16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti, Í umræðunum um þetta mál á miðvikudaginn komu hér fram ýmis þau atriði, sem mér þykir ástæða til þess að víkja hér nokkuð að, og þá voru hér einnig lagðar fram nokkrar fsp. af stjórnarandstöðunni, sem ástæða er til líka að svara.

Ég hygg, að réttast sé, að ég svari hér með nokkrum orðum þeim fsp., sem hv. þm. G-K. beindi hér til ríkisstj. og varða sérstaklega sjávarútvegsmál eða þann málaflokk, sem ég hef með að gera. Hann las hér upp spurningalista, 20 spurningar samtals. Það er svona eins og meðallandspróf, en þar voru spurningar varðandi sjávarútveg. Sú fyrsta var á þessa leið: Hverjar eru tekjur útflutningssjóðs eftir núverandi kerfi, og hverjar verða tekjur hans eftir frv., ef gengið er út frá í báðum tilfellum sams konar innflutningi á vörum til landsins? Samanburðurinn er á þessa leið, og miða ég þá við þær áætlanir, sem lagðar hafa verið til grundvallar í sambandi við undirbúning þessa frv. Tekjur útflutningssjóðs eru þá áætlaðar samkv. núgildandi lagaákvæðum 508.7 millj. kr., sem skiptast þannig, að af vöruinnflutningi eru tekjurnar 430.7 millj. kr., af duldum greiðslum 13 millj. kr. og af ýmsum aukatekjum 65 millj. kr.

Þetta eru sem sagt tekjurnar, sem útflutningssjóður býr við samkv. núgildandi lögum, miðað við þann innflutning eða þá gjaldeyrissölu, sem hér er lögð til grundvallar. Með sams konar gjaldeyrissölu yrðu tekjur sjóðsins samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, samtals 1.155.1 millj. kr. En hér er um algera brúttótekjuupphæð að ræða vegna þess, sem ég skal koma nánar að síðar, að hér er varla um nema bókhaldslegar tekjur að ræða í sumum tilfellum, þar sem sami aðilinn gerir hvort tveggja að greiða í sjóðinn og taka úr honum jafnvel samstundis jafnháa upphæð aftur. Þannig er þetta t.d. með tekjur af duldum greiðslum og gjöld aftur af duldum tekjum, sem inn koma. Þar er reiknað með, að út og inn gangi rösklega 200 millj. kr. Og í sambandi við rekstrarvörur framleiðslunnar er þarna um að ræða rösklega 200 millj. kr. einnig, þar sem aðeins er um hreina millifærslu að ræða á milli sömu aðila.

Það er því raunverulega um það að ræða, að samkvæmt þessu frv. verði tekjur útflutningssjóðs nú, þegar þetta er borið saman á sambærilegan hátt, um 752 millj. kr. á móti 508 millj, kr., eða tekjuhækkun raunverulega hjá sjóðnum má teljast rösklega 240 millj. kr., og það er gerð grein fyrir því, hvernig hinum raunverulega tekjuauka sjóðsins er varið. Sjóðurinn yfirtekur nú beinar greiðslur vegna ríkissjóðs, þannig að hann hefur af því aukin útgjöld frá því, sem áður var, upp á 61 millj. kr., og svo tekur hann að sér greiðslur til atvinnuveganna upp á 180 millj. kr. umfram það, sem verið hefur og ég skal gera nánari grein fyrir síðar, og er þá gerð grein fyrir öllum tekjuaukanum, í hvað hann hefur farið.

Önnur spurningin hjá hv. þm. G-K. var þannig: Hver er hækkun útflutningsbótanna til sjávarútvegsins? — Ef maður tekur nánar fyrir útflutningsbæturnar sjálfar, þá mundu þær vera samkvæmt þeirri áætlun, sem nú er til grundvallar, samkvæmt núgildandi kerfi til sjávarútvegsins 440 millj. kr., en samkvæmt frv. mundu heildargreiðslurnar til sjávarútvegsins verða 732 millj. kr., eða öll hækkunin 292 millj. kr. Þessu er þannig varið, að það, sem hér er um að ræða, er, að af þessum 290 millj. eru um 200 millj. kr., sem eru beinlínis hækkun á bótum vegna hækkunar á rekstrarvörukostnaði, og svo eru um 50 millj, kr. auknar bætur vegna þess, að kaupgjald hækkar, og svo er um tæplega 50 millj. kr. hækkun að ræða á bótum vegna þess, að bætur eru auknar til nokkurra þátta sjávarútvegsins frá því, sem áður var, og er þar fyrst og fremst um að ræða auknar bætur til togaranna og hækkaðar bætur til síldarútvegsins til þess að mæta verðfalli, sem hafði orðið á afurðunum.

