27.05.1958
Neðri deild: 105. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 3. minni hl. (Einar Olgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni, að ég hafði nokkuð rætt um sem eina af þeim ráðstöfunum, sem gera þyrfti til þess bæði að afla tekna og koma skynsamlegra skipulagi á þjóðarbúið, að þjóðnýta nokkurn hluta innflutningsverzlunarinnar, og ætla ég ekki að fjölyrða meira um það.

Jafnframt er nauðsynlegt að benda á það og minnast þess, þegar við ræðum um þær breytingar, sem gera þurfi viðvíkjandi tekjuöflun og öðru slíku, að ríkinu sjálfu hættir allt of mikið við að gleyma því, þegar það er að boða almenningi m.a., að menn verði jafnvel að skerða lífskjör sín eða herða mittisólina, að ríkið þarf sjálft að ganga á undan og gefa gott fordæmi í slíkum efnum. Það nær ekki nokkurri átt, hvernig ríkiskerfið sjálft er sífellt blásið út hjá okkur, og í hvert einasta skipti sem ný fyrirtæki eru mynduð, hvort sem það er í því beina ríkiskerfi í þrengstu merkingu eða á sviði t.d. bankanna, þá er eins og aldrei megi hreyfa við neinu af þessu aftur til þess að leggja það niður eða til þess að sameina svo mikið sem ríkiseinkasölur eða annað slíkt. Þessir hlutir geta auðvitað ekki gengið. Ríkið getur ekki alltaf bara velt öllu yfir á þjóðarbúskapinn sjálft og aldrei hugsað um, hvað það þurfi að gera sjálft til þess að spara. Og þó að fyrir hafi legið till. og það mjög raunhæfar till. um tugmilljóna kr. niðurskurð þannig á fjárl. ríkisins, þá hefur því ekki fengizt sinnt. En ég læt það nú duga að minna á þetta, um leið og ég lýk þar með þeim kafla minnar ræðu, sem varðar það, hvað hefði mátt gera í staðinn fyrir þá stefnu, sem tekin er í þessu frv.

Svo er í síðasta lagi það, sem ég vildi sérstaklega minnast á út af þessu frv. Það er sú verðgildisrýrnun, sem þetta frv. kemur til með að hafa í för með sér. Það er skipulögð sem afleiðing af þessu frv. rýrnun á verðgildi peninga. Það verður ekki umflúið, að það hlýtur að verða ein afleiðingin, hvað sem við viljum kalla það, hvort sem við viljum kalla það hliðstætt gengislækkun eða eitthvað annað. Því er að vísu ekki hægt að neita, að almennt fer fram í þjóðfélaginu sífelld rýrnun á verðgildi peninga. Það er almenn tilhneiging og að mörgu leyti eðlileg. En það, sem um er að gera, til þess að þjóðfélagið geti verið heilbrigt og sérstaklega að trú manna á gildi peninga geti haldizt, er, að þessi þróun gangi mjög hægt fyrir sig. Ef hún gengur fyrir sig svo ört sem hún gengur fyrir sig á Íslandi nú með gengislækkun 1950 og þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera með þessu frv., þá eigum við á hættu að eyðileggja trú manna á gildi peninganna. Og það er engum efa bundið, að sem efnahagsleg undirstaða í þjóðfélagi, sem á annað borð byggir á peningagildi, þá er slík trú eða slíkt traust ákaflega nauðsynlegt. Það er að vísu mjög þægilegt fyrir þá, sem völd hafa á hverjum tíma, að nota þessa aðferð til þess að afskrifa þannig afleiðingar t.d. af sínum mistökum, afleiðingar af gamalli og rangri vanrækslu á að afla framleiðslutækja og efla þannig þjóðarbúið. En það er ófært að grípa til slíkra ráðstafana, því að þær ráðstafanir eyðileggja meira, en hvað þær bæta. Ég veit, að í þessu sambandi muni verða sagt, eins og mikið hefur verið sagt af svokölluðum fjármálamönnum hér, að við eigum að hafa rétt gengi, og það var meira að segja um það gerður samningur einu sinni, Marshall-samningurinn svonefndi, að við skyldum skrá rétt gengi. Ég vil aðeins taka það fram í því sambandi, ef einhverjir skyldu vera, sem trúa á slíkt, að það eru fæstar þjóðir í veröldinni, ekki einu sinni Bandaríkin, sem skrá rétt gengi. Og gengi fyrir þjóð, sem hefur alla sína utanríkisverzlun undir eftirliti, eins og við Íslendingar höfum, — rétt gengi fyrir þá þjóð eða að skrá það eins og króna okkar mundi vera skráð, ef hún væri á frjálsum markaði erlendis, það er ekkert stefnumál, sem endilega ber að framfylgja. Íslenzk króna er og verður jafnt eftir þessar ráðstafanir eða eftir hvaða gengislækkanir sem gerðar væru innanlandsmynt og ekki mynt, sem gengur á erlendum mörkuðum eins og pund eða dollar, þannig að um það er ekki að ræða að reyna að koma íslenzkri krónu aftur í það horf, sem hún var fyrir einum 4–5 áratugum. Við verðum þess vegna fyrst og fremst að skrá okkar krónu yfirleitt í því verðgildi, sem við metum hana eftir okkar innanlandsþörfum fyrst og fremst, þ.e.a.s. með það fyrir augum að viðhalda trú og trausti manna á verðgildi peninga, að svo miklu leyti sem það er hægt, og jafnvel þó að verðgildi krónunnar kunni að rýrna gagnvart útlendum aðilum, þá að reyna að halda henni eins lengi og hægt er gagnvart eignunum innanlands og gagnvart íslenzku framleiðslunni, sem notuð er innanlands.

