17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

Sparifjármyndun

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég vil aðeins í tilefni af þessari fsp. benda á það, að mér þykir eiginlega mjög ótrúlegt, að hv. fyrirspyrjandi viti ekki betur, en hann lét hér í skína í þessum efnum, því að ég ætla, að hann hafi allar þær tölur fyrir sér eða eigi auðvelt með að fá þær, sem upplýsa allt um þetta efni. Hitt er svo aftur augljóst mál, að þær tölur, sem hann er með, eru eingöngu bundnar við aðra hliðina á þeirri sparifjársöfnun, sem á sér jafnan stað í bönkum og sparisjóðum, það er sem sagt það fé, sem er lagt inn á sparisjóð. En hins vegar er sýnilegt, að hann sleppir þeim tölum, sem ná yfir hlaupareikningsinnistæður á hverjum tíma, en Landsbankinn hefur alltaf í skýrslum sínum tekið saman og gefið út heildartölur um hvort tveggja, enda er mjög augljóst mál, að náið samband er hér á milli í sambandi við þá sparifjársöfnun, sem á sér stað á hverjum tíma.

Samkvæmt skýrslum, sem ég fékk í viðskmrn. nú 14. okt., liggur það ljóst fyrir, að fyrstu 7 mánuði ársins 1956 hefur, eins og segir í þessari skýrslu, innistæðuaukning banka og sparisjóða verið 98.9 millj. árið 1956, en á sama tíma árið 1957 141 millj. kr. Þessar tölur eru því byggðar á skýrslu, sem tekin er upp í viðskmrn. samkvæmt tölum, sem þangað berast mánaðarlega frá bönkum og sparisjóðum, og hér er því um algerlega hliðstæðan samanburð að ræða. En hér er rætt um alla innistæðuaukningu í bönkum og sparisjóðum, en ekki aðeins tekin sú innistæðuaukning, sem er á sparisjóðsreikningum, en hinni sleppt. En þannig hefur sem sagt samanburðurinn alltaf verið, og þannig er eðlilegt að taka innistæðuaukninguna sem heild, en ekki sleppa öðrum þættinum.

Ég vænti svo, að þetta megi upplýsa hv. þm., sem hér spurði, ef hann hefur skort raunverulega vitneskju um þetta.