22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. lýsti hér afstöðu sinni í sambandi við hinn svonefnda hjónaskatt, og það kom fram hjá honum misskilningur, sem er ákaflega ríkur á því stigi hugsunar um þessi mál, þegar ekki er búið að brjóta þau fullkomlega til mergjar.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir og er til umræðu, er reynt að taka til greina fyrst og fremst það ranglæti, sem verið hefur milli skattgreiðslu einstaklinga og hjóna, og leiðrétta það. Í öðru lagi er reynt að jafna milli hjóna eftir þeim aðstæðum, sem þau hafa, Það er gert ráð fyrir því, að konur, sem vinna úti, fái ívilnun með frádrætti á tekjum, vegna þess að þær afla skattskyldra tekna og geta vitanlega ekki á sama tíma unnið heimili sínu við heimilisstörf; en enn fremur eru líka konur, sem ganga að vinnu með mönnum sínum við öflun skattskyldra tekna, eins og sveitakonan, sem gengur á engi, eða iðnaðarmannskonan, sem vinnur að iðnaði á verkstæði manns síns, veitingamannskonan, sem vinnur með manni sínum að veitingasölu, kaupmannskonan, sem er í búðinni með manni sínum, o.s.frv. Ef þessar konur eða heimill þeirra fengi ekki einhverjar ívilnanir hliðstæðar þeim, sem útivinnukonan og heimili hennar fá og menn yfirleitt skilja að eigi að fá ívilnanir í sköttum frá því, sem nú er, þá væri þarna ranglæti framið. En svo eru eftir konurnar, sem hv. þm. V-Sk. benti á, — konurnar, sem vinna eingöngu við heimilishaldið, Hann telur, að þær verði fyrir hróplegu ranglæti, þegar borið er saman við konurnar, sem vinna úti, — hróplegu ranglæti, að því er reglur þær, sem frv. felur í sér, gera ráð fyrir. Og hann nefnir til samanburðar hjón, sem eiga tvö börn. Konan vinnur úti og fer með börn sín á dagheimili, hún fær frádrátt af tekjuöflun sinni, sem er hreinlega skattskyld. Ég held því fram, að þetta sé ákaflega eðlilegt, vegna þess einmitt að hún fer með börn sín á dagheimilið og þarf að gjalda fyrir að hafa þau þar. Hún getur sem sé ekki sinnt heimili sínu á sama tíma, sömu stundum og hún vinnur að tekjuöfluninni. Hin hjónin eru svo hjónin, sem eiga fimm börn, og konan fer ekki út til að afla tekna, en vinnur að gæzlu og umsýslu barnanna heima. Sú kona vinnur heimilinu fyrir óbeinum tekjum, sem eru ekki skattskyldar. Það er sá mikli munur á þessari aðstöðu. Yfirleitt er það svo, að það, sem konurnar vinna fyrir heimili sín, er ekki skattlagt. Og ég tel, að það sé réttmætt, að það sé ekki gert, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, eins og örlaði á hjá hv. þm. V-Sk., að það sé heppilegt einmitt, að konur vinni sem mest heima og byggi upp heimili sín. Ef hv. þm. V-Sk. getur ekki eytt þeirri ímyndun sinni, að ranglega sé gert upp í frv. á milli þessara tveggja hjóna, þá vil ég ráðleggja honum að hugsa sér það, að t.d. kona hans færi að vinna fyrir skattskyldum tekjum úti, og reikna það út, hvað hann þyrfti að kaupa af vinnu í staðinn fyrir heimilið, til þess að konan gæti farið út til að vinna. Ef hann reiknar það, þá sér hann í raun og veru, hvað það er mikið, sem konan vinnur fyrir og er skattfrjálst í heimilinu hjá honum og öðrum þeim heimilum, þar sem konurnar vinna heima.

Það er enginn vafi á því, að ef ætti t.d. að veita þeim heimilum, þar sem konan vinnur innistörfin að heimilishaldinu og aflar engra skattskyldra tekna, hliðstæðan frádrátt þeim, sem ætlaður er öðrum hjónum, sem frv. ræðir um, þá yrði það ekki gert, svo að réttlátt væri, nema með því að meta tekjur af vinnu konunnar heima í heimilinu og leggja þær við þær raunverulegu tekjur hjónanna, sem nú eru fram taldar, — leggja þær við þær og draga svo frá. Og að gera það, væri náttúrlega hægt reikningslega, þó að mat í slíkum efnum hlyti að verða mjög svo vandasamt og ólíklegt, að það yrði fullkomlega réttlátlega framkvæmt. En víst er um það, að þetta væri mikil skriffinnska og í raun og veru farið þá út á þær leiðir með skattframtölin, sem eru meira mat, en heppilegt er. En undir öðrum kringumstæðum væri ekki hægt að taka upp, svo að réttlátt væri, frádrátt vegna heimilishaldsvinnu eiginkonunnar.