03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) benti á, að það væri í fjárl. veitt fé til launagreiðslna í einstökum stofnunum og þar með væri það í raun og veru bundið eða ætti að vera bundið, hvað notað væri til launakostnaðar. Ég er honum alveg sammála um þetta, það ætti að vera þar með bundið, hvað notað er til launakostnaðar. En reynslan sýnir bara, að ráðherrar og forstöðumenn stofnana efna til starfrækslukostnaðar oft langt umfram það, sem fjárl. gera ráð fyrir, og eins og ég hef margsinnis tekið fram, oft án þess að minnast á það einu orði við fjmrn. eða fjmrh. Og það er þetta ástand, sem þarf að breytast, og mér finnst, að það væri merkileg tilraun að koma upp þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í frv. Ef það reyndist ekki vel eða menn yrðu fyrir vonbrigðum af því, þá mætti leita annarra, enn þá sterkari úrræða.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) sagði, að menn skyldu ekki halda, að hann hefði ekki gert neinar aths. við ríkisreikninginn. Ég benti honum á, að ef hann væri svona óánægður með starfrækslu ríkisins á undanförnum árum, þá hefði hann sem endurskoðandi átt að greina mjög ýtarlega frá því í einstökum atriðum, hverju honum fannst áfátt, en hann sagði, að af mínu tali hefði helzt svo verið að heyra, að hann hefði ekki gert neinar aths. Hann og hans félagar hafa gert ýmsar aths., en ég vil bara beina því til hv. þm. og raunar annarra, sem heyra mál mitt, að kynna sér þessar aths., sem eru prentaðar við landsreikningana, og bera þær saman við ummæli hv. þm. A-Húnv. um ríkisstarfræksluna. Ef menn gera þetta, þá hlýtur niðurstaðan að verða sú, að annaðhvort ýkir hv. þm. A-Húnv. það, sem hann segir um ríkisstarfræksluna og sukkið, eða þá að hann hefur vanrækt starf sitt sem endurskoðandi landsreikninganna.

Hv. þm. sagði annars, að það drægi nokkuð bitið úr vopnunum, að venjulega væri kominn enn þá hærri landsreikningur, þegar maður væri að endurskoða þann gamla. Mér finnst þetta ákaflega einkennileg röksemdafærsla, og satt að segja finnst mér, að það ætti sízt að draga úr dugnaði hv. þm. við að draga fram í dagsljósið það, sem honum sýnist miður fara, ef hann sér, að ekki er frá hans sjónarmiði um neina úrbót að ræða.

Þá sagði hv. þm., að það væri að vísu rétt að taka það fram, að ég bæri ekki einsamall ábyrgð á allri ríkisstarfrækslunni, eða það væri ekki hægt að kenna mér um allt það, sem aflaga færi, eða eitthvað á þá lund. Þetta var mjög merkileg viðurkenning frá hv. þm. A-Húnv. Þetta er nærri því sögulegur atburður, að hann skuli segja þetta, því að fram að þessu hefur mönnum nú í nokkur ár, þeim sem hafa séð eða heyrt til hans, eða séð það, sem frá honum hefur farið, ekki getað dottið annað í hug, en að honum hlyti að sýnast, að allt það, sem aflaga færi yfirleitt í þjóðfélaginu, væri einmitt mér að kenna og á mína ábyrgð. Þetta er ákaflega ánægjulegur dagur fyrir mig að heyra þetta frá hv. þm. A-Húnv., — merkisdagur.

Hv. þm. talaði hér nokkuð um ráðherraábyrgð og ábyrgð á stofnunum og sótti dálítið í sig veðrið aftur. Það kom smáský, því að hann sagði, að menn yrðu að snúa sér að þessum hæstv. ráðh., því að hann bæri nú ábyrgðina samt, sagði hann aftur örlítið seinna, sótti í sig veðrið aftur. En ég verð nú bara í allri góðsemd að benda hv. þm. A-Húnv. á, að það lætur auðvitað ekkert nærri, að nokkur einn ráðh., hvorki fjmrh, né nokkur annar, geti borið ábyrgð á allri ríkisstarfrækslunni. Ekki dettur mér í hug að játa það nokkru sinni, að ég hafi borið ábyrgð á þeim ráðuneytum, sem aðrir ráðh. hafa farið með á undanförnum árum, og þeim málaflokkum, sem þeir hafa stjórnað. Ég efast líka um, að þessir ráðh. mundu vilja, að ég gerði það, því að sumir af þeim eru nú dálítið státnir af ýmsu, sem þeir hafa gert á undanförnum árum, svo að ég dreg það alveg í efa, að þeir vildu skipta, að ég tæki þá á mig allt það, sem þeir hafa talið ástæðu til þess að vera státnir af, og þá náttúrlega hitt líka, sem miður hefur farið. Ég dreg það alveg í efa, að þeir vildu játa það, að ég hafi einn öllu ráðið og beri ábyrgð á öllu.

Þetta er nú meira í gamni en alvöru, en höfuðatriðið er þetta: Mér finnst, að hv. þm. A-Húnv. ætti að gera sér far um að greina ekki í almennum orðum, heldur greina sem nákvæmast frá því sem yfirskoðunarmaður landsreikninganna, hvað það er, sem honum finnst miður fara í ríkisstarfrækslunni.