07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

97. mál, réttur verkafólks

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég skil ekki þessa athugasemd hv. þm. Reykv. Ég held, að ég hafi ekki í þeim orðum, sem ég sagði, á neinn hátt andmælt þessu frv., aðeins bent í sambandi við framkomu þess á nauðsyn þess að endurskoða vinnulöggjöfina í heild. Hann játar þetta að vísu, en segir í hinu orðinu, að hann skilji ekki í því, hvernig stendur á því, að slík rödd sem þessi komi fram á Alþingi. Ég skil þetta ekki. Ég tel, að þetta sem annað eigi heima í allsherjar vinnulöggjöf og hana beri að endurskoða, því fyrr, því betra.

Ef það er meiningin að setja löggjöf um hvert einasta atriði, sem vinnuveitendur og verkamenn deila um á hverjum tíma, og það án tillits til þess, hvaða stjórn ríkir í hvert skipti, þá sjá allir, hvar þetta lendir. Ég hélt, að það væri miklu heilbrigðara, að samin væri heildarlöggjöf með samkomulagi beggja aðila; það yrði affarasælla, en að hafa hina aðferðina. Ég mótmæli þeim ummælum hv. 4. þm. Reykv., að ég hafi á neinn hátt verið að ganga á hlut verkamanna með þeim orðum, sem ég sagði í ræðu minni áðan.