22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á bráðabirgðalögum, en þessi bráðabirgðalög voru sett með það tvennt í huga, að þörf væri á því að auka nokkuð við tekjur útflutningssjóðs, eins og komið var, þannig að hann gæti fengið nokkrar yfirfærslutekjur af fjárhæðum þeim, sem ganga til greiðslu á leigu á erlendum skipum, og eins með tilliti til þess, að nokkuð væri vikið til hliðar fyrir íslenzkum skipum, sem keppa við hin erlendu um flutninga að og frá landinu. En þróunin hefur verið sú að undanförnu, að mjög hefur hallað á aðstöðu íslenzku skipanna í þessari samkeppni, vegna þess að tilkostnaður hefur farið hækkandi hér innanlands, en fragtir almennt heldur lækkandi. Önnur skipafélög hér innanlands, sem hins vegar fá tekjur sínar samkvæmt flutningatöxtum, sem ákveðnir eru af verðlagsyfirvöldunum í landinu, hafa aftur fengið fragtir sínar hækkaðar, en hin skipin, sem eru í beinni samkeppni við hin erlendu skip á hinum frjálsa markaði, hafa, eins og ég segi, heldur fengið áfall í sambandi við lækkaðar fragtir og hafa því átt erfiðara um í samkeppninni. Þessi bráðabirgðalög voru sett í þessum tvenns konar tilgangi: annars vegar að skattleggja nokkuð leyfi hinna erlendu skipa til hagsbóta fyrir útflutningssjóð, en um leið og það yrði gert, þá yrði aftur heldur ívilnað fyrir íslenzku skipunum, sem þarna eiga í samkeppni við hin erlendu. Ég ætla, að það þurfi ekki að skýra efni þessa máls öllu frekar á þessu stigi málsins, en vænti, að þessu frv. verði vísað til nefndar, sem líklega yrði fjárhagsnefnd, — vildi leggja það til.