12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (2637)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Umr. um þessa till. eru nú orðnar alllangar, og ég skal ekki tefja þær mikið né blanda mér í efnishlið málsins nema að litlu leyti. En það eru formsatriði, sem ég vildi vekja athygli á, sérstaklega fyrir hv. n., að till. hljóðar svo: „Alþingi ályktar, að áfengir drykkir skuli ekki veittir á kostnað ríkisins eða ríkisstofnana.“ Mér skilst, að Alþ. geti eðli sínu samkvæmt ekki gert slíka ályktun, svo að bindandi sé, nema í lagaformi, það sé ljóst, að ef þetta eigi að vera bindandi fyrir ríkisstj. og aðra aðila, sem hafa yfir risnu að ráða af hálfu ríkisins, þá verði þetta annaðhvort að vera áskorun til ríkisstj. eða þá lagaboð, sem auðvitað er vel hægt að setja. En einföld ályktun með þeim hætti, sem hér er ætlazt til að gerð sé, sé ekki bindandi, heldur ráði hver því, sem yfir risnufé hefur að ráða, hvernig hann fari með það, meðan hann fer ekki út yfir það fé, sem honum er ætlað. En ef það er rétt, að þál. geti ekki orðið skilin á annan veg en þann, að einungis sé um áskorun til réttra stjórnvalda að ræða, sem þeim getur verið meira eða minna stjórnmálaleg nauðsyn að hlíta, þá vildi ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvort nokkur þörf sé á að samþ. þessa ályktun, eins og nú er komið. Ég sé sem sagt í málgagni hæstv. forsrh. í morgun grein, sem heitir: „Á að drekka í veizlum vín?“ Það er að vísu í þeim dálki, sem heitir: „Orðið er frjálst“, svo að nokkur fyrirvari er á hafður af aðstandendum blaðsins. Höfundur greinarinnar er Stefán Kr. Vigfússon, Arnarhóli. Með leyfi hæstv. forseta, þá stendur þar:

„Mér þótti það miklar og góðar fréttir, þegar ríkisstj. tók upp þann hátt á s.l. vori að hafa ekki vínveitingar um hönd á þjóðhátíðardaginn. Mér fannst mega túlka það á þá lund, að ríkisstj. líti svo á, að því aðeins værum við frjáls þjóð í frjálsu landi, að við gerðumst ekki þrælar neinnar þeirrar nautnar eða venja, sem okkur væri niðurlæging að.“

Svo er haldið áfram í þessum dúr, en segir síðan enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá hefur ríkisstj. einnig haldið uppi sama hætti í móttökuhófi sínu á nýársdag. Slíkt er sannarlega virðingarvert, og vil ég nota tækifærið, fyrst ég tók mér penna í hönd, og þakka fyrir mitt leyti ríkisstj. fyrir þetta menningarspor, sem hún hefur stigið á samkvæmissviðinu. Það má því segja, að ríkisstj. sé fyrir sitt leyti búin að samþ. umrædda till. Það væri því meira en meðalskömm, ef þingið færi að þessu undangengnu að fella hana. Það væri eins og hnefahögg í andlit ríkisstj. og frekleg lítilsvirðing á þessari viðleitni hennar til þess að hefja samkomutízku þjóðarinnar úr þeirri niðurlægingu, sem hún nú er komin í.“

Nú vil ég að gefnu tilefni spyrja hæstv. ríkisstj.: Er það svo, að hún sé með öllu hætt að veita vín í veizlum, eða er það einungis þegar svokölluð alþýða á þess kost að heimsækja hana, en helzt ef til vill, að þegar höfðingjarnir koma þar í lokaðar veizlur, þá fái hver að drekka eins og hann lystir? Það er mjög mikilsvert að fá þetta upplýst, því að ef það skyldi vera svo, að ef ríkisstj. væri með öllu hætt að veita vín, þá er með öllu ástæðulaust að samþ. þessa till., því að þá felur hún ekki meira í sé,r en þegar er orðið. Mér þykir mjög sennilegt, að svo sé einmitt, að nú sé með öllu hætt við vínveitingar, þar sem kunnugt er, að sumir hæstv. ráðh., meðan þeir voru aðeins óbreyttir þm., fluttu ár eftir ár till. sama efnis og nú er, og ég trúi því vart, að þeir eigi hlut að því að halda veizlur sjálfir, þar sem þeir ráða öllum veitingum, og veiti vín, úr því að þeir vildu skora á aðra að hætta því. Eða skyldi það vera þannig, að jafnvel þeir ráðh., sem fluttu till. um að hætta vínveitingum, meðan þeir voru þm., hafi vínveitingar í veizlum, sem þeir sjálfir persónulega standa fyrir?