10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Ólafur Thors:

Herra forseti, Ástæðan fyrir því, að ég hef kvatt mér hljóðs, er sú, að nú hefur verið birt bréf forsrh. Íslands, Hermanns Jónassonar, til forsrh. Sovétríkjanna, Bulganins.

Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða, a. m. k. ekki neitt verulega, efnishlið málsins. Um formshliðina vil ég fyrst segja það, að mér fellur miður, að í bréfinu skuli gæta nokkurrar eða jafnvel allmikillar kerskni, líkt og þegar menn í blaðadeilum eru að reyna að knésetja hvor annan. Ég álít, að það sé mjög auðvelt að svara með fullri einurð og fullri kurteisi og að það eitt eigi við í slíkum umræðum.

Í 16. gr. þingskapanna segir m. a.:

„Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum. Utanríkismálanefnd kýs úr sínum hópi með hlutfallskosningu þrjá menn til ráðuneytis ríkisstjórninni um utanríkismál, enda skal stjórnin ávallt bera undir þá slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“

Þessi undirnefnd utanrmn. hefur ekki verið kosin þrátt fyrir tilmæli sjálfstæðismanna í utanrmn. Það er út af fyrir sig vítavert, og ég víti það. Úr því að ekki var búið að kjósa hana áður, þá bar að kjósa hana nú, áður en bréfi forsrh. Sovétríkjanna var svarað, og bera undir hana það svar. En ef menn vildu áfram vanrækja þá skyldu, þá bar að leita annarra samráða við allt Alþingi á lokuðum fundi, og ef ég tala fyrir sjálfstæðismenn sérstaklega, þá tel ég vanrækslu mikla, að málið hefur ekki verið borið undir okkur.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja, úr því að svo hefur verið á málinu haldið, í hvers nafni hæstv. forsrh. Íslands tali í bréfi sínu. Hann gefur sjálfur í skyn, að hann tali þar fyrir hönd þjóðarinnar. Slíkt væri vitaskuld mjög æskilegt í svo stóru máli, að forsrh. þjóðarinnar talaði fyrir hönd sinnar þjóðar eða gæti gert það. Og undir öllum kringumstæðum bar honum að leitast við að fá þá aðstöðu með því að hafa samráð við þingflokkana alla. Þetta hefur, eins og ég áðan sagði, ekki verið gert. Við sjálfstæðismenn, sem við nýafstaðnar kosningar til bæjar- og sveitarstjórna fengum meira en helming greiddra atkvæða, höfum alls ekki verið um þetta mál spurðir. Blað hæstv. forsrh. segir um þetta:

„Í Morgunblaðinu er í gær kvartað undan því, að bréfið hafi ekki verið lagt fyrir Alþingi eða þingnefnd, eins og sums staðar hefur verið gert í svipuðu tilfelli, t. d. í Noregi og Danmörku. Þessa gerðist ekki þörf hér, því að vegna bréfa Bulganins þurfti ekki að taka afstöðu til atriða, sem Alþingi hafði ekki áður tekið ákveðna afstöðu til, t. d. varðandi Atlantshafsbandalagið, hlutleysi, að hér séu aðeins vopn til varnar o. s. frv.“

Þetta segir blað hæstv. forsrh. En ég mætti nú kannske leyfa mér að minna hæstv. forsrh. á það, að þegar við sjálfstæðismenn knúðum fram á Alþingi samþykkt Alþingis fyrir aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu, þá var hann sjálfur svarnastur fjandmaður þess, að þetta samþykki yrði gefið, og í hans eigin hjarta, ef dæma má eftir orðum af hans eigin vörum, þá ríkti meira vantraust á þessum samtökum en með nokkrum öðrum manni jafnvel. Nú aftur á móti byggir hæstv. forsrh. allt sitt traust á Atlantshafsbandalaginu. Um það segir hann nú í bréfinu til forsrh. Sovétríkjanna, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Hafa Íslendingar komizt að þeirri niðurstöðu, að öryggi Íslands verði að óbreyttum aðstæðum bezt tryggt með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, enda séu þau samtök helzta trygging þess, að friður haldist, meðan ekki næst samkomulag um bætta sambúð stórþjóðanna og verulega afvopnun.“

