18.12.1958
Efri deild: 40. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

65. mál, virkjun Sogsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það gleður mig að heyra af munni frsm. fjhn., að nefndin hefur séð, að hún þarf að athuga frv. Það er framför, því að hún leggur það hér fyrir í byrjuninni athugasemdalaust að öllu leyti og ætlast til þess, að það sé gleypt við því eins og einhverjum lostætum bita, sem við ættum að renna niður.

Ég hygg þannig vera með þetta mál, að það þurfi ákaflega mikillar athugunar við, og vona nú, fyrst nefndin ætlar að athuga það fyrir 3. umr., að hún láti þá athugun fram fara. Þetta mun vera í annað sinn, sem Alþingi samþykkir lög um slík lán sem þessi til einstakra stofnana. Í fyrra skiptið mun það hafa verið til húsnæðismálastofnunarinnar til að afla fjár til útlána til húsabygginga, og að því stóð ríkið að nokkru leyti. Nú er það til að afla láns til að ljúka eða hafa nægilegt fé til að geta lokið virkjun Efra-Sogsins, og það er sjálfstætt fyrirtæki, Efra-Sogsvirkjunin, sem ríkið og bærinn eiga sinn helminginn í hvort og stjórnað er af sérstakri stjórn.

Nú er það út af fyrir sig spurning í mínum augum, hvort þetta fordæmi, sem hér er farið inn á og var reyndar farið inn á áður við húsnæðislögin, er rétt, hvort það er rétt að veita einstaka stofnunum, þó að þær séu að hálfu leyti ríkiseign, heimild til þess að útvega sér lán á þennan hátt. En ég held nú, þó að það sé vafasamt, hvort það sé rétt almennt séð, að þetta skapi ekki fordæmi beint, af því að hér stendur sérstaklega á. Að vísu skal ég viðurkenna, að það má alveg eins hugsa sér að semja slík lög fyrir Akureyri til þess að geta lokið virkjun Laxárfossanna. Það má líka hugsa sér að setja sams konar lög fyrir Reykjavík til þess að afla fjár í stóra og góða höfn hér í höfuðstaðnum. Og víða og víða um landið eru sumpart hafnar framkvæmdir og á öðrum stöðum aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir, sem menn mundu verða hrifnir af að fá heimild til að útvega fé til með svona löguðum lánum. En sem sagt, þó að mér þyki þetta nú vera til athugunar, þá tel ég, að vegna þarfar á að klára Sogsvirkjunina, bæði vegna allra þeirra, sem rafmagn fá frá henni, en sérstaklega vegna áburðarverksmiðjunnar og sementsverksmiðjunnar, sem fá rafmagn frá henni, þá sé þetta svo sérstætt, að það sé rétt að reyna að stuðla að því, að þessi stofnun fái svona lán, enda þótt það sé ekki gert almennt.

Mér þykir það galli á gjöf Njarðar strax í 1. mgr. frv., að það skuli ekkert vera um það, til hve langs tíma lánið er, hve mikið af bréfum á að dragast inn á hverju ári né með hvaða grunnvöxtum bréfin eigi að vera. Ég minntist á þetta við borgarstjórann í Reykjavík, 6. þm. Reykv., um daginn, og hann sagði, að það væri ekki venja í svona lánsheimildum að setja slíkt. Ja, ég veit ekki, hvað er venja, því að þetta er í annað skipti, sem svona er gert. Það stendur heldur ekkert um, hver á að ráða því, hvort það er stjórn Sogsvirkjunarinnar eða ríkisstj. eða bæjarstjórnin eða sá, sem tekur að sér að reyna að útvega lánið. Það stendur ekki einn stafur um það. Það kann að vera, að þetta. komi ekki að sök. En ég hefði talið eðlilegra, að eitthvað stæði um þetta í sjálfum l., úr því að löggjafinn gengur inn á þá braut að veita einstökum aðila heimild til að útvega sér svona lán, — þá væri búinn til um það einhver svolítill rammi, sem hann yrði að fara eftir, en það væri ekki alveg út í loftið, eða a. m. k. ákvæði um, hver ætti að búa þann ramma til. Það stendur ekki heldur í frv.

Svo er ákveðið í 2. málsgr., að ákveða má, að skilmálar bréfanna séu þannig, að upphæð endurgreiðslu og vaxta eða annars hvors breytist í hlutfalli við breytingar rafmagnsverðs. Þá má annaðhvort tryggja verðgildi bréfanna, þegar þau eru dregin út, með tilliti til rafmagnsverðs, ellegar vaxtanna af þeim. Hví ekki að hafa ákveðið, hvort heldur á að vera? Og hver á að ákveða, hvort heldur á að vera? Mér virðist það vöntun í frv., að það er ekkert um það talað, og sé sjálfsagt að setja það inn. Annaðhvort eiga bréfin að hækka og lækka eftir því, sem rafmagnsverðið í Reykjavík hækkar eða lækkar, eða vextirnir af bréfunum að hækka eða lækka. Ég vil láta taka skýrt fram, hvort heldur er. Og svo á að miða þetta við rafmagnsverð í Reykjavík.

