifum sínum á einn eða annan hátt til þess, að þeir, sem þeir telja sama sinnis og sig, noti atkvæðisrétt sinn, og má vel vera, að sumir þessara manna hafi gerzt aðgangsharðari við kjósendur, en góðu hófi gegnir. Hvort það á í ríkara mæli við um Sjálfstfl. en aðra flokka, verður auðvitað aldrei skorið úr um, en jafnvel þó að svo væri, verður það auðvitað mjög mikið vafamál, hvort lög, sem að einhverju leyti kynnu að ná þeim árangri að friða fólk fyrir kosningasmölun, eins og það er orðað, mundu þá ekki fyrst og fremst vera þeim flokkum í hag, sem eiga þessa duglegu menn, því að spurningin er sú, ef það kemur fyrir, að fólk gegn vilja sínum verður að fara á kjörstað til þess að losna við ágang kosningasmalanna, hvað þetta fólk kýs. Líklegast er, að það skili auðu, en ef það kýs á annað borð, má telja það sennilegast, að það kjósi heldur aðra flokka, en þann, sem það hefur orðið fyrir ágangi frá.

En þetta atriði skiptir ekki verulegu máli. Aðalatriðið er hitt, að það er sýnt, að frv. nær ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað, heldur hinum gagnstæða. En hvað sem því máli líður, og þá kem ég að því, sem er meginástæðan fyrir því, að ég er þessu frv. andvígur í þeirri mynd, sem það liggur fyrir, en hún er sú, að ég tel alla löggjöf, sem ekki er í samræmi við réttarmeðvitund almennings, vera hættulega. Ég lít svo á, að banna eigi aðeins það athæfi eitt, sem almenningur fordæmir, hitt, að fara út í það að banna hluti, sem telja verður eðlilegar athafnir manna, skapar hins vegar margvíslegar hættur. Þessi hætta er fyrst og fremst fólgin í því, að gera má ráð fyrir því, að nærri því hver borgari í þjóðfélaginu verði meira eða minna brotlegur við þessi lög. Annaðhvort verður það þá þannig, að lögunum verður ekki framfylgt, og um það eru mörg dæmi, en þá er hætta á því, að af slíku leiði almennt agaleysi í þjóðfélaginu og verði til þess að menn fari þá einnig að brjóta í ríkara mæli en áður, önnur lög, sem eru í betra samræmi við réttarmeðvitund almennings. Ef aftur á móti á að framfylgja slíkri löggjöf, sem hætt væri við að mikill hluti borgaranna sé brotlegur við, þá er bæði hætta á, að það verði af meira eða minna handahófi og auk þess að slíkt verði ekki gert nema með því að taka upp aðra stjórnarhætti eða stjórnarhætti líka því, sem er í einræðislöndunum, með pólitískri lögreglu og dómstólum, — stjórnarhætti, sem flestum mönnum raunar, hvar í flokki sem þeir eru, hrýs hugur við.

Það er að vísu ekki neitt nýtt, að aðrar reglur og önnur sjónarmið en þau, sem nú eru ríkjandi, hafi legið til grundvallar þeirri löggjöf, sem sett hefur verið. Á dögum hinna einvöldu konunga var það yfirleitt þannig, að það var ekki hugsað um það, hvort hin settu lög væru í samræmi við réttarmeðvitund almennings eða ekki. Þar réðu mestu um persónulegir duttlungar einræðisherranna eða þeirra ráðgjafa, sem þeir völdu sér. Þetta var alkunna. Sem dæmi mætti nefna, að það var skömmu eftir miðja 18. öld, sem sett var hér á landi tilskipun um húsagann á Íslandi, eins og það var orðað. Hver þá var konungur í Danmörku, man ég ekki, en það skiptir ekki máli. Meðal annarra atriða, sem í þessari tilskipun stóðu, var það, að konungur talaði um það, að sér hefði borizt það til eyrna, að það væri algengt í hans ágæta landi, Íslandi, að almenningur læsi rímur, riddarasögur og aðrar slíkar bókmenntir, sem konungur taldi spillandi, og beindi þeim tilmælum til presta, hreppstjóra og annarra heldri manna, að þeir beittu áhrifum sínum til þess, að fólk hætti að lesa þessar bókmenntir og læsi heldur guðsorðabækur. í sömu tilskipun var talað um það, að konungur hefði heyrt, að það væri mjög algengt í landlegum í verstöðvum hér sunnanlands, svo sem í Vestmannaeyjum og fleiri stöðum, að sjómenn legðust í drykkju, lentu í slagsmálum o.s.frv. Því var einnig beint til stjórnarvaldanna að beita áhrifum sínum til þess, að slíkur ósiður legðist niður og sjómennirnir færu heldur í kirkju, þegar þannig stæði á.