Það er eitt, sem er gefið sem afleiðing af þessu, þessari verðgildisrýrnun, að fasteignir koma til með að hækka í verði, og með því fáum við aftur það fyrirbrigði, sem hefur verið okkur erfitt í efnahagslífinu undanfarið, Það er flóttinn í fasteignir, flótti fólksins með sína peninga að kaupa einhverjar fasteignir. Samtímis gerist það, að ráðstafanir eins og t.d. stóreignaskatturinn, sem lagður var á í fyrra, er lækkaður með þessu og allt það, sem á að borga samkvæmt honum. Um leið eru allir þeir sjóðir, sem gerðar voru ráðstafanir til þess að mynda, atvinnuleysistryggingasjóðurinn, félagssjóðir verkalýðsfélaganna, sjóðir trygginganna og annað slíkt, allir þessir sjóðir eru lækkaðir stórum í verði. M.ö.o.: við höldum því áfram að taka af fólki peninga, sem hafa allmikið gildi, geyma þá í sjóði og eiga svo að borga út úr þessum sjóðum aftur seinna meir peninga, sem hafa miklu minna gildi en peningarnir höfðu, þegar fólkið borgaði það inn í þá. Þetta er þróun, sem er hættuleg í hverju þjóðfélagi.

Verkalýðssamtökin fögnuðu því, þegar sú stefna var tekin upp af núverandi hæstv. ríkisstj. að reyna að stöðva þessa verðgildisrýrnun peninganna, verðstöðvunarstefnan, eins og hún var kölluð. Og ég verð að segja, að það er dálitið eftirtektarvert fyrirbrigði, sem er rétt að menn íhugi, að það skuli einmitt hafa verið verkalýðssamtökin í þessu landi, sem fyrst og fremst vildu beita sér fyrir því og fögnuðu því, að slík verðstöðvunarstefna væri tekin upp, að reynt yrði að viðhalda verðgildi peninganna. Verkalýðurinn gerir það að vísu út frá sínum hagsmunum, en þó meira jafnvel út frá hagsmunum þjóðfélagsins almennt, vegna þess að verkalýðshreyfingin hér á Íslandi vill skapa traust á þessu þjóðfélagi og skapa festu í því, og verkalýðshreyfingin hefur sýnt það, að hún ber einmitt í þessum efnum þjóðarhagsmuni fyrir brjósti meir, en aðrar ríkari og voldugri stéttir. Verkalýðshreyfingin sýndi það með sinni afstöðu til nýsköpunarinnar á sínum tíma, að hún var að hugsa um, hvernig stoðir þjóðfélagsins skyldu bezt styrktar, hvernig framleiðslutækjunum skyldi fjölgað, hvernig undirstaða þjóðfélagsins yrði öflugust, vegna þess að verkalýðsstéttin veit, að þegar til lengdar lætur, þá eru hennar hagsmunir og þjóðfélagsins þeir sömu. Það er ekki hægt að fullnægja ákveðnu stigi lífskjara eða krafna til lífsins, nema framleiðslutækin og þeirra afköst geri það mögulegt fyrir þjóðfélagið að fullnægja þessu. Þess vegna lagði verkalýðshreyfingin það til á sínum tíma og hefur barizt fyrir því ætið síðan, að framleiðslutækjunum væri fjölgað sem mest og þá fyrst og fremst þeim, þar sem afkastageta hins vinnandi fólks er mest og markaðirnir öruggastir. Þannig hefur verkalýðshreyfingin unnið að því að reyna að byggja öruggar og sterkar undirstöður undir þetta þjóðfélag. Verkalýðshreyfingin hefur þannig sýnt ábyrgðartilfinningu í þessari afstöðu. En það hins vegar sleppir ekki þeim, sem völdin hafa, þegar verkalýðshreyfingin fær engin áhrif að hafa á þjóðfélagið, því að ef það eru einhverjir menn, sem stjórna þessu þjóðarbúi þannig, að þeir vanrækja þá skyldu að afla þessara framleiðslutækja og undirbyggja þannig undirstöðu þjóðfélagsins, þá lætur verkalýðurinn slíka vanrækslu ekki bitna á sér, þá verða þeir að gera svo vel og taka hana á sig. Og þá svarar verkalýðurinn með verkföllum og sínum kröfum til lífsins. Hann sleppir ekki þeim kröfum, þó að stjórnendur, máske á heilu 10 ára tímabili, kunni að vera svo misvitrir, að þeir efli ekki framleiðslutækin nægilega. Þetta verðum við að muna.

