18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

73. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (BSt):

Ég hef áður minnzt á það, að þó að ég víki úr forsetastól og tali sem þm., þá tala ég ekki sem forseti í þau skipti. Þess vegna er ekki rétt að svara mér á þann hátt, sem hv. þm. gerði. Í þessu tilfelli átti hann að nefna mig 1. þm. Eyf. En ekki skil ég það, að forseta beri nein skylda til þess að lesa orði til orðs allar áskoranir, sem til Alþingis berast, sízt af öllu deildarforsetum, það væri þá frekar forseta Sþ. Ég geri skyldu mína í þessu efni sem forseti. Ég tilkynni, eins og nú er venja, frá hvaða aðilum erindi hafa borizt, að þau séu lögð fram á lestrarsal, þar sem allir hafa aðgang að þeim. En því er hætt, síðan vélaupptakan kom, að lesa upp frá forsetastól ágrip af innihaldi slíkra áskorana.

Í ræðu minni gerði ég grein fyrir því, hvers vegna mér þætti líklegt, að sumar áfengisvarnanefndir hefðu mælt með þessu, því að það er öllum kunnugt, að það væri í raun og veru bindindisráðstöfun að stytta kjördaginn og einkum það að vera ekki að telja atkvæðin á næturnar eftir kjördaginn. Það vitum við víst allir um, alþm. og allir, hvernig það gengur til oft og tíðum eftir þá daga.