12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

61. mál, menntaskólasetur í Skálholti

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef fyrir mitt leyti, síður en svo á móti því, að athugun fari fram á því, hvað það mundi kosta að flytja menntaskólann á Laugarvatni að Skálholti, og get gjarnan mælt með því, að slík athugun fari fram sem fyrst. Ég hef þegar átt viðræður við húsameistara ríkisins fyrir nokkru um þetta mál og beðið hann um að greina mér frá hugmyndum sínum um kostnað af þessu, og hann gerði það, en þær voru að sjálfsögðu svo lauslegar, að ég tel ekki rétt að skýra frá niðurstöðu þeirra hér, heldur þvert á móti, að skynsamlegt sé, að þessi athugun fari fram, þannig að öllum megi verða ljóst, hvern kostnað mundi af þessari breytingu leiða, þannig að Alþ., sem að sjálfsögðu á að ákveða menntaskólum stað, geti tekið sínar ákvarðanir í ljósi réttra upplýsinga.

Við þetta vildi ég aðeins bæta því, að það er Alþ. sjálft, sem á sínum tíma tók ákvörðun um, að menntaskóli í sveit, sem lagaákvæði er gildandi um, að skuli starfræktur, skuli staðsettur á Laugarvatni. Gildandi lagaákvæði eru um, að starfrækja skuli menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess í fjárl., og Alþingi tók með fjárveitingu á fjárl. til menntaskóla á Laugarvatni ákvörðun um það, að menntaskóli skuli starfræktur á Laugarvatni. Ég vil því undirstrika, að það er ein göngu á valdi Alþ. og þess eins að gera breytingar hér á.

Ég skal geta þess, að þegar þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma, eða þegar umr. um hana fóru fram, var ég persónulega þeirrar skoðunar, að aðrar aðgerðir hefðu verið heppilegri í menntaskólamálum þjóðarinnar, en þær að efna til stofnunar nýs menntaskóla á Laugarvatni. Ég taldi þá brýnni þörf vera á því að koma upp öðrum menntaskóla hér í Reykjavík eða búa svo vel að menntaskólanum í Reykjavík, að hann gæti gegnt skyldu sinni betur en hann gat þá og getur enn. En staðreynd málsins er sú, að Alþ. tók aðra ákvörðun. Alþ, tók þá ákvörðun að stofna menntaskóla á Laugarvatni, til þeirrar stofnunar er þegar búið að verja allmiklu fé, og á gildandi fjárl. er enn varið fé til þeirrar stofnunar.

Hvað sem annars má um það segja, hvort þessi ráðstöfun hafi verið skynsamleg eða óskynsamleg, hvort frekar hefði átt að gera eitthvað annað, hygg ég, að varla verði um það deilt, að hringl í þessum málum er varhugavert og sérstaklega mjög dýrt. Ég er þó ekki með þessu sérstaklega að mæla gegn því, að þetta mál, sem hér er vikið að í till., sé athugað, né heldur mæla gegn því, að í sjálfu sér kynni ekki að hafa verið heppilegra, að menntaskóli í sveit væri staðsettur t.d. í Skálholti frekar en á Laugarvatni. Þó vildi ég minna á þá höfuðröksemd, sem á sínum tíma var flutt fyrir því, að skólinn væri staðsettur á Laugarvatni, sem sagt þá, að þar væri þegar fyrir skólahverfi, það skólahverfi mundi stækka með byggingu menntaskólans þar og það mundi að mörgu leyti vera heppilegra fyrir hlutaðeigandi unglinga og ódýrara fyrir heildina að starfrækja slík skólahverfi, en hafa einstaka skóla staðsetta á við og dreif um hinar dreifðu byggðir landsins.

Hér er sem sagt um að ræða mikið, margbrotið og flókið vandamál. Það er alveg rétt hjá hv. 1. flm., að þessi till. fer ekki fram á, að tekin sé nein ákvörðun í þessu máli, heldur það eitt, að athugað sé, hvern kostnað tiltekin ráðstöfun muni hafa í för með sér. Ég tel málið allt vera þannig vaxið, að ég tel rétt, að slík athugun fari fram, og vildi því mæla með því, að till. yrði efnislega séð samþ.