En hitt er ef til vill gott fyrir borgarastétt þessa lands, atvinnurekendastétt þessa lands að hugleiða, að það skuli vera verkalýðurinn og verkalýðshreyfingin fyrst og fremst, sem berst fyrir því að viðhalda verðgildi peninganna. Í hverju einasta borgaralegu landi hér í kringum okkur er það svo, að þegar rætt er um gengislækkun eða einhverjar hliðstæðar ráðstafanir, þá bregzt varla nokkur aðili reiðari við, en borgarastétt viðkomandi lands og hennar bankar. Borgarastétt t.d. Englands skoðar það alveg sérstaklega sem sitt verkefni að viðhalda trúnni á sterlingspund, og bankastjóri Englandsbanka er skjótur að gefa yfirlýsingar, ef menn fara að draga í efa, hvort sterlingspundið eigi að halda sínu verðgildi. Hér aftur á móti gerist það undarlega fyrirbrigði hvað eftir annað, að sjálf borgarastéttin og meira að segja sjálfir fulltrúar aðalbankans prédika, að það þurfi að rýra verðgildi krónunnar, prédika þetta látlaust og grafa þannig undan trú manna á peningum og skapa þannig slíkan áróður, að meira að segja nú að lokum hafa þeir, sem stóðu þarna lengst á móti, eins og Alþb. hefur gert, þá hafa þeir neyðzt til að láta undan í þessum efnum. Það er dæmið um þjóðfélagsspillinguna á Íslandi, að borgarastéttin skuli sjálf vinna að því að rýra verðgildi íslenzkra peninga, og dæmir hins vegar um, hvernig verkalýðshreyfingin og verkalýðurinn er sá aðilinn, sem reynir að skapa heilbrigði og festu í þetta þjóðfélag með sinni baráttu fyrir endurnýjun og nýsköpun atvinnutækja og fyrir því að skapa örugga undirstöðu þjóðlífsins og framleiðslunnar. Og það er slæmt, að það skuli ekki hafa verið tekið meira tillit til þessarar viðleitni verkalýðshreyfingarinnar, en gert hefur verið. Þess vegna er það í minni rökstuddu dagskrá, sem ég lýsti í upphafi þessa máls, önnur höfuðtill. mín, að haldið sé við gömlu verðstöðvunarstefnuna og ekki farið inn á þá braut, sem hér er lagt til.

Það er í samræmi við þetta, að verkalýðshreyfingin og fjölmörg félög hennar hafa þegar látið í ljós efasemdir og andúð gagnvart þessu frv., og það liggja hér þegar fyrir Alþ. slík mótmæli, bæði frá Félagi skipasmiða, frá Hinu íslenzka prentarafélagi og fulltrúaráðsstjórn verkalýðsfélaganna í Vestmannaeyjum, frá Félagi íslenzkra rafvirkja, frá stjórn Trésmiðafélags Íslands, og það er engum efa bundið, að verkalýðurinn lítur með ugg á þá þróun, sem verður afleiðing af samþykkt þessa frv. Það er jafnframt, fyrst eftir er önnur umr., rétt að minna á það, að einstaka greinar í þessu frv. aðrar, eins og þær, sem miða að því að rýra bæði námsstyrkina og sjúkrastyrkina til utanfara með þeim gjöldum, sem þar eru á lögð, og eins það, sem miðar að því að rýra slysadagpeningana, sem máske fæst nú leiðrétt fyrir 3. umr., það eru allt atriði, sem sætt hafa allmikilli gagnrýni.

En það lakasta við þetta allt saman er, að í þessu er ekki einu sinni nein bráðabirgðalausn. Þó að þetta verði samþykkt, þá er maður að aka þessu öllu á undan sér til haustsins og gera erfiðara að ráða við hlutina í haust. Það er það slæma við þessa bráðabirgðalausn. Þess vegna er það mitt álit, að heppilegasta afgreiðslan á þessu frv. nú væri sú að samþ. mína rökstuddu dagskrá, þar sem í fyrsta lagi er tekið fyrir það, sem er höfuðatriði í lausn allra efnahagsmála íslenzku þjóðarinnar, og það er að koma skipulagi og viti í hennar þjóðarbúskap í stað þess stjórnleysis og þeirrar ringulreiðar, sem hefur einkennt það sérstaklega nú undanfarin 10 ár, og í öðru lagi, að Alþ. lýsi fylgi sínu við að halda þeirri verðstöðvunarstefnu, sem því miður hefur verið ráðizt svo mjög á og grafið undan raunverulega af hálfu allra þriggja flokkanna hér og Alþb. staðið eitt vörð um til þess síðasta. Ég álit, að það væri bezt að taka þetta mál á þennan hátt og það mundi auðvelda okkur að finna þá betri lausn á þessum málum í haust, þegar við hefðum krufið þessi mál til mergjar og gripum ekki aðeins til slæmra bráðabirgðaúrræða til þess að fleyta þessu áfram til haustsins með sama fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár.