07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2566)

17. mál, eftirgjöf lána

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt það þyki nú óviðfelldið að tala, eftir að hv. 1. þm. Rang. er búinn að tala sig dauðan og vel það, þá held ég, að ég megi samt til með að segja nokkur orð til að reyna að benda á einstaka vitleysur, sem hann fór með.

Þegar þessi till. kom hér til tals í vetur, þá benti ég á það, að sveitirnar, sem hefðu fengið lánin, eða hreppsnefndirnar, sem skiptu þeim milli einstaklinganna, hefðu haft mjög misjafnan hátt um það, hvernig þær skiptu lánunum. Sumar höfðu skipt þeim á kú í sveitinni, aðrar höfðu skipt þeim eftir fóðurvöntun manna, þær þriðju höfðu skipt þeim eftir efnum og ástæðum, og enn aðrar höfðu svo farið ýmsa millivegu þarna á milli. Afleiðingin af þessu væri sú, að sumir af þeim mönnum, sem höfðu fengið hvað stærst lán, væru efnuðustu og bezt stæðu mennirnir í bændastéttinni og það væri þess vegna rangt að gefa öll lánin eftir gagnvart þeim, sem lánin hefðu fengið. Þetta benti ég þá á. Seinna sýndi ég þetta með dæmum í blaðagrein, tók þá bændur, sem ég hélt þá að væru svo efnum búnir, að þeir mundu lenda í stóreignaskatti, tók embættismenn, sem höfðu sæmilega há laun, sams konar laun og embættismenn, sem lifa eingöngu á sínum launum í kaupstöðum, og höfðu fengið lán, tók svo vel stæða bændur, sem höfðu fengið lán, og tók svo illa stæða bændur, sem höfðu fengið lán, og þegar ætti að gefa öllum þessum mönnum eftir, þá kæmi fram innbyrðis á milli þeirra hróplegt ranglæti.

Núna liggja fyrir í nýlega útkomnu blaði af Frey, það er nr. 7 og 8 1958, aprílblaðið, ýtarlegar skýrslur, sem safnað hefur verið af Stéttarsambandi bænda og unnið að lengi, búið að vinna að því í þrjú ár, þar sem hafa verið teknir 6.041 bóndi á landinu, sleppt opinberu búunum og hálfopinberu búunum, t.d. Hvanneyrarbúinu, Hestsbúinu, Vífilsstaðabúinu, Laugardælabúinu o.s.frv., svo að ýmis af þessum stærstu búum, sem eru að sumu leyti eða öllu leyti opinber eign, eru ekki tekin þarna með, en niðurstaðan af hinu sýnir, að hagur bændanna um landið er ákaflega misjafn. Þar koma fram nettótekjur bændanna sem heild að meðaltali í hverri sýslu. Þar er meðalbóndi í Árnessýslu með nærri 50 þús. kr., — hún er hæst, — en Austurlandssýslurnar, sem eru lægstar, sú lægsta kemst niður í 24 þús. kr. og hinar niður í 27 þús. og 28 þús. kr. tekjur á meðalbónda. Hér er að ræða um meðalbónda í hellum sýslum. Það sýnir, að þeir, sem fengu fóðurbætislánin hérna á Suðurlandsundirlendinu, eru bezt stæðu meðalbændur á landinu og það langbezt stæðu meðalbændur í landinu.

Það liggja líka núna fyrir opinberar skýrslur frá hagstofunni um, hvernig það var með heyöflun og það skakkafall, sem menn urðu fyrir af völdum óþurrkanna, t.d. í sýslum sunnanlands. Það sýnir sig, að á Suðurlandinu minnkaði heyöflunin þetta ár ofur lítið, — ég vil segja ofur lítið, — því að það er ekki mikið, þegar talað er um heilar sýslur. Hún minnkaði niður 1 84 og 83% af meðaltali tveggja undanfarinna ára. Og skepnunum fækkaði. Þeim fækkaði t.d. í Rangárvallasýslunni, þar fækkaði kúnum úr 4,279 og niður í 4247. Það munaði 30 kúm, sem þeim fækkaði um í Rangárvallasýslunni. Geldneytum fækkaði nokkru meira. Þeim fækkaði úr 1.388 niður í 1.207. Það er dálítið meira. Og kálfunum tiltölulega mest. Þeir settu á lítið af kálfum. Þeim fækkaði úr 722 niður í 458. En árið á eftir voru kýrnar orðnar 4.684, þá voru þær orðnar 400 fleiri en þær voru árið áður, en óþurrkarnir komu, og þá voru geldneytin ekki búin að ná sér upp, því að kálfarnir voru svo fáir árið áður. Þau voru ekki orðin nema á ellefta hundrað. En kálfarnir voru aftur komnir í fulla tölu, því að þá var kominn fullur gangur í allt saman. Svona var það í Rangárvallasýslunni. Og sauðfénu fjölgaði um 30% veturinn eftir óþurrkana.

En ef við skreppum austur á landið, sem Ingólfur, 1. þm. Rang., er að bera saman við héruðin hér syðra, hvað sjáum við þá þar? Þá sjáum við, að þegar harðindin koma þar, minnkar skepnufjöldinn niður í 65% af því, sem hann var, áður en þau komu, og heyin niður í 60% af því, sem áður var, Og það tekur sex ár, — sex ár, — frá því harðindin koma og þangað til talan er aftur komin upp í sama og hún var fyrir. Og þetta ber hann saman og segir, að þetta sé alveg sambærilegt. Að kynna sér málið, það hefur honum ekki dottið í hug, og að fara yfir opinberar skýrslur, sem fyrir liggja, það hefur hann ekki reynt. Þess vegna er þessi samanburður, sem hann er hér með, hvað þetta snertir algerlega út í hött.

Annars er nú sannleikurinn sá, að þegar ég fyrst talaði um þetta hér og till. var hér til fyrri umr., þá var ég að hugsa um, hvort ég ætti nú heldur að gera að tala um málið eins og ég þá gerði og benda á það ranglæti, sem kæmi fram gagnvart bændunum í þessari algeru eftirgjöf, eða ég ætti að benda á hitt, að till. ætti ekki erindi á Alþ. og að forseti ætti að vísa henni kalt og rólega frá, því að mér er spurn: Hvernig getur Alþ. ákveðið, að einhver júridiskt sjálfstæður aðili, eins og bjargráðasjóður er, gefi eftir svo og svo mikið af því fé, sem hann raunverulega á? Þetta er kannske hægt í einræðislöndum, þar sem stjórnin ræður yfir einstaklingunum og getur skipað fyrir, hvað þeir gera, en ég held það sé ekki til í lýðræðislöndum. Og þó að það sé út af fyrir sig rétt, að bjargráðasjóðurinn sé settur með lögum, sem Alþ. hafi sett, og starfi undir þeim, þá, á meðan hann starfar undir þeim sem algerlega sjálfstæður aðili, heyrir hann ekki á nokkurn hátt undir yfirráð Alþingis, nema ný lög komi til. Lög um bjargráðasjóð eru frá 1913, að hann var stofnaður. Þeim hefur verið breytt nokkrum sinnum. Þá voru lagðir í hann tvennir 25 aurar, aðrir frá bæjar- og sveitarfélögum og hinir frá ríkinu. Seinna var þetta tekið af í nokkur ár, og hafði bjargráðasjóður þá engar tekjur. Nú eru það orðnar 2 kr., sem hann hefur. Af þessu myndar hann sjóði, annars vegar sérsjóði, sem eru eign viðkomandi héraða og ekki má grípa til, nema þegar héruðin lenda í því vandræðaástandi, að þau þurfa að fá útborgað úr sjóðnum, ekki sem lán, heldur taka þau það bara úr sínum eigin sjóði til að verja hallæri á mönnum eða fénaði, hungurvofu, sem vofir yfir mönnum eða fénaði. Annars má ekki hreyfa sérsjóðinn. Hitt, sem kemur frá því opinbera, þær 2 kr., sem núna koma þaðan, renna í sameiginlegan sjóð, og úr honum er lánað. Úr þeim sameiginlega sjóði er lánað, og hann er núna, þegar frá eru tekin þessi lán, sem ríkissjóður og Alþingi gáfu honum, liðlega 3 millj. kr. Ekkert af þessum héruðum, hvorki á Austurlandi né á Suðurlandinu, taldi sig vera orðið svo illa stætt, að það þyrfti á að halda að fá útborgað úr sérsjóðunum, — ekkert gerði það. Þeir stóðu allir óhreyfðir. Enginn af þeim var kominn í þá nauð. En þeir vildu fá lán úr sameiginlega sjóðnum, og hann hrökk ekki til. Þá hljóp Alþingi undir bagga, eða réttara sagt ríkisstjórnin og seinna Alþingi, og lét fé úr ríkissjóði, til þess að hægt væri að veita lán. Þessi lán voru veitt þrisvar sinnum. Fyrst var veitt lán á Austurland vegna sams konar óþurrka og seinna komu hér á Suðurlandi og veitt nákvæmlega alveg á sömu forsendum á báðum stöðunum, eins og 1. þm. Rang. hefur tekið fram. En svo, þegar harðindin héldu áfram á Austurlandi, þegar þau voru ekki eitt ár eða tvö ár, heldur urðu þau þar í fimm ár, þá voru veitt ný lán og þau voru veitt á allt öðrum grundvelli og allt öðruvísi upp gerð. Hin voru veitt til sveitarfélaganna með tilliti til þess eingöngu, hvað mikið vantaði af fóðri, til þess að það væri venjulegur fóðurforði til handa búfénu, eins og síðan var gert hér syðra, og í báðum tilfellum af sömu mönnum á sömu forsendunum og veitt hreppsfélögunum, sem skiptu þeim á milli bænda. Hin voru veitt á þeim grundvelli, að það var skrifuð upp eign hvers manns, sem lán fékk, eins og væri um þrotabú að ræða, og teknar upp allar hans skuldir og athugað, hvað hann þyrfti að fá mikið lán, til þess að það væri hugsanlegt, að hann gæti staðið undir skuldunum og haldið áfram að halda sínu búi. Þessi lán voru gefin eftir. Þegar harðindin héldu áfram og menn voru ekki búnir að rétta við aftur, voru þessi lán gefin eftir. Það er þess vegna fjarri því að vera sambærilegt, þessi lán og hin lánin. Þau eru eins ósambærileg og mest getur verið. Af fóðurkaupalánunum fyrir austan var mér sagt í morgun að búið væri að borga fullan sjötta hluta, en af lánunum hérna á Suðurlandinu og Suðvesturlandinu hafa á milli 50 og 100 manns borgað að fullu upp, og það eru allt menn, sem ekki hafa tekið neitt tillit til skrifa mannanna, sem vilja láta gefa lánin eftir. Enginn af þeim, sem greitt hafa fóðurkaupalánin syðra upp, er í Árnes- eða Rangárvallasýslu. Þeir eru flestir þar, sem búin eru minni og tekjur bændanna miklu minni, eins og t.d. í Skarðsstrandarhreppi í Dalasýslu, þar sem annar hver maður er búinn að borga sín lán, og fleiri staði mætti telja, þar sem aðstæðurnar eru miklu lélegri, að öllum virðist, heldur en hjá bændunum á Suðurlandsundirlendinu.