Þetta er álit hæstv. forsrh. í dag, mannsins, sem mestu vantrausti lýsti á Atlantshafsbandalagið, þegar Íslendingar tóku ákvörðun um sína þátttöku í því. Og ég leyfi mér nú að spyrja hæstv. forsrh., úr því að hans eigin afstaða til NATO hefur algerlega snúizt við og er nú í engu samræmi við fortíð hans í því máli, hvernig getur hann þá treyst því, að dómur okkar sjálfstæðismanna um gagnsemi NATO sé eilíflega óumbreytanlegur, en á því byggir hann?

Ég vil biðja menn að skilja, og ég legg áherzlu á það, að ég er ekki að gefa í skyn nokkurn skapaðan hlut um breytt álit okkar sjálfstæðismanna á NATO, heldur er ég aðeins að spyrja þann, sem sjálfur hefur snúizt algerlega gegn sinni fortíð í þessu máli, hvers vegna hann þykist mega treysta fastheldni okkar sjálfstæðismanna við fyrri afstöðu okkar án þess að spyrja okkur. Það er þetta, sem ég er að spyrja um.

Ég vil að öðru leyti slá því föstu, þó að óþarft ætti að vera, í eitt skipti fyrir öll, að Hermann Jónasson forsrh. hefur ekkert umboð til að flytja einum né neinum skilaboð í nafni Sjálfstfl., hvorki í þessu máli né neinu öðru, án þess áður að hafa leitað leyfis okkar til þess og fengið það. Og hvað segir svo hans eigið blað um vald hans til að tala í nafni þjóðarinnar í þessum efnum? Hvað segir Tíminn um það? Hann segir í þessu sama blaði eða eintaki, sem ég áðan vitnaði í, með leyfi hæstv. forseta, — það er Tíminn frá í gær, — hann segir:

„Morgunblaðið spyr um það, hvort bréfið túlki stefnu allrar ríkisstjórnarinnar. Svarið við þeirri spurningu veit þó blaðið vel, þar sem kunnugt er um, að einn stjórnarflokkurinn, Alþýðubandalagið, er andvígur þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, og hefur þátttaka hans í stjórninni ekki breytt þeirri afstöðu hans.“

Þetta segir stjórnarblaðið um þá hlið á málinu. En nú þætti mér gaman að vita, — og ykkur þykir það sjálfsagt öllum, — hvað blað hæstv. utanrrh. segir um þetta sama mál. Forsætisráðherrans blað fullyrðir, að Alþb. hafi hreinar hendur og sé andvígt Atlantshafsbandalaginu, en blað utanrrh. segir hins vegar, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn virðist ekki vera alls kostar ánægður með svarbréf Hermanns og lýsir yfir, að bréfið hafi ekki verið borið undir ríkisstj. alla og lýsi því aðeins einkaskoðunum forsætisráðherra. Þetta er furðulegt “ Og svo heldur blaðið áfram: „Stjórnarsamningurinn, sem Lúðvík Jósefsson og Hannibal Valdimarsson undirrituðu, er sannarlega ekki einkaskoðun forsætisráðherra.“

Hér segir blað utanrrh., að ráðherrar Alþb. séu algerlega sammála, þeir séu bundnir af sínum samningum, en blað forsrh. segir, að þeir séu alveg óbundnir og algerlega ósammála.

Hvorum á að trúa? Forsrh. og utanrrh, eru að talast við eða blöð þeirra um eitt þýðingarmesta utanríkismál þjóðarinnar, og annar segir það svart, sem hinn segir hvítt, alveg ófeimnir og alveg augljóslega. En auðvitað er skoðun Alþýðublaðsins, blaðs utanrrh. hæstv., í þessu máli alveg laukrétt. Hlífð hæstv. forsrh. við ráðherra kommúnistanna raskar auðvitað ekki því, að meðan kommúnistar sitja í stjórn hans, þá talar hann í þeirra umboði. Þetta er laukrétt hjá hæstv. utanrrh. og hans blaði.