Nú er rafmagnsverð í Reykjavík reiknað eftir mörgum töxtum. Það er selt í gegnum mæli í húsunum, það er selt í gegnum hemil í húsunum, það er að nokkru leyti selt eftir herbergjatölu í húsunum, það er selt sem iðnaðarrafmagn, það er selt sem næturrafmagn o.s.frv. Eftir hvaða töxtum á að fara? Mér finnst vera alveg sjálfsagt að taka það fram, ef maður vill fylgja rafmagnsverðinu í Reykjavík, sem er mjög hæpið. Þetta lán er tekið til að fullgera Sogsvirkjunina, og hún er sjálfstæð stofnun. Hún selur rafmagnið við stöðvarvegg á því verði, sem er áætlað að það muni kosta á hverju ári, og má leggja á það 5%, sem hefur verið og er of lítið. Hún þyrfti að fá að leggja á það a.m.k. 10%, í staðinn fyrir 5%, eftir því sem mér skilst.

Það væri eðlilegast, ef á að miða við gangverð á rafmagni, að miða það við verðið á rafmagninu frá Sogsvirkjuninni, við stöðvarvegg í Soginu, það, sem sjálf stöðin, sem er að fá lánið, framleiðir, en ekki láta það vera undir geðþótta bæjarstjórnar Reykjavíkur, hvernig bréfin breytast að verðgildi eða vextirnir upp eða niður, eftir því sem bæjarstjórn Reykjavíkur ákveður rafmagnsverðið, þó með leyfi þess ráðh., sem þar hefur um það að segja.

Ef á að miða það við rafmagnsverðið, finnst mér miklu eðlilegra, að það sé miðað við verðið frá sjálfri Sogsvirkjuninni við stöðvarvegg, en ekki við verðið á rafmagninu í Reykjavík. En eigi að miða við verðið á rafmagni í Reykjavík, þá verður að tiltaka, við hvaða taxta. Það er tekið fram, að breyt. á verðgildi bréfa eigi að vera þannig, að þau breytist að verðgildi í hlutfalli við rafmagnsverð frá þeim degi, að bréfin eru gefin út, og til gjalddaga. Við það á að miða. Nú er það svo, að bréfin verða sjálfsagt dregin út einu sinni á ári, geri ég ráð fyrir, ég veit ekkert hvenær, við skulum segja seint á árinu. Ef bæjarstjórn Reykjavíkur fyndi nú upp á því að lækka rafmagnsverðið 2–3 dögum áður, en á að draga bréfin út og þar með öll bréfin og spara Sogsvirkjuninni fé, á þá að miða við það, þó að það hafi verið hærra rafmagnsverð allt árið til þess tíma? Það á að miða við rafmagnsverðið, sem er þann dag, sem bréfin eru dregin út. Það er náttúrlega eins og hver önnur hringavitleysa. Það verður að miða við meðalrafmagnsverð á árinu, ef á að miða við rafmagnsverð, en ekki við þann dag, sem bréfin eru dregin út. Þá er hægt að lækka rafmagnið bara í eina viku, á meðan er verið að draga bréfin út, eða hækka það, til að hafa áhrif á verð bréfanna, upp eða niður. Þetta þarf þess vegna líka að athuga og breyta.

Ég held, að ef bréfin fást ekki verðtryggð gegnum almenna vísitölu á framfærslukostnaði, en menn vilja endilega halda sig við rafmagn, þá sé alveg sjálfsagt að miða það við rafmagnsverðið, eins og það er frá Soginu við stöðvarvegg. Þaðan fer það jafnt út á allar línurnar. Það er stöðin ein, stjórnin, sem hefur áhrif á það og ræður því að mestu, hvert verðið er, og það fer eftir tilkostnaði við framleiðsluna.

Ég held, að það verði þess vegna, ef á að miða verðgildi bréfanna, — hvort sem um bréfin sjálf eða vextina er að ræða, — ef á að miða það við verð á rafmagni, á það að vera á rafmagninu við stöðvarvegg við Sogið, en ekki gefa neinum óviðkomandi aðila eins og bæjarstjórn Reykjavíkur aðstöðu til þess að geta látið bréfin hoppa upp og niður, eftir því sem henni sýnist, með því að breyta verðinu á rafmagninu í bænum. Vilji menn hins vegar endilega halda sig við rafmagnsverð í Reykjavík, þá þarf að ákveða, hvaða taxta á að miða við, ef miða á við ákveðinn taxta, og ef á að taka meðaltal af nokkrum töxtum, þá af hvaða töxtum, en ekki hafa það allt óákveðið og eftir geðþótta þeirra, sem eiga um málið að fjalla.

Ég hef skrifað undir brtt. með 8. landsk. og lagt til í henni til bráðabirgða, að 2. mgr. 1. gr. falli niður. Það er ekki mín hugmynd með því, að ekki eigi þar að koma annað inn í staðinn. Og í sjálfu sér, — ég er ekki fyrsti flytjandi að till., en úr því að það er nú orðið vitað, að hv. fjhn. er búin að sjá, að þetta frv. þarf frekari athugunar og breyt. við, þá hefði mér fundizt eðlilegast, að við flm. — og ég fyrir mitt leyti er til með það — tækjum okkar breyt. aftur, þangað til við sæjum, hvað kæmi út úr þessari athugun, þegar nefndin fer að hugsa um málið. En það er alveg sýnilegt, að hún hefur ekkert um það hugsað enn. Hún hefur tekið við því hráu og borið það á borð hrátt fyrir deildarmenn, og það er ófyrirgefanlegt af nefndinni.