Þá var þriðja spurningin: Hverjar eru forsendur þess, að hækka verður bæturnar? — Það hefur komið hér allskýrt fram í umræðunum, að ástæðurnar til þess, að hækka verður bæturnar, eru þessar í höfuðatriðum: Rekstrarvörur eru hækkaðar verulega í verði, og það þurfti að hækka bæturnar sem því nam. Það þótti rétt að bæta kjör togaranna frá því, sem verið hefur, og það þurfti aukin útgjöld vegna þess. Það þurfti að hækka bæturnar til síldveiðanna og einkum í sambandi við Norðurlandssíldveiðarnar, vegna þess að þar var um verulegt verðfall að ræða frá árinu á undan. Þá verður einnig nokkur hækkun á útflutningsbótunum vegna þess, að nú eru bæturnar meira samræmdar, en áður var, en það hefur leitt til þess, að nokkrir þættir hækka heldur, og svo í síðasta lagi hefur þurft að hækka bæturnar vegna þess, að nú er gert ráð fyrir ákveðinni kauphækkun.

Þá var hér fjórða spurningin á þessa leið: Hefur Landssamband ísl. útvegsmanna samþykkt að breyta þeim samningi, sem ríkisstj, gerði við útvegsmenn um síðustu áramót, og ef svo er ekki, telur ríkisstj. þá heimilt að lögfesta stórfelldar breytingar á hinum umsömdu fríðindum án samþykkis landssambandsins?

Það er ekki rétt, að það hafi verið gerður neinn formlegur samningur á milli landssambandsins og ríkisstj. Það samkomulag, sem gert var um síðustu áramót, var á svipaða lund og áður eða þannig, að 30. des. 1957 ritaði sjútvmrn. landssambandinu bréf og tilkynnir þar, að það muni hlutast til um, að útvegsmenn fái ákveðin réttindi, sem þar eru tilgreind, tiltekna hækkun á fiskverði og önnur ákveðin fríðindi. Í þessu samkomulagi eru engin ákvæði um skuldbindingu til handa útvegsmönnum um það, að ekki megi verða neinar verðlagsbreytingar í landinu á árinu. Hins vegar er það tekið fram af þeim í bréfi til rn., að þeir fyrir sitt leyti hafi ákveðið að hefja rekstur á árinu, að fengnu þessu bréfi ráðuneytisins, á þeim grundvelli, að þeir miði við það, að verðlagsbreytingar verði ekki verulegar, en verði þær, þá séu þeir að sjálfsögðu frjálsir sinna gerða. Það hefur því alveg legið ljóst fyrir frá upphafi, að ef þeir vildu ekki una við það, sem kynni að gerast á árinu, þá eru þeir frjálsir til þess að segja þessu samkomulagi upp og hætta sínum rekstri.

Nú er þá að athuga það, og það hefur skýrt komið fram í þeim viðræðum, sem fram hafa farið í sambandi við undirbúning að þessu frv. á milli rn. og útvegsmanna, — nú er þá að athuga það: hvernig stendur þetta samkomulag, sem þarna var gert, nú einmitt um þetta leyti? Jú, gagnvart sjávarútveginum sem heild standa málin þannig: Við togaraútgerðina var aldrei gert neitt fast eða bindandi samkomulag, svo að þar er ekkert um að ræða í sambandi við þann þátt framleiðslunnar. Ekkert samkomulag hefur heldur verið gert varðandi síldarútveginn, hvorki Suðurlandssíld né Norðurlandssíld. Þar er því engu samkomulagi til að dreifa. Vetrarvertíðin er búin, og þar hefur verið farið eftir því samkomulagi, sem gert var, og þetta frv. byggir að öllu leyti á því, að bætur verði greiddar útvegsmönnum fyrir þorskvertíðina á þessari vetrarvertíð eins og gert var ráð fyrir upphaflega í samkomulaginu um s.l. áramót. Það, sem um er því að ræða frá hálfu útvegsmanna, er þá aðeins sumar- og haustúthald báta á þorskveiðum, sem er tiltölulega mjög lítill hluti af heildarrekstri útgerðarinnar á árinu. Útvegsmönnum stendur því opið að velja um það, hvort þeir sætta sig við þær aðgerðir, sem hér eru áformaðar, eða hvort þeir óska eftir því að halda sér fast við eldra samkomulagið og fá þá að sjálfsögðu miklu minni bætur, en ráðgerðar eru í þessu frv., og það hygg ég að engum þeirra hafi komið til hugar.

