30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

193. mál, Hótel Borg

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það munu vera þrjú ár síðan að minnsta kosti, að núverandi eigandi Hótel Borgar tilkynnti þáverandi ríkisstj., að hann væri ráðinn í því að selja Hótel Borg. Hann taldi rétt að greina ríkisstj. frá þessu, ef hún kynni að vilja fylgjast með málinu. En ástæðan til þess, að hann vildi tilkynna ríkisstj. þetta, þannig að hún gæti fylgzt með málinu, var sú, að hann sagðist ekki hafa orðið var við neina kaupendur að eigninni, sem væru ráðnir í að reka þar áfram hótel. Á hinn bóginn væru nokkuð margir kaupendur, sem vildu eignast húseignina til annarra nota.

Ríkisstj. hefur haft þetta mál til athugunar alla tíð síðan og látið fylgjast með því. Mönnum hefur verið ljóst, að það væri mikið áfall, ef svo tækist til, að Hótel Borg yrði tekin til annarra nota, en hótelrekstrar. Það er óþarfi að færa ástæðu fyrir þeirri skoðun. Það mundi verða hið mesta vandræðaástand.

Ríkisstj. hefur, bæði sú fyrrverandi og sú, sem nú starfar, verið mjög treg til að hugsa sér þann möguleika, að ríkið færi að eiga þátt í því að reka hótel. Það hefur einnig í þessu sambandi verið rætt við bæjaryfirvöld Reykjavíkur, og ríkisstj. hefur skilizt, að þau væru sömu skoðunar, að þau væru mjög treg til þess að eiga þátt í því að reka hótel. Þá hefur verið talað við félagssamtök, eins og Eimskipafélag Íslands t.d., og það hefur heldur ekki haft áhuga fyrir því að eiga hlut að hótelrekstri.

Þetta mál hefur þannig staðið nokkuð langa hríð, og gekk svo mjög lengi, að engir gáfu sig fram, sem vildu kaupa hótelið til þess að reka það áfram, þangað til loks nú ekki alls fyrir löngu, að menn hér í Reykjavík, sem eru vanir hótelrekstri og eiga ásamt fleiri mönnum hótel hér í bænum, fóru að spyrjast fyrir um þetta mál og kynna sér það. Kom þá í ljós, að þeir vildu ráðast í að kaupa Hótel Borg með það fyrír augum að reka þar áfram hótel, og ríkisstj. skilst, að þetta séu einu aðilarnir, sem hafa falazt eftir eigninni með þetta fyrir augum.

Það hafa farið fram viðræður að sjálfsögðu á milli eiganda Hótel Borgar og þessara aðila um málið, og enn fremur hafa þessir aðilar snúið sér beint til ríkisstj. og greint henni frá því, að þeir eigi þess engan kost að eignast Hótel Borg nema með þeirri fyrirgreiðslu, að hægt væri að fá ríkisábyrgð á talsverðu láni, sem þeir gætu notað til þess að standa undir útborgun þeirri, sem þarf að verða við eigendaskiptin, og til þess að stækka Hótel Borg. Þeir telja höfuðnauðsyn að fjölga þar gistiherbergjum og aðstöðu góða til þess að gera það.

Eins og segir í grg., eru það þeir Pétur Daníelsson hótelstjóri og Ragnar Guðlaugsson veitingamaður, sem standa fyrir þessum eftirgrennslunum eða samningum og mundu hafa forustu í þessum fyrirhuguðu kaupum.

Eftir að ríkisstj. hefur íhugað þetta mál og haft trúnaðarmenn starfandi í því, hefur hún tekið ákvörðun um að flytja þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, þar sem ríkisstj, er heimilað gegn þeim tryggingum, sem hún mæti gildar, að veita hlutafélagi, sem fyrirhugað er að stofna til að kaupa og reka Hótel Borg í Reykjavík, ríkisábyrgð á láni, allt að 10 millj. kr., til kaupanna og stækkunar á hótelinu.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að fara um þetta fleiri orðum; ég geri ráð fyrir, að svo sé í raun og veru ekki. Ég býst við, að öllum hv, þm. sé ljóst, að það væri mikið áfall, ef Hótel Borg yrði tekið og notað í öðru skyni, en til hótelrekstrar, og það megi ekki koma fyrir. Það mun ekki vera um margar leiðir að velja til þess að koma í veg fyrir það, og eins og stendur, sýnist ríkisstj., að þessi leið, sem hér er stungið upp á, að veita væntanlegu félagi þessa fyrirgreiðslu og þennan stuðning, sé í raun og veru eina leiðin til þess að leysa málið. Það mætti segja, að til væri önnur leið, sem sé sú, að ríkið hefði beinlínis forgöngu um að kaupa hótelið, og þá vafasamt, að nokkur aðili annar mundi vilja vera í félagi við ríkið um það, en þá leið telur ríkisstj. ekki færa.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari fyrri umr.