Á þeim tímum var sá hugsunarháttur ríkjandi, að hin landsföðurlega stjórn ætti að leiða einstaklingana við hvert þeirra fótmál. Á sviði efnahagsmála var það á sama hátt, að þá var allt ákveðið af hinu opinbera. Það er t.d. misskilningur, að verðlagseftirlit o.þ.h. sé nokkur nýjung. Það var hin almennasta skipun allt fram á 19. öld, að verðlag á allri vöru og þjónustu var ákveðið af opinberum aðilum, Jafnvel í okkar fornsögum er um það talað, að þegar skip komu til landsins, mátti enga vöru selja, án þess að goðarnir hefðu áður verðlagt hana.

Þannig var það til tiltölulega skamms tíma, að ekkert var um það hirt, að þau lög, sem sett voru, væru í samræmi við réttarmeðvitund almennings. Þegar hinar frjálslyndu þjóðmálastefnur fara svo að ryðja sér til rúms í lok 18. aldar og á 19. öld, eru teknar upp aðrar reglur í þessu sambandi. Þá verður sá hugsunarháttur lagður til grundvallar löggjöfinni, að borgurunum sé yfirleitt heimilt að gera allt annað en það, sem brjóti í bága við almennar réttarhugmyndir. Það eru í hegningarlögum sett ákvæði um það, hvaða verknaður sé refsiverður, menn eru skyldaðir til að standa við gerða samninga o.s.frv., en að öðru leyti er borgurunum heimilt að hegða sér svo sem þeir sjálfir óska.

Jafnhliða þessu eru svo gerðar ráðstafanir til þess að tryggja hlutleysi dómstólanna. Dómarar eru betur settir, en ýmsir aðrir embættismenn, bæði hvað launakjör snertir og einnig eru settar hömlur við því, að þeim megi víkja frá störfum, nema sérstakar þungar sakir séu fyrir hendi, til þess að tryggja þannig öryggi réttarfarsins.

Nú á síðustu árum hafa því miður orðið mjög mikil brögð að því í ýmsum löndum, að færzt hefur í hið sama horf, sem áður var. Með vaxandi íhlutun opinberra aðila um efnahagsmálin hefur verið sett margs konar löggjöf, sem bannar mönnum athafnir og verknaði, sem ekki brjóta í bága við almenna réttarmeðvitund. Menn hafa í þessu sambandi spurt sem svo, hvort það sé af hreinni tilviljun, að réttarfarið í löndunum austan járntjalds er þannig, eða hvort það standi í nánu sambandi við það hagskipulag, sem er í þessum löndum. Sumir hafa svarað þessari spurningu játandi, aðrir neitandi, og er þetta atriði, sem um má deila, þó að ég telji, að rökin fyrir því séu þungvæg, að mikið samræmi hljóti ávallt að vera á milli hagkerfisins og réttarfarsins.

Hvað sem þessum atriðum liður, er það þó víst, að sérhver löggjöf, hvort sem hún snertir kosningar eða annað, þar sem verið er, eins og í því frv., sem hér liggur fyrir, að banna mönnum eðlilegar athafnir og verknað, skapar þjóðfélagslega hættu, Ef ekki á að framfylgja þessu, eins og ég sagði áðan, þá er hætta á, að það skapi almennt agaleysi og virðingarleysi fyrir lögunum. Ef hins vegar á að framfylgja því, kemur upp þessi spurning: Verður það þannig, að stjórnarvöldin treysti þá öðrum en þeim, sem aðhyllast þá löggjöf, sem um er að ræða, til þess að framfylgja lögunum? Ef það er þannig, að stjórnarvöldin komist að þeirri niðurstöðu, að það verði ekki öðrum treyst til þess að framfylgja þessum lögum heldur en þeim, sem eru sammála þeim í hjarta sínu, þá erum við komin yfir í það ófremdarástand, sem ríkir í einræðisríkjunum, með pólitískri lögreglu, dómstólum o.s.frv.

Ég er því hræddur um, að löggjöf af þessu tagi, þó að það hafi verið rakið og sé öllum vitanlegt, í hvaða tilgangi hún er sett, geti haft afleiðingar í þjóðfélaginu, sem þeir, er að henni standa, hafa ekki gert sér fulla grein fyrir. Í stað þess að skapa frið, eins og það er orðað, geti þetta orðið til að skapa einmitt meiri átök, en nokkur geri sér grein fyrir og haft þannig ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég segi ekki, að þetta verði þannig, en fyrir þessari hættu má ekki loka augunum, og ber því að vara við því, að slík lög sem þessi verði sett.