12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Úr því að hér er farið að tala um nefndir, sem ókosið er í, en lagaskylda er til að kjósa, þá þykir mér hlýða að benda hæstv. forseta á, að utanrmn. hefur ekki enn þá kosið undirnefndina til að hafa til ráðuneytis hæstv. ríkisstj. um utanríkismál. Utanrmn. hefur aðeins haldið einn fund til meðferðar máli, síðan hefur málum verið vísað til hennar og enginn fundur haldinn, og hið fyrsta var ekki afgreitt.

Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann teldi sig ekki hafa rétt til þess, að nefndin gerðist athafnasamari, en hún hefur verið, þannig að fullnægt væri lagaskyldu, því að heldur er óviðfelldið að flytja brtt. við þingsköp um það, að nefndin skuli gegna skyldu sinni, en vera kann, að það verði eina úrræðið, ef ekki fæst við gert.