16.05.1958
Neðri deild: 99. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í ræðu minni hér í dag gerði ég nokkra grein fyrir áliti mínu á því frv., sem hér liggur fyrir, og skal ekki ítreka neitt af því, sem ég sagði þá. En mér þykir nauðsynlegt að segja hér örfá orð til viðbótar í tilefni af ræðu hæstv. félmrh. og skal byrja á því að svara því, sem hann sagði um mig hér persónulega.

Hæstv. ráðh. sagði, að væri augljóst, að ég hataði vísitöluna, og það er satt og einkum vegna þeirra afleiðinga, sem sú skrúfa hefur haft í okkar þjóðlífi, sem vísitalan hefur gert, og skal ég koma nánar að því síðar. En svo bætti hæstv. ráðh. því við, og þar næst Eystein og Framsókn. — Þessu verð ég nú alveg að mótmæla og geta þess, sem vita mætti, að ég hata engan mann og hef aldrei gert og því síður heilan flokk. Jafnvel þó að Framsfl. hafi margt illa gert, þá á ég þar marga góða kunningja innan þings og utan og veit, að í þeim flokki eru menn af öllum tegundum. En það er annað, sem ég hata. Ég hata fjármálapólitík Eysteins Jónssonar, og ég hata það, að Framsfl., svo fjölmennur flokkur og að sumu leyti vel skipaður, skuli hafa gengið svo langt á þeim villigötum, sem foringi hans hefur gengið á undanförnum árum. Það er þetta, sem ég hata, en ekki nokkurn mann.

Þá vil ég hér mótmæla því, sem fram hefur komið hjá hæstv. félmrh. og fleiri ráðh., sem hér hafa talað, að það sé einhver stefna Sjálfstfl. að fella gengið. Þetta er alger fjarstæða, því að það hafa ekki neinar samþykktir um það verið gerðar í okkar flokki og gætu ekki veríð. Frá mínu sjónarmiði er það svo, að það að fella gengi sé eitthvert mesta neyðarúrræði, sem hægt sé að gera, og það, að hér er verið að því, þótt á dulbúinn hátt sé, það sé hið mesta skaðræði, sem lengi hefur verið flutt fram. Gengisbreytingin 1950 hefur ekki reynzt nærri því vel, og það er fyrir það, að áhrif hennar eða það, sem til var ætlazt að gerði gagn, var sprengt. Og eins gæti farið enn, ef ætti að fara að fella gengi. Það er þýðingarlaus ráðstöfun til gagns, ef það á að vera mögulegt að sprengja gengisfellinguna með vísitöluskrúfu eða á þann hátt að skrúfa upp rekstrarkostnað atvinnuveganna í hlutfalli við gengisbreytinguna. Þess vegna get ég ekki látið því vera ómótmælt, sem hæstv. ráðh. hafa hér verið að flíka, að það væri einkum stefna Sjálfstfl. að fella gengið.

Þá skal ég koma að því, sem var mjög athyglisvert og mér að sumu leyti þótt vænt um að heyra frá hæstv. félmrh., og það var það, sem hann sagði um verkalýðsfélögin og þeirra skoðanir. Ég hef það álít, að það sé mjög rangt og gagnstætt því, sem vera á í stjórnmálum, að ráðh. eða aðrir valdamenn séu að gefa loforð um það, að þeir skuli gera það eitt, sem sé samþykkt af einhverjum félögum, stéttarfélögum eða öðrum úti á landinu. Það er að vísu sjálfsagt, að hver og einn stjórnmálamaður hafi samráð við sína kjósendur. En það á að vera og þarf að vera skylda alþm. og ríkisstj. að gera það eitt, sem þeir álíta réttast og heppilegast fyrir þjóðarheildina, og berjast svo fyrir fylgi við það, í þeim stéttarfélögum, sem þeir hafa áhrif á, og meðal almennings í landinu. Ég skal taka það fram, að þegar núverandi hæstv. ríkisstj. byrjaði sína göngu á því að stöðva kaupgjald og verðlag sumarið 1956, þá fannst mér það vera mjög góð ráðstöfun, og ég get ekki neitað því, að mér fannst hæstv. félmrh. sýna þá mikla karlmennsku og koma fram sem sá maður, að ég fór að gera mér vonir um, að þarna hefðum við í forseta Alþýðusambandsins líklega fengið góðan ráðh. Hann barðist fyrir því af fullum krafti og með skynsamlegum rökum, að hér yrði að stöðva, og talaði þar alveg gagnstætt því, sem hann hafði áður gert og allir verkfallapostular og verkalýðsforingjar á undanförnum árum hafa gert. En þetta stóð ekki nema um 4 mánaða skeið. Þá var snúið við blaðinu, og í lok þess tíma voru hækkaðir skattar og tollar um 300–400 millj. kr. Og nú segir hæstv. félmrh., og það var það, sem mér þótti sérstaklega vænt um að heyra, — hann sagði: Verkalýðsfélögin vilja hafa sem minnsta breytingu, mest jafnvægi og sem minnsta hækkun. — Sé þetta rétt, sem ég skal ekki vefengja, þá er ekkert undarlegt, þó að hæstv. félmrh. gangi verr að fá verkalýðsfélögin til þess að samþykkja þetta vitlausa frv., sem hér liggur fyrir, heldur en honum gekk að fá það samþ. haustið 1956 að stöðva kaupgjald og verðlag.

