18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

67. mál, fasteignamat

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er algerlega rangt hjá hv. 6, þm. Reykv., að málið hafi ekki fengizt rætt á nefndarfundinum í gær. Það var nógur tími til þess að ræða það og bera það saman við lög o.s.frv., því að klukkan var ekki nema hálf-tólf, þegar hv. þm. gekk af nefndarfundinum. Það var alls ekki búið að neita því að ræða málið, vegna þess að hv, þm, bað ekki um það, — bað ekkert um umr. um málið, heldur um frest, og stökk svo upp á nef sér, þegar sá frestur fékkst ekki. Hann vildi þegar taka málið út af dagskrá á nefndarfundinum, þegar hann vissi, að meiri hl. n, var reiðubúinn að taka afstöðu til málsins. — Hann lét þess getið á þessum nefndarfundi, að það hefði verið nær að taka fyrir mál, sem hann sjálfur flutti, af því að því var vísað fyrr til nefndarinnar. Ég bauðst til að taka það og var búinn að taka það á dagskrá, þegar hv. þm. var kominn fram í dyrnar á nefndarherberginu. Hann vildi ekki sinna því heldur. Ég held, að hann hafi haft eitthvað afskaplega nauman tíma, og ætli að það hefði ekki orðið seinna um daginn einnig? Að það sé dæmalaust, að máli fáist ekki frestað, þegar komið er annaðhvort að þinglausnum eða þingfrestun, því neita ég alveg. Við erum báðir búnir að vera nokkuð lengi á þingi og ég þó nokkru lengur. Ég veit, að þetta skeður á hverju einasta þingi, hjá hverjum sem er í stjórn, að nefndir verða að afgreiða mál á undan þingfrestun og á undan þinglausnum með töluverðum hraða oft og tíðum.

Að ég hafi fært það sem rök hvað mig snertir, að hv. Nd. samþykkti þetta frv. ágreiningslaust, það er ekki rétt skilið hjá honum. Mér fannst það geta verið rök fyrir hann aftur á móti, þar sem hans samstarfsmenn, þm. Reykv. og sennilega einhverjir af þeim í bæjarstjórn Reykjavíkur, mæltu með þessu frv. og samþykktu það. Það er alveg rétt, að mér finnst út af fyrir sig engin ástæða fyrir hv. Ed. að gleypa við því, sem hv. Nd. gerir, ef henni finnst það rangt. En ég bara sé ekki, að hér sé um neitt rangt að ræða.