Það er þess vegna hugsunarhátturinn, sem hérna hefur fyrst og fremst komið til. Það er gerð bændanna sjálfra og hugsunarhátturinn, sem hérna hefur fyrst og fremst komið til. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að sú meðferð, sem þessi lán virðast vera að fá hjá stjórn bjargráðasjóðsins, sem að vísu núna hefur legið nokkuð mikið niðri, af því að einn stjórnarnefndarmaðurinn, fiskimálastjórinn, hefur ekki verið í landinu siðan um áramót, sé í alla staði eðlileg og sjálfsögð. Ég var að spyrja í morgun um nokkra hreppa, sem ég víssi að voru á ferðinni tiltölulega snemma með sínar till. um afborganir. Ég spurði t.d. um einn, sem er hér á Suðvesturlandi, ekki á sjálfu Suðurlandinu. Þar hafði hreppsnefndin lagt til, að einum bónda yrði gefinn eftir nokkur hluti af sínu láni, og sendi um leið afborganir fyrir hina alla. Ég spurði um annan hrepp, sem ég vissi að var búinn að halda fund um málið. Hann hafði sent afborgun og vexti af öllum lánum hreppsbúa og taldi sig ekki þurfa né vilja nein afföll. En frá Árnes- og Rangárvallasýslubændunum, bændunum, sem hafa hæstar og næsthæstar meðaltekjur á bónda í sýslu á öllu landinu, hefur ekkert heyrzt. Þeir hafa engir svarað og ekkert látið frá sér heyra. Það bendir þess vegna allt á það, að þessi till., sem hér er fram komin, sé gerð til að sýnast, þó að hver maður, sem vildi hugsa um málið, sæi, að það er ekki hægt að gefa fé í ár ákveðnum aðila — í fyrra bjargráðasjóði og taka það aftur nú og gefa það öðrum. Slík tillaga er samt sem áður komin fram, af því að ekki var hugsað um það eða menn mundu ekki að athuga það, að fénu var áður ráðstafað. Hún er að ófyrirsynju fram komin, hefði aldrei átt að sjást á Alþingi, því að hún er ekki þingleg og blettur á lýðræðinu í landinu. Við getum ekki gert neina þingssamþykkt um það, að Magnús Jónsson frá Mel eða einhver og einhver í landinu skuli gefa sínum skuldunautum eftir svo og svo mikið af skuldum. Við getum búið til lög um það, að þetta sé gert, eins og kreppulögin á sínum tíma. Við getum búið til slík lög og haft þau á einn eða annan hátt, en ekki tekið einstakan einstakling, þó að hann starfi eftir lögum, sem Alþingi hefur sett, ef hann ekki brýtur þau á neinn máta, — þá getum við ekki tekið hann og sagt: Heyrðu góði, þú átt nú að fara svona og svona með það fé, sem þú hefur til umráða.

