03.06.1958
Sameinað þing: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2529)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Ólafur Thors:

Ég er nú út af fyrir mig ánægður með það, að ekki aðeins hefur umboðsmaður Sjálfstfl. í þessari nefnd, hv. allshn., lýst yfir, að hv. frsm. n. hafi ekki talað fyrir hönd n., heldur hefur hann einnig meðgengið það sjálfur, og það er það, sem fyrir mér vakti. Hann má svo náttúrlega ekki rugla því saman, að n. í heild hefur afgreitt málið á æskilegan hátt, með mér er nær að segja óvenjulegum hraða, og svo hinu, að hans ummæli voru óþörf, að ég ekki kveði sterkara á um það. Þau voru óþörf og óviðeigandi.

Ég ætla ekki að taka upp eldhús núna. Verður það ekki í kvöld aftur? Þó að ég fái þar ekki orðið, þá tala áreiðanlega margir mér skemmtilegri og rökfimari menn þar. En ef hv. þm, er að minna á, að gengið hafi verið frá iðnaðarfyrirtækjum undir minni stjórn í algeru fjárþroti, — hann á víst við sementsverksmiðjuna, — þá minni ég hann á það, að ég held, að ég hafi átt kannske öðrum meiri þátt í að útvega fé til þess og fá erlent lán til allra efnis- og vélakaupa. Ég get vel gert grein fyrir því, að ég hafði átt von á meiri stuðningi úr fleiri áttum til að fullnægja innlendum þörfum, og ég mundi gera það með miklu skeleggari hætti, en ég geri nú, ef ég ætti von á því, að þeir, sem þeim hnútum eru kunnugastir, vildu taka þátt í þeim umræðum. Það upplýsist allt á sínum tíma. Ég dreg ekkert í efa, að núv. hæstv. iðnmrh. hafi viljað iðnaðinum vel, og ég hef enga ástæðu til þess að bera hann öðrum sökum. En ef maður ætlar að taka alveg bókstaflega það, sem hv. 5. landsk. sagði um afrek hans og lánsfjárútveganir til þeirra þarfa, þá rekur maður sig á þá staðreynd, að maðurinn, sem þessi ummæli hefur, telur þó mikla nauðsyn að samþykkja till., sem hér liggur fyrir, enda þótt hann telji eiginlega ekkert fé fyrir hendi til að fullnægja þörfunum.

Maður rekur sig á þessa staðreynd, sem hlýtur að varpa ofur litlum skugga á afrek hæstv. iðnmrh. um að fullnægja sinni innri þörf og mikla vilja um að útvega lánsfé frá hlutaðeigandi bönkum. Ef iðnmrh. hefði getað fullnægt þörfinni, veit ég, að þessi ungi þm., samvizkusamur eins og hann áreiðanlega er, hefði þá sagt: Ja, okkar ágæti iðnmrh. er búinn að vinna svo mikil afrek á þessu sviði, að ég sef rólega og mín annars viðkvæma samvizka mun blunda í heilagri ró í nokkra mánuði, þangað til ég get aftur gerzt sjálfur flm. að þessari till. og fengið þá þann heiður, sem ég öfunda hv, núv. flm. af, og látið það í pokahornið hjá mér, því að þar er lítið fyrir.