Í sambandi við þetta atriði komst hv. þm. G-K. svo að orði, að hann teldi eða vissi, að nú stæði til, að útvegsmenn boðuðu til stöðvunar á rekstri bátaútvegsins. Það er nú ekki í fyrsta skipti, sem maður heyrir það frá honum, að það standi til, að bátaútvegsmenn ætli að stöðva útgerðina. Að vísu fór svo fyrir hv. þm., að þegar hann ætlaði að vitna í bréf frá samtökum útvegsmanna þessu til stuðnings og tók að lesa, þá rak hann sig strax á það, að þar sem útvegsmenn hefðu notað orðið stöðvun, þá var það tengt við það, að þeir álitu, að til stöðvunar gæti dregið hjá útveginum, ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að auka rekstrarfé til útgerðarinnar eða auka lánsfé til útgerðarinnar yfirleitt. Ég hafði áður í þessum umræðum einmitt tekið það fram, enda hefur það komið mjög skýrt fram í viðtölunum við útvegsmenn, að út frá því hefur verið gengið sem sjálfsögðum hlut, að óhjákvæmilegt er að auka rekstrarfé útgerðarinnar sem afleiðingu af því breytta skipulagi að hækka hér verulega verð á rekstrarvörum, og mér hefur verið það ljóst frá upphafi, að ef þannig yrði haldið á málinu, að rekstrarfé yrði ekki aukið, þá hlyti það að leiða til stöðvunar. En vitanlega er það alger misskilningur að halda því fram, að þetta sé frá hálfu útvegsmanna einhver tilkynning um, að þeir ætli að stöðva útgerðina vegna þeirra ákvæða, sem felast í þessu frv.

Það er svo aftur á móti ekkert nýtt fyrir mér, sem hef staðið í samningum við útvegsmenn nú um nærri tveggja ára skeið, að þeir haldi því fram einnig nú eins og alltaf áður, að þeir þurfi gjarnan að fá hærri bætur, en um hefur samizt. En það fullyrði ég, að nú í þessu tilfelli ber í öllum tilfellum, að ég held ég megi segja, minna á milli þeirra till., sem stendur til að lögleiða, og krafna útvegsmanna, heldur en jafnan áður a.m.k. En það er mér ljóst, að það er a.m.k. hægt að segja, að það er ákaflega grunnt á því hjá hv. þm. G-K. og fleiri mönnum í stjórnarandstöðunni að vilja grípa til þess, að e.t.v. sé nú stöðvun fram undan hjá útgerðinni. Ég hef orðið var við það hér áður í líkum tilfellum, að það virðist vera nokkur áhugi fyrir slíku, ef það mætti svo verða, og það er mjög greinilegt, að hann a.m.k. lítur á það nokkrum gremjuaugum, hvernig hefur tekizt til með mín viðskipti við samtök útvegsmanna þann tíma, sem ég hef haft með þessi mál að gera, borið saman við það, sem var í hans tíð, því að hann á erfitt með að ræða þessi mál án biturs sársauka. Og það er eitt einkenni, þegar hann ræðir þessi mál, að þá kemur ekki fyrir, þó að hann sé að ræða um sjávarútvegsmál, að kalla mig sjávarútvegsmálaráðherra, þá skal ég ævinlega heita viðskmrh. Það skal ekki henda hann að nota slíkt nafn um mig. En hvað svo sem um þetta er að segja, þá liggur það nú samt fyrir, og hvað sem líður öllum fullyrðingum hans um það, að knapplega megi trúa orðum mínum, þá liggur það nú eigi að síður fyrir, að ég hef samið við útvegsmenn og okkur hefur gengið vel að semja ár eftir ár, skipti eftir skipti, og er algerlega ósambærilegt við það, sem var í tíð hans.