Þá er það vísitöluskrúfan, sem ég skal segja hér örfá orð um, og ég verð að telja, að það mál horfi miklu vænlegar nú, en áður hefur verið, ef marka má þau orð, sem hér hafa fallið frá þremur hæstv. ráðh.: í fyrsta lagi frá forsrh., í öðru lagi frá hæstv. sjútvmrh., og þessir 2 menn eru fulltrúar atvinnuveganna í ríkisstj., og í þriðja lagi kemur það svo nú frá hæstv. félmrh., sem telja má helzt fulltrúa verkalýðsstéttarinnar, að hann vilji gjarnan afnema vísitöluskrúfuna. Ef þetta er alvara fyrir þessum þremur mönnum, þá ætti þeim að vera innan handar að buga sína samstarfsmenn, sem eru fyrst og fremst fulltrúar embættismannastéttarinnar, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. Ef ætti að vera von um að afnema þennan bölvald, sem verstur hefur verið í okkar fjármálalífi, sem er vísitöluskrúfan, að það væri hægt að afnema það, segjum á næsta hausti, þá held ég, að það væri hollast fyrir hæstv. ríkisstj. að snúa nú við blaðinu í þinglokin og leggja þetta frv., sem hér liggur fyrir, í eldinn og reyna að fleyta atvinnuvegunum yfir þessa sumarmánuði með þeim uppbótum, sem mögulegt er minnst að komast af með, og taka svo málið upp á heilbrigðum grundvelli á næsta hausti, því að með þessu frv. er farið út í þá mestu aukningu á dýrtíðarskrúfunni, sem gerð hefur verið með nokkru einu frv., síðan ég kom á Alþ. Það á að lögbjóða það með þessu frv. samkv. upplýsingum sjútvmrh. að hækka embættislaun eða laun yfirleitt um 50 millj. með einu pennastriki, það á að ákveða það með þessu frv. að hækka útgjöld ríkissjóðsins um 80 millj. í viðbót við allt annað, og öll sú gífurlega hækkun, sem af því hlýtur að leiða að hækka allt vöruverð í landinu, allar aðfluttar vörur, hverju nafni sem nefnast, í svo stórum stíl sem hér hefur verið sannað með ræðum margra þeirra manna, sem hafa talað um þetta mál.

Alls þessa vegna verð ég að segja það, að þau ummæli, sem hæstv. félmrh. hefur hér haft um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, þau sanna það, að hér er ekki verið á réttri leið, hér er verið að fara út á öfuga leið, sem ráðh. lýsir að verkalýðsfélögin vilji, og þess vegna ber að snúa sér að því að stöðva alla skrúfuna. Og hæstv. ráðh. gerði miklu betur í því að flytja nú frv. um það, sem hann gerði með bráðabirgðalögum sumarið 1956, að flytja nú frv. um að stöðva kaupgjald og verðlag, þangað til séð er á næsta hausti, hvort það er ekki hægt að taka þetta mál upp á skynsamlegum grundvelli, en ekki fara að samþykkja hér á Alþingi þá hringavitleysu, sem liggur í því frv., sem við erum hér að ræða um.