12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

5. mál, tollskrá o. fl

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég tek alveg undir það, sem hv. 9. landsk. (ÓB) sagði um till. okkar annars vegar og till. hv. 1. þm. Reykv. (BBen) hins vegar.

Inn í þetta mál hafa blandazt nokkuð umræður um meðferð fjárl. á Alþ., eins og að líkum lætur, og ég gerði mínar aths. af því tilefni í minni fyrri ræðu. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. hefur heyrt þær, því að hann er eins og fló á skinni hér í dag. En til viðbótar við það, sem ég vék að áðan, hefur nú blandazt eitt viðbótarmál að ósköp eðlilegum hætti inn í þetta, og það er sú heimild, sem er í fjárl. til þess að verja 15 millj. kr. til atvinnuaukningar og vikið var að hér áðan og engar reglur eru um, hvernig veita skuli eða lána.

Við sjálfstæðismenn gerðum um þetta aths. og fluttum brtt, á síðasta þingi, en þær voru allar felldar.

Því hefur verið haldið fram, að úthlutun þessa fjár á yfirstandandi ári hafi á margan hátt verið mjög athugaverð, en um það geta fæstir dæmt með sanni, vegna þess að það er ekki fyrr en nú nýlega, sem fjvn. Alþ. fær einhvern lista yfir það, hvernig fénu hefur verið varið, og er þó á engan hátt hægt af því að átta sig á öllum þeim misfellum, sem hér kann að hafa verið um að ræða. Það er bæði talað um meðal almennings mikið misrétti í meðferð málsins, og það er eiginlega furðulegt og næstum því ótrúlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli vilja taka á sig þá ábyrgð, að tveir hæstv. ráðh. úthluti slíku fé á þann hátt, sem nú á sér stað.

Á þessu ári er hér um að ræða 15 millj. kr., og lagt er til í fjárl. fyrir 1958, að enn sé varið með sama hætti 15 millj. kr., og hafa þá tveir tilteknir ráðh., ef þeir halda áfram að gegna störfum sínum til ársloka 1958, úthlutað með þessum hætti um 30 millj, kr. og sækja sína heimild til þess í fjárl.

Framkvæmdabanki Íslands hefur verið settur á laggirnar með bankaráði, sem kosið er af þinginu, Sþ., og bankastjóra, hámenntuðum hagfræðingi og fyrrv. ráðunauti ríkisstj. í efnahagsmálum. Nú er það svo, að það munu ekki vera nema liðugar 30 millj. kr., sem þessi banki hefur til þess að veita lán út af eigin fé á yfirstandandi ári og næstu árum — milli 30 og 40 millj. kr. á ári. Til þess að ráðstafa þessu ásamt öðrum verkefnum bankans þykir þurfa að hafa sérstaka löggjöf og sérstakan banka, sérstakt bankaráð og bankastjóra og allt, sem þar tilheyrir. En hér eru tveir gervibankastjórar í landinu, hæstv. fjmrh, og hæstv. félmrh., sem á tveimur árum úthluta til atvinnuaukningar í landinu 30 millj. kr. Við eigum kannske eftir að fá einhverja grg. fyrir þessu máli á Alþ. enn þá, áður en því lýkur. Þó vita auðvitað fæstir um það, og enda þótt það séu lesnir upp einhverjir listar, þá vita menn heldur ekki af því, hvernig málsmeðferðin er.

Því er haldið fram, að það sé nú þegar farið að greiða mönnum úr ríkissjóði stórar fjárupphæðir, sem eigi að endurgreiðast sem atvinnuaukningarfé árið 1958. Er þetta rétt, og getur þetta verið? Það er nauðsynlegt að fá atriði eins og þessi upplýst og einmitt í sambandi við mál eins og hér er um að ræða, sem snertir það, hvernig meðferð fjármála ríkisins er farið. Að sjálfsögðu ber að leggja áherzlu á það að búa vel í einu og öllu um hnútana í svo veigamiklu máli. En það sígur allt og hefur sigið á undanförnum árum á ógæfuhliðina. Menn eiga erfiðara og erfiðara að átta sig á fjármálastefnunni og geta ekki gert það eftir fjárl. sjálfum, og auk þess eru svo svona opin sár í fjárl., að algerlega án þess að séu nokkur ákvæði eða reglur um það, þá er einstökum ráðh., sem eru auðvitað pólitískir embættismenn samkv. okkar stjórnskipun, falið að ákveða atvinnuaukningarfé, svo að millj. skiptir og milljónatugum, þegar nokkuð frá líður.

Ég hef hér gert að gefnu tilefni tvö atriði um meðferð fjármálanna að umræðuefni í sambandi við þetta frv. Hér er ekki um stórvægilegt atriði að ræða eitt. En ef lengra væri farið á þessum vettvangi, sem hér er lagt til, þá yrði það þó til þess að gera fjárl. enn þá meiri skrípamynd af fjármálastefnunni og fjármálastarfseminni í landinu, heldur en nú er.