Það var strax haustið 1956, rétt eftir að ég hafði tekið við störfum sjútvmrh., að þá samdi ég við útvegsmenn, bæði hér sunnanlands og norðan, í sambandi við síldarúthaldið þá. Ég samdi einnig um áramótin 1956–57 við útvegsmenn, og það tókst í tæka tíð. ég samdi einnig við þá vorið 1957 varðandi síldarúthald. Ég samdi líka við þá sumarið 1957 viðvíkjandi síldarúthaldi þá og einnig haustið 1957 um haustúthald og svo nú um síðustu áramót. Ég vil ætla það, að þessar staðreyndir bendi tvímælalaust til þess, að þeir hafi metið nokkurs orð mín og samskipti við mig, því að mér hefur a.m.k. tekizt að semja við þá og halda framleiðslunni áfram í fullum gangi, en það er meira, en hægt er að segja um hv. þm. G-K. þann tíma, sem hann var sjútvmrh.

Í þessu sambandi vék hv. þm. G-K. að því og fleiri ræðumenn Sjálfstfl. hér, að varlega bæri að taka ýmsar tölur, sem ég nefndi í sambandi við efnahagsmálin, og nefndi þá m.a. til þess það, að ég hefði skrifað grein í febrúarmánuði s.l. og talið þar, að komast mætti af með um 90 millj. kr. í auknar tekjur fyrir útflutningssjóð og ríkissjóð, en nú væri hér um að ræða miklum mun hærri fjárhæðir, sem innheimta þyrfti. Ég verð nú að segja það, að þessi samanburður þessara hv. þm. ber mjög vott um það, að lítið hafa þeir sett sig inn í það mál, sem hér liggur fyrir, nema þá þeir mæli þetta gegn betri vitund. Þetta frv. ber augljóslega með sér, að hér er búið að gera ráð fyrir stórauknum útgjöldum til allt annarra hluta, en þá lágu fyrir. Nú er gert ráð fyrir því að afla tekna til viðbótar við þessar 90 millj. kr. upp á 50 millj. til þess að mæta almennri kauphækkun í landinu. Nú er gert ráð fyrir því að hækka áður umsamdar bætur til sjávarútvegsins upp á um 50 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir því, að togaraflotinn íslenzki fái auknar bætur upp á um 25 millj. fram yfir það, sem hans samningar stóðu til um, og auka bæturnar til Norðurlandssíldarinnar um a.m.k. 16–18 millj. til þess að mæta verðfalli, sem síðan hefur orðið kunnugt um. Nú er gert ráð fyrir því í þessu frv. að afla tekna upp á 10 millj, kr. til þess að bæta aðstöðu fiskveiðasjóðs. Nú er gert ráð fyrir því að afla hér tekna til þess að standa undir auknum útgjöldum upp á um 7 millj. kr. vegna lífeyrissjóðs togarasjómanna. Og nú er gert ráð fyrir því að afla tekna til þess að verða við kröfum bænda um ný verðlagningarákvæði á landbúnaðarafurðum, sem kosta um 22 millj. kr. og greinilega kom fram í minni grein, að ég hafði ekki reiknað með, enda höfðu þá engar ákvarðanir verið teknar í því máli. Síðast, en ekki sízt, er nú gert ráð fyrir því að afla tekna upp á um 11 millj. kr., til þess að standa undir þeim skattalækkunum, sem ráðgert er að lögfesta á þessu þingi. Ef þessar fjárhæðir eru teknar með í reikninginn, sem nú er algerlega bætt vegna nýrra viðhorfa við þær 90 millj., sem ég nefndi, þá kemur út úr þessu dæmi um 240 millj, kr., sem er einmitt sá tekjuauki, sem hér er um að ræða.

