30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2600)

85. mál, sjálfvirk símastöð í Vestmannaeyjum

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þáltill. um sjálfvirka símstöð í Vestmannaeyjum, sem snemma á þessu þingi var flutt af hv. þm. Vestm. (JJós) og mér, fjallar um það að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að landssíminn komi upp sjálfvirkri símstöð í Vestmannaeyjum hið fyrsta, er verða má. Fjvn. hefur haft þessa till. til athugunar að undanförnu og hefur beðið landssimann um upplýsingar um málið, og fyrir nokkru hafa nefndinni borizt upplýsingar og áætlanir landssímans um bæði þessa framkvæmd og nokkrar aðrar hliðstæðar framkvæmdir. Í þeirri áætlun gerir landssíminn ráð fyrir, að sjálfvirk símstöð geti tekið til starfa í Vestmannaeyjum árið 1962, og með tilliti til þess, sem í þeirri framkvæmdaráætlun segir, finnst n. eðlilegt að fallast á þá áætlun og telur, að ef sú áætlun stenzt í framkvæmd, sé í rauninni efni till. þar með fullnægt. Fyrir því leggur n. til, að málið verði hér á Alþingi nú afgr. með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Með því að landssíminn hefur gert áætlun um að koma upp í Vestmannaeyjum sjálfvirkri símstöð, sem tekin verði í notkun á árinu 1962, og í trausti þess, að sú áætlun standist, tekur Alþingi fyrir næsta mál á dagskrá.“