25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að fara um þetta frv. fáeinum orðum, áður en það fer til nefndar. Ég skal þó ekki fara langt í því að fara hér að ræða mjög almennt um skattamál og fjárhagsmál yfirleitt. En ég get þó ekki leynt því, að ég get ekki stillt mig um út af næstsíðustu ræðu að lýsa undrun minni yfir því, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem er, eins og allir vita, greindur maður að eðlisfari, skuli vera enn svo blindur af öfgum, að hann skuli geta lagt sig í það að halda hér langa ræðu um það, hvílík hætta sé á auðvaldsmyndun og auðvaldsráðum í þessu landi.

Ég undrast þetta meira núna en áður, vegna þess að það er kunnugt, að þessi hv. þm. er einn af áhrifamestu valdamönnum í núverandi stjórnarflokkum. Að öðru leyti hlýtur það að vekja undrun, þegar talað er um svona hluti, þegar það blasir við sem höfuðvandamál á hverju Alþingi, hvernig eigi að fara að því að láta framleiðsluna í landinu ganga, af því að það getur enginn atvinnuvegur þrifizt nema með stórfelldum meðlögum frá ríkinu, sem kölluð hafa verið millifærsla frá launastéttunum og yfir í atvinnureksturinn.

Nú er það svo, að skattamál og gjaldamál yfirleitt eru að verða höfuðvandamál í okkar þjóðfélagi. Þegar komið er svo, að tollar og skattar og útsvör eru orðin meira en 10 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu á ári, þá gefur það auga leið, hvílíkur voði er hér fyrir dyrum.

Hv. þm. muna það nú sjálfsagt, að einn af mikilhæfustu þm., sem var hér fyrir síðustu kosningar, lagði það til fyrir nokkrum árum að afnema tekjuskattslögin alveg, og einn af fulltrúum hér á Alþingi í stjórnarflokkunum hefur nú tekið töluvert rækilega undir þá kröfu, hv. 5. landsk, þm., og ég verð að segja það, að það er ekkert undarlegt, þó að mönnum detti svona hlutir í hug, þegar þeir kynna sér ástandið á þessu sviði eins og það er.

En ég fyrir mitt leyti er nú ekki svo bjartsýnn, að ég geti látið mér detta það í hug að afnema tekjuskatt, því að það er í sjálfu sér eðlilegt gjald. Tekjuskattur er eðlilegt gjald og hefur verið það og í raun og veru ekkert undarlegt við það, þó að hann sé á lagður. En það er annað, sem er óeðlilegt og fullkomlega óréttmætt á þessu sviði, og það er það, hvernig tekjuskattslögin eru, hvernig þau hafa verið notuð, því að þau hafa verið í því formi, að það má segja, að það sé í rauninni ekki annað, en að miklu leyti ræningjastarfsemi, vegna þess að það er í mörgum efnum, sem allar tekjur manna eru hirtar til þess opinbera og stundum jafnvel meira en það.

Ég fyrir mitt leyti tel, að það, sem hér er farið fram á í þessu frv. varðandi félögin, hlutafélögin og samvinnufélögin, það að hafa prósentvís jafnan skatt á öllum, það sé sú rétta aðferð, og þess vegna tel ég, að það stefni mjög til bóta, að því er þessa aðila snertir. En ég vil láta það ná meira, en til félaganna. Ég vil láta það ná til einstaklinganna allra líka, og það vil ég biðja hv. fjhn. að athuga, hvort hún gæti ekki fallizt á það. Það kann nú að vera til of mikils mælzt að búast við því. En ég vil þó segja, að það er sú rétta aðferð um álagningu tekjuskatts í mínum augum, að hann sé eðlilegt prósentgjald, að t.d. sá maður, sem hefur 20 þús, kr. tekjur, borgi sinn fimmta hluta af því, sem maður, sem hefur 100 þús. kr. tekjur, borgar, en ekki að vera að nota þessa aðferð, tekjuskattsaðferðina, til þess að jafna tekjur manna á þann hátt, því að til þess eru nóg önnur ráð og miklu eðlilegra að gera það þá með því að koma í veg fyrir það, t.d. í launakerfinu, að það sé meiri mismunur á milli tekna manna. En þess vegna minnist ég á þetta, að ég veit og það er í raun og veru alkunnugt orðið í þessu landi, að tekjuskattsaðferðin og útsvörin lúta þar að nokkru leyti sömu reglu, — hún miðar að því að draga úr og lama mjög stórkostlega tekjuviðleitni margra manna. Það er kunnugt, bæði um skipstjóra, stýrimenn og marga aðra tiltölulega hálaunaða menn, að þegar þeir eru komnir að vissu tekjuhámarki á hverju ári, þá hugsa þeir sem svo: Ja, það er þýðingarlaust fyrir mig að halda áfram, það er betra fyrir mig að hætta, heldur en að láta ríkið og bæjarfélagið hirða allt, sem ég afla hér eftir. — Og á margvíslegan hátt miðar þetta að því að lama tekjuviðleitni og sjálfsbjargarviðleitni fólksins að hafa þessa aðferð, eins og hún er og hefur verið.

