15.04.1958
Neðri deild: 78. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

148. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þessi ríkisreikningur, sem hér liggur fyrir til 2. umr. og er fyrir árið 1955, hefur nú verið nokkuð ræddur í sambandi við önnur mál, sem fyrir þinginu liggja og munu vera geymd hjá hv. fjhn. og bæði fjalla um eftirlit með fjáreyðslu hjá ríkinu.

Það hefur verið nokkuð á það minnzt af þeim mönnum, sem helzt verja fjármálastjórnina, að það líti ekki út fyrir, að það sé mikil alvara í athugasemdum okkar yfirskoðunarmanna, vegna þess að við vísum ekki neinum af þeim til aðgerða Alþingis. En þess er að gæta, að síðan þessum reikningi var lokað, eru liðin um það bil 2 ár, og ýmislegt hefur síðan gerzt, og ber m.a. að segja það, sem ég hef vikið að áður, að þó að mér og öðrum þætti sú hæstv. stjórn, sem var við völd 1955, nokkuð eyðslusöm, þá hefur hennar eyðsla horfið í skuggann fyrir þeim ósköpum, sem síðan hafa gerzt í fjármeðferð þeirrar ríkisstj., sem nú er ríkjandi, enda þótt sami fjármálaráðherrann hafi verið í báðum og svipurinn sé þess vegna nokkuð líkur. En þess er að geta, að síðan þessum reikningi var lokað, höfum við séð samþykkt tveggja ára fjárlög, fyrir árið 1957 og 1958, því að fjárlög fyrir árið 1956 voru samþykkt áður, en þessi reikningur var tilbúinn, og auk þess höfum við hér fyrir okkur á borðum þingmanna ríkisreikninginn fyrir 1956, og öll þessi þrjú plögg, fjárlögin fyrir þessi tvö ár og ríkisreikningurinn fyrir 1956, eru þannig, að það er eiginlega að kalla má slegið striki yfir alla þá fjáreyðslu, sem átti sér stað á árinu 1955, enda þótt ýmislegt, sem við gerum athugasemdir við samkvæmt þessum reikningi, sem hér liggur fyrir, og leggjum til að úrskurða þannig, að það sé til athugunar framvegis og til eftirbreytni o.s.frv., án þess að vísa því til aðgerða Alþingis, það sýnir það og sannar, að hér er mikil breyting á orðin. Auk þess verð ég sem einn af yfirskoðunarmönnum og sá eini, sem nú á sæti á Alþingi, að taka það fram, að svar varðandi þessi atriði frá minni hálfu felst að miklu leyti í því frv., sem ég hef lagt hér fram og farið hefur til 2. umr. og liggur hjá hv. fjhn. og vænta má að hún skili áliti um, áður en þessu þingi er lokið.

Út í einstakar athugasemdir, sem fylgja þessum reikningi, svör við þeim og úrskurðartillögur, skal ég ekki fara, nema tilefni gefist til, og mæli að sjálfsögðu með því eins og hv. fjhn. og frsm. hennar, að reikningurinn verði samþykktur eins og hann liggur fyrir.