Ég vil enn fremur leyfa mér að gefa blaði stærsta stjórnarflokksins orðið, gefa orðið sjálfu fórnardýrinu, sem verið er að slátra eða gefa blóðinngjöf til skiptis. Þetta blað stærsta stjórnarflokksins fer einnig í gær nokkrum orðum um forsrh. hæstv. og bréf hans. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Bréf Hermanns er ákaflega neikvætt og þarflaust plagg. Það einkennist af því í einu og öllu, að það er ekki hugsað af íslenzkum sjónarhóli, ekki miðað við hagsmuni og viðhorf Íslendinga, heldur þræðir það algerlega viðhorf bandarískra valdamanna og fer meira að segja aldrei út fyrir stefnu Dullesar hins alræmda.“ Og svo kemur kórónan. Það er ekki nóg með, að hann hlýði algerlega Dulles, heldur er hann svo ósvífinn að dómi Þjóðviljans, með leyfi hæstv. forseta: „Bréf Hermanns gæti eins vel verið samið af Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra.“ Ja, lengra verður nú víst ekki komizt í forsmáninni, býst ég við, Það gæti bara verið samið af sjálfum utanríkisráðherranum, þessum skaðræðismanni, sem þeir eru í samstarfi við í ríkisstj. og alveg réttilega segir, að hann sjálfur og forsrh. geti talað fyrir hönd Þjóðviljans í þessum efnum. Svo er talað um yfirlæti hæstv. forsrh., sem ég kannast alls ekkert við, og það er talað um siðlausan orðaleik hans, og svo segir enn fremur: „Ekkert af þessu kemur þó á óvart“ — hvorki yfirlætinu né siðlausa orðaleiknum. „Þessi sjónarmið eru í samræmi við þjónshlutverk þau, sem ýmsir forustumenn Framsóknar og Alþfl. hafa tekið sér að undanförnu, að því er virðist af frjálsum vilja. En það kemur á óvart, hversu langt Hermann Jónasson virðist reiðubúinn að ganga.“

Ja, svo bregðast krosstré sem önnur tré. Það kemur ekkert á óvart, að vinirnir og samherjarnir í ríkisstj. skuli vera að leika þjónshlutverk af frjálsum vilja, en það kemur á óvart, að Hermann Jónasson virðist reiðubúinn að ganga svona langt, þ. e. a. s, lengra en Dulles og jafnlangt og Guðmundur Í. Guðmundsson. Þetta kemur á óvart. Enn fremur segir Þjóðviljinn:

„Og það er siðlaust athæfi, að hæstv. forsrh. skuli leyfa sér að afgreiða með marklausu orðahjómi mál, sem er í nánustu tengslum við sjálfa tilveru þjóðarinnar, ef illa fer. Og um það má svo eflaust deila, hvort hér er að verki þekkingarleysi í alþjóðamálum eða eitthvað enn lakara.“

Ja, þetta er engin smáskammtalækning, sem hæstv. forsrh. fær. Í bezta tilfelli alveg þekkingarlaus í utanríkismálum, en sennilega eitthvað miklu verra. Þetta mundi nú bara vera kallaður sjúklingur á banabeð í forsætisráðherrastól, sem fær svona kveðju frá stærsta stjórnarflokknum. Og þó er þessu ekki lokið, því að enn segir Þjóðviljinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og skýrt var frá í blaðinu í gær, bar Hermann Jónasson ekki bréf sitt undir ríkisstjórnina. Varla hefur Hermann þó þvílíkt álit á sjálfum sér, að hann haldi, að Sovétstjórnin hafi skrifað honum einkabréf og bíði þess síðan í ofvæni að heyra, hvað einstaklingurinn Hermann Jónasson hafi að segja um alþjóðamál. Bréfið er auðvitað sent íslenzku ríkisstjórninni og stílað á Hermann af þeirri ástæðu einni, að svo hittist á, að hann er forsætisráðherra um þessar mundir. Enginn gat samið formlegt svar nema ríkisstjórn Íslands, og því er einkabréf Hermanns af þeirri ástæðu einni hlálegt og marklaust plagg. Þetta hlýtur Hermann að skilja. En hverjar eru þá hvatir hans? Sízt eru þessi vinnubrögð í samræmi við hvatningarorðin, sem sézt hafa í málgagni forsrh. að undanförnu um nauðsyn þess, að vinstri flokkarnir vinni nú saman af einlægni og drengskap.“