Ég er hræddur um, að góðum og gegnum heildsölum mundi þykja það nokkuð hart, ef Alþingi kæmi allt í einu og segði: Ja, það skulda þér nú einhverjir kaupmenn. Gefðu þeim bara eftir. — Þeir kæmu líklega um leið og segðu: Ég læt ríkissjóð borga mismuninn, — eins og 1. þm, Rang. sagði nú að hefði staðið til, en hefði bara gleymzt eiginlega, því að hann sagði það fullum fetum, að það væri nú náttúrlega ekki neitt, þó að bjargráðasjóðurinn ætti þarna 2 millj. af þessu, því að ríkissjóður gæti bara tekið það upp á fjárlög og borgað honum aftur, — alla þá upphæðina líklegast líka. En þá hefði málið horft allt öðruvísi við, ef það hefði komið till. um það, að Alþingi legði 121/2 millj. kr. til bjargráðasjóðs, til þess að hann gæti gefið eftir öll lánin. Þá horfði málið allt öðruvísi við.

Loks vil ég geta þess, af því að framsögumaður málsins er hér ekki við, en hann mun hafa um daginn nefnt bændur í stóreignaskatti, að þegar ég skrifaði greinina í vetur, þá reyndi ég, eins og ég sagði áðan, að taka úr bændur, sem ég héldi að mundu lenda í stóreignaskatti, og athugaði, hvað þrír af þeim bændum hefðu fengið há lán, Þeir voru með 40 og 20 og 25 þús. kr. lán, þessir þrír bændur, sem ég þá tók. Og ég var þá ekki víss um, það lá þá ekki fyrir, hverjir lentu í stóreignaskatti, og því var það, að strax og ég heyrði, að búið væri að leggja hann á, þá hringdi ég og spurði, hvaða bændur hefðu lent í þessum stóreignaskatti, og sem betur fer, voru þeir nú fleiri en fimm, þeir voru 18, sem voru lesnir upp fyrir mig í símann. En viðurkennt skal það, að sumir af þeim, líklega 4 eða 5, kannske 5, hafa aðrar tekjur með búunum, alveg eins og t.d. prestar og kennarar og ýmsir aðrir, sem fengu þessi fóðurefniskaupalán, en þessir, sem ég hafði nefnt, voru þar allir, svo að ég hafði gizkað alveg rétt á, hverjir mundu lenda í honum, þegar ég tók þá af handahófi. Og það er ekki það, sem mér skildist að þingmaður SuðurÞingeyinga meinti, að þeir hefðu fengið stóreignaskatt; það hefur enginn neitt á móti því. Ég vildi, að það væru miklu fleiri, sem hefðu fengið hann. En það var hitt, að menn, sem hefðu fengið stóreignaskatt, væru þannig stæðir, að það væri nauðsynlegt að gefa þeim eftir lán. Það var það, sem hann vildi undirstrika með því, og það geri ég líka. Ég tel ekki minnstu þörf á því að gefa mönnum, sem lenda í háum stóreignaskatti, eins og einn af þessum mönnum gerir og meira og mínna hinir líka, eftir sín fóðurkaupalán. Ég tel miklu meiri þörf á því að efla þennan sameiginlega sjóð, bjargráðasjóð, svo að Alþingi þurfi ekki að lána og lána og lána, hvenær sem eitthvað ber út af. Hann er búinn að starfa í 45 ár, bjargráðasjóðurinn, og hann á orðið til 3 millj. kr. liðugar í sameignarsjóðnum, — það er allt og sumt, — og er þess vegna getulaus til allra hluta, sem gera skal. Og síðan 1913 hefur framlagið í hann verið hækkað úr 25 aurum og upp í 2 krónur. Það er velvildin, sem Alþingi hefur sýnt honum, og svo tekið af honum allar tekjurnar, sem í hann áttu að renna, í nokkur ár. Ég tel miklu meiri þörf á því, því að ég er nú þannig gerður, að þó að ég hugsi um liðandi stund, þá vil ég líka sjá framtíðina og hugsa um hana.