16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti, Það eru aðeins nokkur orð. Ég skal ekki lengja þessa 1. umr. málsins, Það, sem ég verð að segja, var eftirfarandi:

Mér urðu það mikil vonbrigði, að hv. 9. landsk. þm., Ólafur prófessor Björnsson, skyldi ekki geta svarað einföldum spurningum mínum á gleggri hátt, en hann treysti sér til. Ég hafði spurt hann, hvort hann teldi rétt við núverandi aðstæður, eða hefði talið réttara við núverandi aðstæður að breyta skráðu gengi krónunnar. Við þessu fékkst ekki skýrt svar. Þó sagði hann hvað eftir annað í hinni ýtarlegu ræðu sinni, að gengi krónunnar væri rangt skráð. Samt er því ekki skýrt svarað, hvort eigi að skrá gengi krónunnar rétt, nema þá í þessu eigi að teljast svar við spurningunni, að það er margsagt, að gengi krónunnar sé rangt skráð. En það er óneitanlega dálítið undarlegt, að þeir menn, sem telja gengi krónunnar rangt skráð, skuli ekki vilja segja það skýrt, svara því skýrt: Á að skrá gengi krónunnar rétt?

Ég hafði einnig spurt um það, hvort hv. þm. teldi þær útflutningsbætur, sem gert er ráð fyrir, of háar eða of lágar eða sómasamlega rétt ákveðnar. Við þessu fékkst það svar, að hann hefði ekki haft aðstæður til þess að kynna sér svo rækilega aðstæður sjávarútvegsins, að hann gæti um þetta dæmt. Það er enginn vandi fyrir hv. þm., sem á sæti í fjhn., að afla sér þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja, um rekstrarafkomu einstakra greina sjávarútvegsins. Þær liggja áreiðanlega fyrir. Ef það gæti stuðlað að því, að svarið fengist, þótt síðar væri í umræðunum, þá er sjálfsagt að hjálpa til þess, að þær upplýsingar geti legið fyrir.

Ég hafði enn fremur spurt í þriðja og síðasta lagi um það, hvort hann teldi skiptingu innflutnings í gjaldaflokka, sem eru aðallega þrír, réttmæta eða hvort hann vildi hafa hana öðruvísi. Hann svaraði, að hann vildi hafa hana öðruvísi, án þess þó að tilgreina í einstökum atriðum, með hverjum hætti það skyldi vera.

Það eru ýmis önnur atriði í ræðu hv. þm., sem voru mjög jákvæð fyrir það mál, sem hér er til umræðu, eins og raunar var við að búast og hlaut að verða sagt af hans hálfu með tilliti til þeirrar reynslu, sem hann hefur í þessum málum, og þeirrar þekkingar, sem hann hefur yfir að ráða í þessum efnum. Hv. þm. sagði, að þessar till. gerðu útflutningsbótakerfið og innflutningsgjaldakerfið miklum mun einfaldara, en það hefur verið undanfarin ár. Í þessu er fólgin viðurkenning á gildi þessara ráðstafana á vissu sviði a.m.k. Hann sagði enn fremur, og það vil ég leggja sérstaka áherzlu á, að þessar ráðstafanir fælu í sér, að meira samræmi kæmist á, en ríkt hefur milli erlends og innlends verðlags.

Það hefur verið einn meginvandi íslenzkra efnahagsmála um mörg undanfarin ár, að það hefur verið óeðlilegt misræmi, hættulegt misræmi milli innlends og erlends verðlags. Hv. þm. sagði, að þessar ráðstafanir mundu hafa í för með sér aukið samræmi milli innlends og erlends verðlags, og eru það, svo langt sem það nær, bein meðmæli með þessum ráðstöfunum. Hann sagði og, og það vildi ég að síðustu undirstrika úr ræðu hans, að þessar ráðstafanir leiddu til þess, að nú væri gert ráð fyrir mun minni mismun á útflutningsbótum, en áður hefði verið, og væri það skynsamlegt, svo langt sem það næði. Hér er þriðja meginviðurkenningin á því, að hér sé um að ræða framfaraspor, endurbætur á því kerfi, sem í gildi hefur verið undanfarið.

Með tilliti til þess, að þessi jákvæðu atriði komu skýrt fram í ræðu hv. 9. landsk. þm., eins og þau komu einnig að nokkru leyti fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf., vil ég leyfa mér að beina til hv. 9. landsk. þm. þremur öðrum spurningum, mjög einföldum, um mál, sem hann hefur áreiðanlega svör á reiðum höndum við, spurningum, sem hann getur svarað með jái eða neii, ef hann telur ástæðu til að svara þeim. Ég tel rétt, að það komi fram þegar við þessa 1. umr. málsins. Mig langar til að spyrja hv. þm., og það er að gefnu tilefni í umræðunum, hvort hann telji ráðstafanir eins og þessar fela í sér byrðar á þjóðina í heild. Þetta er atriði, sem hvað eftir annað hefur borið á góma í umræðunum. Þessu má svara með jái eða neii, ef vilji er fyrir hendi. Mig langar í öðru lagi til að spyrja um: Er hann sammála þeim ummælum, sem viðhöfð hafa verið, að hér sé um að ræða 790 millj. kr. nýja skatta á þjóðina? Já eða nei dugir. Hvort um sig er mjög fróðlegt. Í þriðja og síðasta lagi: Telur hv. þm. þessar ráðstafanir vera spor í átt til aukins jafnvægis í þjóðarbúskapnum eða ekki? Ég legg ekki hvað minnsta áherzlu á að fá svar, já eða nei, við þessari spurningu, hvort hv. þm. telur þessar ráðstafanir vera spor í átt til aukins jafnvægis í þjóðarbúskapnum eða ekki.