Þetta eru orð Þjóðviljans, og það eru mörg fleiri fróðleg, en ég læt þetta nægja. Það er náttúrlega málefni út af fyrir sig, að blað stærsta stjórnarflokksins skuli brigzla forsrh. um siðleysi, grunnhyggni og oflátungshátt og telja bréf hans hlálegt og marklaust plagg, um leið og þetta blað bregður forsrh. í raun og veru um fals og ódrenglyndi. Þetta eru allt saman innanhúsmál á stjórnarheimilinu. Það er mat þeirra, sem til þykjast þekkja, á sjálfum forsrh. landsins. Kjarni málsins er hins vegar sá, að sóðaorðbragð Þjóðviljans í garð hæstv. forsrh, raskar engu um meðábyrgð kommúnistanna á hryggbroti Bulganins, meðan þeir eiga sæti í stjórn landsins, sem hryggbraut Bulganin. Þess vegna eru svívirðingarnar um hæstv. forsrh. engu síður dómur Þjóðviljans um ráðherrana, sem flokkur Þjóðviljans hefur lagt til í stjórn hæstv. forsrh. Og það veit hver einasti maður, sem nokkuð þekkir til íslenzkra stjórnmála, að hæstv. forsrh. hefur borið bréfið undir bæði hæstv. atvmrh. og hæstv. félmrh., hvað svo sem hver segir. Það vita allir.

Ég tel framkomu hæstv. forsrh. ámælisverða og tel, að hún beri vott um nokkurt fyrirhyggjuleysi og nokkurn ofmetnað og einræðishneigð. Og það eykur ekkert sóma Íslands út á við, að forsrh., sem nýverið hefur fengið herfilegt vantraust við þjóðaratkvæði, telur sig bæran um að gefa yfirlýsingar fyrir hönd þjóðarinnar um margþætt og margvísleg viðkvæm vandamál, sem út á við vita, alveg án þess að hafa nokkurt samráð við þá menn og þann flokk, sem við þessar sömu kosningar hlaut hreinan meiri hluta þjóðarinnar.

Ég vil svo aðeins að lokum geta þess, að ástæðan til þess, að við sjálfstæðismenn höfum farið með löndum fram að þessu, er sú, að enda þótt þjóðin hafi vísað stjórninni út úr stjórnarráðshúsinu við kosningarnar til bæjar- og sveitarstjórna, þá teljum við nauðsynlegt, að stjórninni gefist kostur áður að leggja fram varanlegu úrræðin til lausnar efnahagsmálanna, úrræðin, sem hún er mynduð til þess að leggja fram og bera fram til sigurs, úrræðin, sem hæstv. forsrh. tjáði þjóðinni að mundu gerbreyta öllu í efnahagsmálum þjóðarinnar, án þess að nokkur þyrfti í raun og veru nokkra fórn að færa. Við viljum, eins og ég segi, að þjóðin fái að sjá framan í þessi vinstri úrræði. Hún hefur beðið eftir því núna í meira en 18 mánuði, og það er ekki lengra síðan en þrír eða fjórir dagar, að hæstv. forsrh. lofaði hér á Alþingi, að nú skyldu menn ekki lengi þurfa að bíða þessa. Og þó að ég hafi nokkra ástæðu til að taka orðum hans með varfærni og þó að stærsti stuðningsflokkur hans telji hann siðlausan, yfirlætisfullan og annað því um líkt, þá vil ég nú mega treysta því, þar til ég reyni annað, að við þetta, sem hann þá lofaði, standi hann, og eftir því bíðum við, að sjá framan í þá mynd.