29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Út af því, sem fram hefur komið nú síðast í umr., vil ég taka fram, að ég hef ekkert látið uppi um það, að ég teldi það eðlilegt, að þessir eftirlitsmenn væru ólaunaðir, og það er alger rangtúlkun á mínum ummælum að halda því fram, að það hafi falizt í þeim. Ég var aðeins að svara hv. þm. A-Húnv., sem talaði um það, að tilgangur frv. væri sennilega sá einn að veita einum ákveðnum embættismanni ríkisins launaviðbót, og í tilefni af þessum ummælum hv. þm. A-Húnv. benti ég á, að það hefði einmitt verið till. frá flokksbræðrum hans tveim hér í d. að veita honum slíka uppbót. Hins vegar er ekkert um þetta fram tekið í frv., hvernig eigi að fara með launagreiðslur þeirra, eins og ég benti á áður, og ég tel, að það sé engin stæða til þess að taka fram neitt um það í frv., þó að það liggi í augum uppi, að það verði að greiða fyrir þau störf, sem þarna eru unnin, eins og önnur, eftir því hvað þau reynast umsvifamikil. Ég býst við, að allir geri ráð fyrir því.