Ég tók eftir því, að hv. þm. G-K. og reyndar fleiri þm. Sjálfstfl. hömruðu hér mjög á því og hafa gert það síðan í blaði sínu, að hinar nýju álögur, sem væri verið að leggja á þjóðina, næmu hvorki meira né minna en 790 millj. kr. Nánari skýring var svo á þessu gefin sú, að af þessari fjárhæð fengi ríkissjóður 140 millj. kr. eða útflutningssjóður með öðrum orðum um 650 millj. kr. Ekki vantaði, að menn þyrftu að skrúfa síg nokkuð hátt, þegar undirstrika átti það, hversu mikið væri lagt á þjóðina. En heldur kom einkennilega út hjá þessum ræðumanni skýringin á því, hvað um þetta fé allt saman yrði, því að þótt útflutningssjóður ætti nú að fá auknar tekjur frá því, sem áður var, upp á 650 millj. kr., eða rösklega tvöfaldaðar þær tekjur, sem hann hafði áður, þá sagði form. Sjálfstfl., að það væri ljóst á bréfi útgerðarmanna, að útgerðin fengi ekki einu sinni það, sem hún ætti að fá til þess að halda í horfinu. Hún fékk ekkert, það vantaði nokkuð upp á prósenturnar, til þess að hún héldi sínu sléttu. Ekkert fékk hún því af þessum 650 millj., og hann bjóst við stöðvun frá hálfu útgerðarinnar, vegna þess að hún fékk ekki sitt upp bætt. Hver átti þá að fá þessar 650 millj. kr., sem átti nú að leggja á þjóðina í nýjum álögum? Mér er spurn: hver átti að taka við þessari fjárhæð? Hver græddi öll þessi ósköp? Skýringin var enn fremur sú, að svo væri þetta illa upp byggt, að þetta frv. gæti alls ekki bjargað ástandinu nema — ja, eins og það var orðað, raunverulega væri hér aðeins tjaldað til einnar nætur. Þrátt fyrir það, þótt tekjur útflutningssjóðs ættu að gera meira en tvöfaldast, sjávarútvegurinn ætti ekki að fá neitt meira en áður og knapplega það, sem honum bar, þá átti öll þessi summa ekki að duga nema til einnar nætur.

Þetta er nú málflutningur í lagi, vildi ég segja. En ætli þetta mætti ekki leiða huga þessara manna að því, að þeir eru að leika sér hér fram og til baka með tölur? Þeir eru að tala um það sem álögur, eins og ég minntist hér á í ræðu minni í gær, að ef flugfélögin íslenzku afla gjaldeyristekna í þjóðarbúið upp á 60 millj. kr., en taka aftur út úr þjóðarbúinu þessar 60 millj. kr., fá þetta aftur í gjaldeyrisverðmæti, þá eiga þessi flugfélög samkvæmt uppstillingunni að borga 55% af þeim 60 millj. kr., sem þeir fá í gjaldeyri, eða 35 millj. kr., en þegar þeir koma með sömu upphæð, þessar 60 millj. kr., og leggja inn í þjóðarbúið, þá eigum við að borga þeim þessar 35 millj. kr. aftur til baka, og svo kalla menn, að þetta séu álögur upp á 35 millj. kr. Auðvitað eru menn hér vísvitandi að leika sér að tölum. Þeir vita, að þessi breyting, sem þarna hefur verið gerð, á ekkert skylt við álögur. Hér þurfti, eins og ég minntist á í ræðu minni hér á miðvikudaginn, að fara inn á þessa braut einvörðungu til þess að halda hér ákveðnu samræmi, og það byggðist á því, að um leið og það var ákveðið, að réttmætt væri að hækka verð á rekstrarvörum vegna almenns ósamræmis, sem orðið væri á verði þeirra og annarra vara í landinu, þá varð að láta þá aðila, sem keyptu þessar rekstrarvörur, fá jafnvirði þess, sem þær hækkuðu í verði, í auknum tekjum á móti. Þetta var því fyrirkomulagsatriði, og af þessu leiddi, að það þurfti að tryggja það, að ýmsir þeir aðilar, sem ekki ganga beint í gegnum útflutningssjóð eða hafa gert til þessa, yrðu að fá jafnar bætur á þann gjaldeyri, sem þeir skila, eins og þeir verða að greiða á þann gjaldeyri, sem þeir fá hjá þjóðarbúinu.

Ég hygg, að það megi öllum verða ljóst, sem vilja gera sér hleypidómalausa grein fyrir þessum tölum, að þessu er einmitt þannig háttað, að á sambærilegum grundvelli er hér um það að ræða gagnvart útflutningssjóði, að hann fái auknar tekjur upp á um 240 millj. kr., sem glögglega kemur fram í grg. frv. og í því, sem ég hef sagt, hvernig raunverulega er ráðstafað.

