25.11.1957
Efri deild: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

62. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Nú um nokkur ár hefur verið í gildi löggjöf, sem kveður svo á, að afskrifa megi með nokkuð sérstökum hætti skip og ýmsar tegundir framleiðslutækja, Þessi lagaákvæði gilda um þær eignir þessara tegunda, sem aflað er á tímabilinu til ársloka 1956. Nú hefur það komið í ljós, að þessi ákvæði hafa reynzt ákaflega þýðingarmikil fyrir uppbyggingu atvinnurekstrar í landinu og nokkuð örðugt að sjá, að hægt væri að komast af án þeirra, hætt við, að ekki tækist vel til um ýmsar nauðsynlegar nýjungar í þessum greinum atvinnurekstrarins, ef þetta ákvæði félli úr gildi. Á hinn bóginn er svo ástatt, eins og ég sagði, að ef ekki er sett um þetta ný löggjöf, gildir þetta ekki um þau skip eða þau tæki, sem aflað er eftir árslok 1956.

Nú hefur þetta mál verið skoðað í ríkisstj., og niðurstaðan er sú að leggja nú til með þessu frv., að þessi lagaákvæði verði framlengd, þ.e.a.s. það verði ákveðið nú, að þessi sérstöku fyrirmæli um fyrningarafskriftir taki til tækja, sem tekin eru í notkun á árinu 1957 og til ársloka 1959.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa lengri framsöguræðu fyrir þessu máli, þótt það sé í raun og veru mjög þýðingarmikið, en þetta er mönnum mjög vel kunnugt orðið af fyrri reynslu. Legg ég til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umræðu.