Um leið og ég lýsi þess vegna fylgi mínu við það að breyta þessu varðandi félögin, þá vil ég lýsa þeirri skoðun, að ég álít, að þetta eigi að gilda alveg eins varðandi einstaklingana.

Nú er það svo, að það er komið í ljós á margvíslegan hátt, að hér er komið út í svo miklar öfgar, að það er ekki á neinu viti byggt. M.a. get ég bent hv. þingmönnum á það, að í ríkisreikningnum, sem ég hef hérna við höndina og er fyrir árið 1956, stendur, að það er óinnheimt af sköttum í árslok þess árs 37 millj. kr. eða rúmlega það, og samtímis er frá því sagt í þeim reikningi, að á því ári var fellt niður sem ófáanlegt af sköttum nokkuð á fjórðu millj. kr.

Þetta hefur alltaf verið að færast meira og meira í það horf, að skattarnir hafi verið óinnheimtanlegir að meiri og meiri hluta, og við yfirskoðunarmenn, sem árlega finnum að þessu og gerum kröfu til þess til fjmrn., að það hafi með þessu sterkara eftirlit, fáum alltaf þau svör, að það sé haft svo sterkt eftirlit og gengið svo hart eftir sköttunum, að lengra verði ekki komizt í því efni. En þrátt fyrir það stefnir alltaf í þessa átt, og þetta hefur það komizt lengst, í árslok 1956, sem er nú þó ekki í rauninni í árslokin, því að reikningi er ekki lokað, fyrr en töluvert langt er komið fram á næsta ár á eftir, og ég efast ekki um, að á árinu 1957 hafi þetta hækkað töluvert mikið frá því, sem var 1956.

Þá er það annað í þessu sambandi, sem vert er að taka til athugunar og ástæða er til að ræða um ævinlega, þegar talað er um tekjuskattslög eða breytingu á þeim, og það er, að það sé fyrir það girt, sem nú er í lögum og nú er í framkvæmd, að það sé ekki einasta lagt á raunverulegar tekjur, heldur tilbúnar tekjur, sem eru engar tekjur. Og það stærsta í því efni er sú regla, sem upp var tekin 1942 og er í rauninni alger fjarstæða, að leggja skatt á skatt, þannig að það sé ekki heimilt að draga skatt og útsvar, sem þarf að borga á skattárinu, frá tekjum, áður en skattur er á þær lagður, eins og áður var og eðlilegt verður að teljast.

Þá skal ég nefna það og skjóta því til hv. fjhn., sem fær þetta mál til meðferðar, að það eru vissir aðilar í okkar atvinnustarfsemi, sem ég fyrir mitt leyti álít að eigi að vera algerlega skattfrjálsir, vegna þess að það er ekki starfsemi, sem er til þess að auka tekjur, og það eru vinnslustöðvar, sem vinna úr vörum fyrir framleiðsluna, eins og sláturhús og mjólkurbú. Það er mjög mikið öðru máli að gegna með slíkar stofnanir heldur en með almenna verzlun, hvort sem það er samvinnufélag, kaupmaður eða hvernig sem það er. Að leggja háa skatta og há útsvör á þessar stofnanir, það álit ég alveg fjarstæðu, því að það kemur eðlilega fram í því, að það verður þá, eins og núna er komið, að borga þeim mun meira með vörunum, sem þessar stofnanir eru að gera söluhæfar, heldur en ella mundi vera. Ég álít því, að það eigi að vera reglan, að þessar stofnanir eigi að vera algerlega skattfrjálsar. Hitt getur miklu frekar komið til mála, að önnur verzlun og viðskipti séu undir sömu reglum.

Þá vil ég minnast aðeins á það, sem kemur fram aðallega í skýringunum við 1. gr. þessa frv., að þau réttindi, sem ætlazt er til að samvinnu eða sameignarfélög hafi samkvæmt þessum lögum, gildi eingöngu, þegar um er að ræða félög, þar sem í eru þrír menn eða fleiri. Þetta vil ég biðja hv. fjhn. að athuga mjög rækilega, því að þetta kemur mjög í bága við lög, sem samþykkt voru hér á síðasta þingi um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Í 14. gr. þeirra laga stendur svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta, sem er annar liður: „Ef tveir eða fleiri bændur stofna til búskapar á sömu jörð með því að reka á henni félagsbú í stað þess að stofna á henni nýbýli, er heimilt að veita þeim aðstoð til ræktunar og bygginga, þannig að um sömu aðstoð til bændafjölgunarinnar sé að ræða og veita bæri, ef nýbýlamenn ættu í hlut.“ Og svo er minnzt á skilyrði fyrir þessum ákvæðum.

Þess vegna vil ég halda því fram, að það sé algerlega rangt og verði að breytast í þessu frv., að það þurfi endilega að vera þrír menn eða fleiri, sem eru í félagi, til þess að njóta þeirra hlunninda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, því að það eigi að vera heimilt alveg eins, þótt það séu ekki nema tveir menn eða þrír. En samkv. grg. fyrir þessu frv. á það að gilda aðeins, ef um er að ræða þrjá menn eða fleiri.