En það var í fleiri atriðum en þessu, sem meðferð á tölum var heldur einkennileg hjá formanni Sjálfstfl. og þeim fulltrúum sjálfstæðismanna, sem hér töluðu á miðvikudaginn. Hann gerði samanburð við þetta á því, sem hann hefði verið að gera hér í janúarmánuði 1956, álögum þeim, sem hann beitti sér þá fyrir, og sagði, að þá hefði hann lagt á 100 millj, kr. og það hefði verið talað um það sem hreint glapræði og gífurlegar álögur á landsmenn. Þarna er ekki að spyrja að nákvæmninni. Nú liggur þetta þó alveg fyrir. Við gátum auðvitað rifizt um það, um það leyti sem var verið að setja þessi lög, í janúarmánuði 1956, hvað þau mundu verða dýr, hvað þau mundu raunverulega þýða miklar álögur. En nú liggur það alveg fyrir, hvað lögin um framleiðslusjóð gáfu miklar tekjur. Þau gáfu ekki 100 millj. kr., heldur 175 millj. kr., svo að álögurnar þá voru ekki upp á 100, heldur upp á 175 millj. kr. til útflutningssjóðs. En þar að auki var svo það, að aflað var þá nýrra tekna í ríkissjóð. Og enn var svo stagazt á því, að jólagjöfin fræga hefði þýtt 300 millj. kr. í nýjar álögur á þjóðina, Það liggur líka núna fyrir, hvað tekjuauki útflutningssjóðs varð mikill frá árinu á undan og hvað því þessi margumtalaða jólagjöf var upp á mikla fjárhæð. Það liggur sem sagt fyrir núna, að þetta voru engar 300 millj. Tekjuaukinn var 130 millj. kr., og ættu þessir hv. þm. að spyrja þann fulltrúa, sem þeir eiga í stjórn útflutningssjóðs, um það, hvort þetta sé ekki rétt.

Það var svo atriði út af fyrir sig, að á sama tíma sem formaður Sjálfstfl. óskapast út í þær till., sem hér liggja fyrir, var athyglisvert, að einmitt það, sem hann fjasaði helzt um, voru atriði, sem maður hélt að hefði komið fram allskýrt, hver stefna hans væri til á undanförnum árum. Í fyrsta lagi var það, að hér væri um að ræða gengislækkun. Mig minnir, að form. Sjálfstfl. hafi nokkrum sinnum verið að hæla sér fyrir það, að hann hafi staðið að gengislækkun, hann hafi framkvæmt gengislækkun, hann hafi haft þor og dirfsku til þess. En nú er snúið við blaðinu, og nú er því haldið fram, að það sé sérstakur ágalli á einu frv., að hann telur, að þetta jafngildi gengislækkun.

Hann fjasar einnig um það nú, að þetta frv. þýði verulega verðhækkun í landinu, hér sé gert ráð fyrir því, að allar mögulegar vörur hækki í verði. En kannast enginn við það, að hann hafi staðið að neinum slíkum ráðstöfunum áður? Hvernig voru þær till., sem hann stóð að í janúarmánuði 1956, eða þessar 175 millj. kr., þegar lögin um framleiðslusjóð voru sett? Þá gerði hann ráð fyrir því að leggja jafnt gjald svo að segja á allar vörur, sem fluttar voru inn til landsins, Það var aðeins einn vöruflokkur, sem þá var tekinn út úr og hækkað alveg sérstaklega á — það voru m.a. vörur, sem hann var að kvarta undan núna að yrðu fyrir hækkun, það voru búsáhöld og þess háttar vörur, en þá var hækkað enn þá meira á þeim, heldur en á hinum almennu vörum.

