30.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

168. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi út af síðustu ræðu taka það fram, að ég hrekk ekki neitt við og er ekkert viðkvæmur fyrir því, þó að ég sé kallaður íhaldsmaður, því að hér er komið út í svoleiðis botnleysu með öll okkar fjármál, að það veitti sannarlega ekki af því, að þeim mönnum, sem eru íhaldsmenn í raun og veru, í þeim skilningi að standa gegn vitleysunni, fjölgaði eitthvað á Alþ. — En varðandi þetta mál sjálft og það, sem hv. frsm. vék að, að honum virtist vera ósamræmi í minni afstöðu, þá er nú það að segja, að ég hef ekki átt neinn hlut að þessu máli, en ef ég man rétt, var við 2. umr. um það hér í hv. deild á það minnzt, að það væri ekki með öllu víst, að hve miklu leyti eða hvort hlutatryggingasjóður gæti að fullu staðið undir þeim gjöldum, sem þarna væri ætlað, og skildist mér þó, að hann ætti töluverðar eignir, sem þýddi það, að möguleiki væri á því að leggja fram eitthvað hærra gjald.

En hvað sem því liður, þá eru nú fleiri leiðir til þess að ná tekjum í einn sjóð heldur en að leggja á útflutningsgjöld, sem sannarlega er fráleitara, en nokkuð annað, sem hægt er að koma með hér á Alþ. í skatta- og tollamálum, að fara að leggja á útflutningsgjöld á þær vörur, sem alltaf er verið að vandræðast með að hægt sé að framleiða vegna þess, hvað mikið þarf að gefa með þeim.