Um einstök atriði í frv. skal ég svo ekki fara fleiri orðum. Ég hef ekki haft tækifæri til þess enn þá að bera það alveg saman við lögin. En að þessu leyti tel ég það stefna mjög í rétta átt, varðandi félögin, eins og ég tók fram áðan, að jafna skattinn og gera hann prósentuskatt, og sum önnur ákvæði þess stefna til bóta, en þó engan veginn nægilega langt til þess, að við getum verið ánægðir með þá breytingu frá því ástandi, sem nú er.

Ég get svo að lokum ekki stillt mig um það að segja örfá orð út af því, sem hér kom fram síðast í ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann fór að tala um útsvarsálagningar og eins og venjulega stefndi fyrst og fremst hér að Reykjavík. Þessi hæstv. ráðh. var að tala um það, eins og hann hefur oft gert áður, að það hefðu verið miklu hærri skattar, þegar sjálfstæðismenn voru í stjórn, heldur en þeir væru nú. Sú röksemd er hrein blekking, vegna þess að skattarnir á þeirri tíð voru miðaðir við miklu lægra tekjuhlutfall, en nú er, síðan dýrtíðin hefur margfaldazt svo gífurlega, sem raun er á. Og ef maður ber saman tölurnar, — eins og ég hef gert bæði í ræðu og blaðagrein, — ber saman þær raunverulegu tölur, sem út koma, þá sýnir það sig, að skattarnir eru alltaf að hækka og þeir hækka eins og kallað er sjálfkrafa, vegna þess að eftir því sem tekjurnar hækka, eftir því hækka skattarnir, sérstaklega á hinum hærri tekjum. Þetta ættu allir menn að geta séð, sem kynna sér, hvernig með það er farið.

Varðandi álagningu útsvara, þá mætti nátttúrlega margt um það segja. En það er furðulegt að hlusta á þá menn, sem standa mest fyrir skatta- og tollaálagningu hér í okkar landi, eins og hæstv. fjmrh. gerir, undrast á því, að sveitar- og bæjarfélög verði að taka útsvör og leggja þau á borgarana. Meginhlutinn af þeim útsvörum, sem á eru lögð í sveitarfélögunum, er til að standa undir útgjöldum, sem sveitarfélög eru yfirleitt að sligast undan úti um allt land og eru sprottin af löggjöf, sem sett hefur verið af Alþingi, og eru þannig til komin, að sveitar- og bæjarstjórnir komast ekki undan því að innheimta gjöld fyrir þeim. En aðferðin, sem við blasir, þegar verið er að taka tekjurnar og fjármunina af einstaklingum, er svipuð því, að maður færi að heyflekk með vélarýtu og tæki ofan af flekknum og ýtti því öllu saman, eins og ríkið gerir með sinni skatta- og tollaálagningu, og segði svo við þá, sem á eftir koma, eins og nú er sagt við sveitar- og bæjarstjórnirnar: Gerið svo vel. Þið megið hirða rökin. — Þetta er aðferðin, og einmitt þess vegna er það svo að eðlilegum hætti, þegar búið er að raka ofan af tekjum einstaklinganna og fyrirtækjanna og félaganna af ríkinu og sveitar- og bæjarstjórnirnar koma svo á eftir, að í flestum efnum verði enn þá ískyggilegra og örðugra að innheimta og leggja á útsvörin, sem — eins og ég tók fram — eru þannig til komin, að það er verið að hirða rökin, sem ríkið skilur eftir.

Nú hafa sagt mér það menn, sem fást nokkuð við að undirbúa skattskýrslur hér í bænum, að ástandið sé nú almennt ekki betra en það, að það sé hjá flestum mönnum, sem þó hafa talsvert háar tekjur, þannig, að þeir hafa ekkert eftir til að borga vexti og afborganir af sínum skuldum. Nú verða menn þess vegna, þegar þeir eru að metast á um ríkisskatta og útsvör til sveitar- og bæjarfélaga, að gera sér grein fyrir aðstöðunni, og hún er þessi, að ríkið er búið að koma á undan og svo koma hinir á eftir. Þess vegna er á því mjög mikil nauðsyn og eiginlega skömm að því fyrir Alþingi, að það skuli ekki vera búið að ganga frá því fyrir löngu að leggja skatt, tekjuskatt og útsvar, á samtímis, það sé gert í einu lagi og því skipt á milli. Ég tel, að það sé mjög hæpin leið, eins og farið hefur verið fram á að eðlilegum hætti, að sveitar- og bæjarstjórnirnar fái réttindi til tolla- eða söluskattsálöguvalds, hitt eigi að vera, að það eigi að leggja beinu skattana á í einu lagi og skipta þeim svo á milli, en ekki setja sveitarfélögin í þær kvíar, sem þau eru sett í með þeirri aðferð, sem nú er viðhöfð.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um þetta mál nú við þessa umr., nema frekara tilefni gefist til. En ég vil mega vænta þess, að hv. fjhn. taki þau atriði, sem ég hef hér minnzt á og þá ekki stríða algerlega í bága við hennar skoðanir, taki þau til athugunar við meðferð þessa máls.