Það er í rauninni alveg furðulegt að hlusta á þau rök frá hálfu sjálfstæðismanna, þegar þeir finna að því frv., sem hér liggur fyrir, þegar þeir ætla að gera aðalatriði úr því í sínum málflutningi, að hér sé um nokkurs konar eða algerar gengislækkunarráðstafanir að ræða eða ráðstafanir, sem miða að því að hækka vöruverð, en efnislega hafa þessir menn í rauninni ekkert um það vandamál að segja, sem hér liggur fyrir. Efnislega svara þeir engu um það, hvort þeir álíta, að það þurfi að afla ákveðinna tekna í því skyni, sem hér er um að ræða. Þar víkja þeir sér með öllu undan, vilja ekki svara neinum spurningum og segja, að þá vanti upplýsingar. Stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu skortir upplýsingar um að vita um það, hvort sjávarútvegurinn þurfi á einhverjum bótum að halda eða ekki, — hann, sem á fulltrúa í öllum þeim stofnunum, sem upplýsingar gætu gefið í þessum efnum. Hann á ýmsa af forustumönnum sínum í forustuliði útgerðarmanna í landinu. Hann á bankastjóra í bönkunum og gæti þar fylgzt með hlutunum. Hann á fulltrúa í stjórn útflutningssjóðs. Auk þess á svo þessi flokkur marga þekkta hagfræðinga. Auk þessa alls hefur hann svo stjórnað þessum málum í ríkisstj. um mörg undanfarin ár. En svo setur hann upp einhvern — ja, mér liggur við að segja fávitasvip og segist eiginlega ekkert um þetta vita, hvort hér sé þörf á neinum bótum eða ekki eða hversu miklum. Auðvitað veit Sjálfstfl. hér miklu betur. Hann veit alveg nákvæmlega eins og við, að það verður ekki komizt hjá því að afla talsverðra tekna til þess að tryggja rekstur atvinnuveganna. Og hann hefur nákvæmlega jafngóða aðstöðu til þess og við að geta sagt um það í höfuðatriðum, hvaða stefnu ætti helzt að velja. En sannleikur málsins er sá, að hann aðeins þorir ekki að segja, hvað hann vill eða hvað hann mundi gera, ef hann væri við völd. Það er sannleikur málsins. Frá því þorir hann ekki að skýra. En í öllum þessum málflutningi er svo lögð höfuðáherzla á það að reyna að skapa sem allra mesta óánægju þeirra, sem standa að þessu samkomulagi.

Nú eru uppi brýningar um það, að hvorki þegar lögin um útflutningssjóð voru sett í árslok 1956 né heldur nú hafi verið munað eftir því, að hægt væri að taka eitthvað af þeim ríku og láta þá borga eitthvað af þessum miklu gjöldum, nú sé eingöngu munað eftir því að hækka kaffi og sykur og kornvörur og aðrar brýnustu nauðsynjar. (Gripið fram í.) Nei, þeim hefur nú ekki verið gleymt, þessum ríku, a.m.k. kannast þeir vel við það, sjálfstæðismennirnir, að þeim hafi ekki verið gleymt, því að þeir hafa verið að kvarta fyrir þeirra hönd alltaf annað slagið. Ég man ekki betur, en þeir hafi ekki alls fyrir löngu verið að kvarta undan því, að einhverjir eigi að greiða 135 millj. kr. í stóreignaskatti. Ég man ekki betur, en nokkrum sinnum hafi verið kvartað undan því í blöðum sjálfstæðismanna, að hart sé nú gengið að heildsölum og álagning þeirra skorin svo niður, að þeir fái ekki staðizt þetta. Ég man ekki betur, en uppi séu sterkar kröfur um, að það verði að hækka hina almennu álagningu í landinu, því að verzlunin fái ekki staðizt þetta. Og ég man ekki annað, en nokkuð hafi verið rætt um það í þessum herbúðum, að mikið væri nú búið að hækka ýmsa hluti, ýmsar lúxusvörur, langt fram yfir það, sem hóflegt væri. Nei, það hefur ekki verið sparað af hálfu þessara manna að kvarta undan því, að lagt hafi verið á stóreignamenn. En hitt er svo annað mál, að bæði þegar lögin um útflutningssjóð voru sett í árslok 1956 og eins nú í sambandi við þessa lagasetningu hefur verið reynt að halda þannig á málunum, að sem bezt yrðu tryggðir, miðað við þær aðstæður, sem fyrir liggja, hagsmunir láglaunamanna í landinu. Nú er beinlínis gert ráð fyrir því í þessu frv. að auka nokkuð kaup launþega í landinu, og er það gersamlega ólikt því, sem gert hefur verið í hliðstæðum tilfellum, þegar sjálfstæðismenn hafa ráðið stefnunni.

