03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

97. mál, réttur verkafólks

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef oft hreyft því á þessu þingi, að það er mjög óviðkunnanlegt, að mikils háttar mál séu afgr. með afbrigðum, án þess að nokkur nauðsyn sé til, og hlýtur að leiða til þess, að þm. er fenginn skemmri tími til þess að athuga mál, en þingsköp ætlast til. Nú veit ég ekki til þess, að neitt það sé við afgreiðslu þessa máls, sem geri það að verkum, að það liggi frekar á að afgreiða málið í dag, heldur en á morgun. Ég hefði því kunnað betur við, að málið hlyti að öllu leyti löglega meðferð. Hins vegar hef ég ekkert á móti þessu sérstaka máli og mun greiða því atkv., þegar þar að kemur, og hef sjálfur lesið það yfir, svo að persónulega skiptir mig það engu, og segi því já. En ég tel það vera varhugavert yfirleitt að hafa þennan hátt á.