05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

135. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 270 um, hvað liði endurskoðun laganna um verkamannabústaði.

Í aths. um stjórnarfrumvarp það, er flutt var á síðasta þingi, til laga um húsnæðismálastofnun o.fl., var sagt m.a.:

„Gert er ráð fyrir, að heildarendurskoðun lagaákvæða um verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög fari fram fyrir næsta reglulegt Alþingi og þau lagaákvæði verði síðan felld inn í þessi lög.“

Enn þá hefur þessarar endurskoðunar ekki orðið vart, en nauðsynlegt er, að almenningi verði gert ljóst, hvað henni líður og hverjar hugmyndir eru uppi varðandi þessa endurskoðun. Ýmis dagblaðanna hafa verið með sögusagnir og samanburð á raunverulegu gildi laganna um verkamannabústaði fyrir lægst launaða fólkið og talið, að vegna síhækkandi útborgana annars vegar og ákveðins tekjumarks hins vegar, hafi aðstaða verkafólks til þess að eignast íbúðir í verkamannabústöðum stórversnað. Þetta er það, sem blöðin telja.

Verkamaður, sem verður að telja fram hvern einasta eyri af vinnulaunum sínum, getur í einstökum tilfellum orðið launahærri á skattframtali en t.d. maður, sem hefur með höndum einhvers konar rekstur, og orðið af þeim ástæðum af réttinum til íbúðar í verkamannabústöðum. Ef þetta reyndist vera rétt, er nauðsynlegt við slíka endurskoðun sem hér um ræðir, að þessi ákvæði laganna verði athuguð sérstaklega.

Hvað hækkandi útborgun snertir, þá skilst mér, að sjóðsstjórn verkamannabústaða hafi haft á milli þess að velja á undanförnum árum að byggja færri íbúðir með hærra ríkisframlagi og þar með minni útborgun fyrir væntanlega íbúðareigendur eða fjölga íbúðunum og þar með minna ríkisframlag á hverja íbúð og hærri útborgun á íbúðareiganda.

Þarna er mjög vandsiglt, ef lögin eiga að þjóna sínum upphaflega tilgangi eða vera fyrst og fremst trygging þess lægst launaða til þess að koma þaki yfir höfuð sér og sinna og svo hins vegar hin mikla eftirspurn eftir þessum íbúðum.

Hið mikla umtal um hækkandi útborganir íbúðareigenda í verkamannabústöðunum mun fyrst og fremst sprottið af því, að verkamenn eiga þess yfir höfuð ekki kost að leggja til hliðar neitt af sínum daglaunum þrátt fyrir stöðuga vinnu, hvað þá heldur ef um atvinnuleysi er að ræða. Svo í öðru lagi, að mjög hefur þrengzt um möguleika manna til þess að fá lán út á 2. veðrétt eigna sinna. Við endurskoðun laganna er því nauðsynlegt, að þessi breytta aðstaða sé tekin til ýtarlegrar yfirvegunar og að öll laga- og reglugerðarákvæði séu færð til samræmis við þær aðstæður, sem verkafólk á við að búa í dag.

Þegar þessi umræddu lög um verkamannabústaði voru sett, vöktu þau miklar vonir verkamanna um langþráða lausn þessa vandamáls að eignast eigið húsnæði. Stór fjöldi úr þessum stéttum hefur þegar fengið þessar óskir sínar uppfylltar, og mörg hundruð manna bíða þess enn að fá lausn sinna mála, og vonandi verður hægt við þessa umræddu endurskoðun laganna að draga úr þeirri tortryggni þessa fólks, að lögin séu ekki lengur fyrir það.

Ég tel mér skylt að taka það fram, að ég hef ekki borið téða fsp. fram til þess að afla mér persónulegra upplýsinga, því að sjálfur hef ég nú aðstöðu með veru minni í sjóðsstjórninni sjálfri til að geta aflað mér þeirra upplýsinga, sem hér er að vænta. Ég hef borið þessa fsp. fram til hæstv. félmrh. til þess, að á opinberum vettvangi verði þessi mál skýrð, þannig að hulu tortryggni og efasemda verði svipt frá. Ég vænti þess svo, að fullnægjandi upplýsingar verði gefnar af hæstv. ráðh. varðandi þessa fsp. mína.