Það er að vísu rétt, eins og ég hef tekið fram áður í þessum umræðum, að veruleg hætta er á því, að verðlag í landinu hækki allmikið og kannske svo mikið, að erfiðleikar verði á því fyrir útflutningsframleiðsluna að mæta afleiðingum þess. En þar mun velta mjög mikið á því, hvernig tekst með framkvæmd þessara laga, og einnig mjög mikið á því, hvernig tekst með heildarframleiðsluna í landinu. Ef það fer nærri lagi, sem hagfræðingarnir hafa áætlað, að heildarverðhækkunin í landinu, þegar öll áhrif af þessu frv. eru komin fram, muni ekki nema meiru, en 14–16 vísitölustigum, þó reiknað með því, að þetta frv. gerir ráð fyrir því að greiða raunverulega niður 9 af þessum stigum, þannig að sú hækkun, sem væri hættuleg fyrir atvinnuvegina, ætti ekki að nema meiru, en 5–7 stigum, — ef þetta fengi staðizt, að hækkunin yrði umfram þessi 9 stig ekki meiri en 5–7 stig, þá er ég sannfærður um, að það ógnar ekki okkar atvinnuvegum, ef a.m.k. árferði verður sæmilegt og ef tekst að ýta undir framleiðsluna í landinu og þar með gjaldeyrisöflunina, en draga nokkuð úr þeirri fjárfestingu, sem hefur verið allt of mikil, miðað við okkar gjaldeyrisþol. En það eitt er víst, að það mun ekki bæta úr í sambandi við þá erfiðleika, sem hér er við að glíma, þegar stærsti flokkur landsins berst um á hæl og hnakka og reynir að tortryggja þær aðgerðir, sem hér er stefnt að, og reynir að beita allri sinni orku til þess að hnekkja þeim í framkvæmd. Þá mun það, síður en svo, verða til góðs fyrir atvinnulífið í landinu. Og það er einmitt þetta, sem Sjálfstfl. hefur gert sig sekan um á undanförnum árum æ ofan í æ, og það er einmitt þetta, sem ég átti við í ræðu minni á miðvikudaginn, sem sá ræðumaður, sem hér talaði næst á undan mér, var að mótmæla úr minni ræðu, þegar hann taldi, að ég hefði óréttilega haldið því fram, að Sjálfstfl. hefði æst til verkfalla og hann hefði m.a. staðið að því að æsa upp til vinnudeilna hjá flugmönnum og farmönnum og öðrum slíkum aðilum, Hvað svo sem líður mótmælum hans, þá efast ég ekkert um það, og það veit mikill meiri hluti landsmanna, sem hefur lesið blöð sjálfstæðismanna, sem las Morgunblaðið um það leyti, sem þessi verkföll voru að renna af stokkunum, og um það leyti, sem þessi verkföll stóðu yfir, — það efast enginn, sem las blöð Sjálfstfl. frá þeim tíma, að hann reri öllum árum undir því, að út í þessi verkföll væri farið og að þau stæðu sem lengst og að þau yrðu sem torleystust. Um það er ekkert að efast.

Ég efast ekkert um það og hef sagt það hér áður, að það voru vissar ástæður, eins og jafnan er í stéttarfélögum, til þess að bæði flugmenn og eins farmenn vildu fá ýmsar leiðréttingar í sambandi við sín kjör. En það voru einmitt þessar grunnástæður, sem lágu fyrir í félögunum og jafnan liggja fyrir hendi, sem voru miskunnarlaust notaðar af áróðursmönnum til þess að koma deilunum af stað. Og síðan var ekki skirrzt við að krefjast mjög verulegra kauphækkana, einnig til þeirra hæst launuðu í þessum félögum.

Ég held sem sagt, að miklu nær væri í sambandi við þetta mál, vegna þess að það er almennt viðurkennt af landsmönnum, að það verður ekki komizt hjá því að tryggja rekstur atvinnuveganna og afla til þess nokkurra nýrra tekna, — að þá væri það miklu eðlilegra, að stærsti stjórnmálaflokkur landsins sýndi þá ábyrgðartilfinningu í þessum efnum, að hann stæði þó með því, sem hann veit að er þjóðinni sem heild lífsnauðsynlegt í þessum efnum, en reyndi ekki að brjóta það niður, sem þó er skilyrði til þess, að hægt sé að halda hér atvinnuvegunum í gangi. Meðan hann bendir ekki á neina aðra leið, sem mætti vera betri til lausnar á vandanum, þá ætti hann að sjá sóma sinn í því að deila ekki svo á þessar leiðir, sem hann gerir, eða reyna eins ákaft og hann reynir að koma þessum till. fyrir kattarnef.