11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2898)

28. mál, togarakaup

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunn staðreynd, að með byggingu togara þeirra, sem nýsköpunarstjórnin beitti sér fyrir á sínum tíma, er voru 32 talsins, var framkvæmd ein raunhæfasta atvinnubót, sem um getur hér á landi um langt skeið. Enda þótt sú hæstv. ríkisstj. sætti nokkurri gagnrýni fyrir kaup og smíði þessara skipa, hófst samt næsta ríkisstjórn, er við tók af henni, handa um áframhaldandi togarakaup. Voru þá byggðir 10 togarar, þannig að samtals voru byggð á þessum árum rúml. 40 ný togskip.

Við úthlutun þessara skipa og dreifingu þeirra um landið var tekinn upp nýr háttur. Áður hafði fjármagnið mestmegnis ráðið um það, hvar togaraútgerð var staðsett á Íslandi, með þeim afleiðingum, að svo að segja allir togararnir voru gerðir út frá Reykjavík og Hafnarfirði. Þessar tvær ríkisstjórnir, sem beittu sér fyrir fyrrgreindum togarakaupum, höfðu hins vegar forustu um það að styðja einstaklinga, bæjarog sveitafélög og ýmiss konar félagasamtök víðs vegar um land til þess að eignast þessi skip. Hafa þeir togarar, sem þjóðin á nú, því verið gerðir út í öllum landshlutum. Hefur að þeirri útgerð orðið stórkostleg atvinnubót um land allt. Togaraútgerðin úti um land hefur haft í för með sér aukna vinnslu og stórbætta hagnýtingu aflans. Mikill meiri hluti af sjávarafurðum þjóðarinnar hefur verið fluttur út í unnu ástandi eða verðmætara ástandi, en áður var. Hefur þetta aukið verðmæti heildarútflutningsframleiðslu okkar allverulega.

Þrátt fyrir hinn geigvænlega hallarekstur á togurunum síðustu árin var þeirri ákvörðun núverandi hæstv. ríkisstj, að fá heimild til þess að byggja 15 nýja togara á s.l. ári almennt fagnað. Fjöldi byggðarlaga víðs vegar um land hafði óskað eftir því að fá nýja togara, og mjög skorti víða á um það, að nægileg atvinnutæki væru fyrir hendi til þess að tryggja afkomu almennings.

En síðan lögin um heimild fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að byggja 15 nýja togara, voru samþykkt, hinn 18, des. s.l., hefur ekkert heyrzt um það, hvernig ríkisstj. hafi framkvæmt þessa heimild frá hv. Alþing. Það hefur ekkert spurzt um það, hvort ríkisstj. væri búin að semja um byggingu skipanna á ákveðnum stað í einhverju ákveðnu landi, hvort hún væri búin að fá lán til þeirra, hvaða byggðarlög ættu að fá þessi skip o.s.frv., sem sagt: allt hefur verið á huldu um það, hvernig lögin um togarakaup, sem samþykkt voru á Alþ. 18. des. s.l., yrðu framkvæmd. Þrátt fyrir þetta er ég allvongóður um það, að hæstv. ríkisstj. hafi nú tekizt í fyrsta lagi að útvega lán til þess að byggja þessi nauðsynlegu og nýju framleiðslutæki fyrir, sem miklar vonir eru bundnar við víðs vegar um land, og í öðru lagi, að undirbúningi hennar um smíði skipanna sé lengra komið, en upplýsingar hennar gefa þó ástæðu til þess að ætla, vegna þess að um þessi atriði er þjóðinni enn þá gersamlega ókunnugt.

Ég lýsi því sem sagt yfir, að á þeim mikla áhuga, sem var hjá hæstv. sjútvmrh. og ríkisstj. í heild, að því er virtist, fyrir þessum skipakaupum, hljóti að mega byggja allgóðar vonir um það, að hæstv. ríkisstj. hafi nú, nær ári eftir að lögin voru samþykkt, tekizt að útvega lán og semja um smíði á skipunum. Ég hef þess vegna leyft mér til þess að fá úr þessu skorið að bera fram svo hljóðandi fyrirspurnir til hæstv. sjútvmrh.:

1) Hvað líður byggingu hinna 15 togara samkv. lögum, sem samþykkt voru á síðasta Alþingi ?

2) Hve mikið lán hefur verið tekið til þessara skipakaupa, og hvar hefur það verið tekið ?

3) Við hverja hefur verið samið um smíði togaranna?

4) Hefur skipunum þegar verið ráðstafað til ákveðinna staða og þá hverra og til hvaða aðila?