25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Allt tal hv. síðasta ræðumanns, 1. þm. S-M., um sýsluskiptinguna, um að verið sé að brjóta hana niður, er þessu máli, sem við erum hér að ræða, óviðkomandi. Það eru engin ákvæði í frv. því, sem hér liggur fyrir, um það að brjóta niður sýsluskiptinguna í landinu. Það eina, sem tengir þetta mál við sýsluskiptinguna, er það, að sýsluskiptingin eigi ekki áfram að vera grundvöllurinn að kjördæmaskipun í landinu, eins og hún var gerð á miðri 19. öld. En við viljum með þeim till., sem hér eru fram bornar, leggja til grundvallar kjördæmaskipuninni miklu líkara fyrirkomulag og skipan mála eins og hér var á þjóðveldistímanum með stærri kjördæmum, eins og nú er lagt til. Sýslurnar halda áfram sínu hlutverki að öllu öðru leyti, en þessu, að vera grundvöllur undir kjördæmaskipun, sem komin er til, eins og margsinnis hefur verið tekið fram, ekki úr okkar forna rétti, heldur frá erlendum konungum, meðan þeirra veldi var hér á landi.

Ég undrast að heyra það af munni hv. 1. þm. S-M. hér í lok umræðnanna, að það sé nú fyrst að koma fram og þá hjá hv. 1. þm. Reykv., að sjálfstæðismenn hafi verið viðmælanlegir og viljað ræða um annaðhvort einmenningskjördæmi eða hlutfallskosningar í stærri kjördæmum, en þó þannig, að sama kosningafyrirkomulag væri um gervallt landið. >;g hef ekki hér fyrir mér landsfundarsamþykkt Sjálfstfl., en það vill svo til, að hv. þm. A-Sk. hafði hana fyrir sér, landsfundarsamþykkt frá 1953, að ég hygg, og las upp úr henni fyrir þingheimi ekki alls fyrir löngu, þar sem einmitt er vikið að þessu tvennu: annars vegar einmenningskjördæmum eða hins vegar hlutfallskosningum í stærri kjördæmum. Og þetta er það sama, sem fram kom sem umræðugrundvöllur frá fulltrúum Sjálfstfl. í stjórnarskrárnefndinni einmitt um sama leyti, 1952 eða 1953. Það er mjög áberandi sársauki hjá hv. 1. þm. S-M., eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, sársauki þess manns, sem að þessu leyti virðist vera að gera sér grein fyrir því, að hann hafi misst af strætisvagninum, og hann hefur kannske fengið einhverjar ábendingar um það frá sínum flokksmönnum, að þeim hefði nær verið, framsóknarmönnum, að láta sér skiljast, að það væri ekki hægt til eilífðar að standa á óréttlætinu og ranglætinu og betur væri að reyna að beygja af, áður en um seinan væri.

Það má segja, að í þessu máli er engin ein lausn sú aleinasta, fremur en í mörgum öðrum. Tilraun hefur verið gerð til að koma á einmenningskjördæmum hér á landi, — ég hef ekki tekið eftir því, hvort það hefur spunnizt inn í þessar umr., — en þegar Hannes Hafstein flutti sínar till. 1905 um stór kjördæmi og hlutfallskosningar, sem síðan voru aftur til meðferðar á þinginu 1907, þá kom fram brtt. á þinginu um að taka upp einmenningskjördæmi. Sú till. féll með miklum meiri hluta atkvæða í þinginu. Hins vegar féll till. stjórnarinnar um hlutfallskosningar í stærri kjördæmum með eins atkvæðis mun aðeins, og sátu þó tveir þingmenn hjá þá, sem báðir höfðu efnislega lýst sig samþykka þessu. Svo langan tíma hefur tekið að fá breytingar á kjördæmaskipuninni. Og það er kannske komið í annað horf nú, en hv. framsóknarmenn vildu hafa óskað, en þá einkum og sér í lagi vegna þess, að þeir hafa ekki, meðan tími var til, verið viðmælanlegir um þær sanngjörnu breytingar, sem eðlilegt var að ræða um og reyna að koma á í þessum málum.

Að lokum vil ég aðeins víkja að því, að þar sem hv. 1. þm. S-M. og þm. V-Húnv. tóku nokkuð út úr ræðu hv. 1. þm. Reykv. í gær um það, að hann teldi það til gildis eða að það mundi bjarga hinum afskekktari héruðum, eins og þeir höfðu eftir honum, að víssir þm., sem nú eru á þingi, gætu og væri mjög líklegt, að þeir mundu geta orðið góðir fyrirsvarsmenn þelrra afskekktu héraða, sem til voru nefnd, þá er auðvitað þetta ekki annað en að draga, út úr öðru því, sem um þetta hefur verið sagt. Meginkjarni málsins er sá, að þegar skipunin um stærri kjördæmi er komin á, verða í hverju kjördæmi fimm eða sex þingmenn, sem eru þingmenn alls kjördæmisins í heild og alveg á sama hátt þess, sem nú er kallað afskekktari hlutar þessara einstöku kjördæma. Og þó að hv. 1. þm. Reykv. bendi á einstök atriði í þessu sambandi til styrktar því, að slík afskekktari kjördæmi eða hlutar þurfi ekki að kvíða fyrirsvarsleysi, þá er ekki þar með sagt, að frá meginatriðinu í röksemdafærslunni sé gengið, sem er sú, að eftir að breyting eins og þessi væri á komin, hafa þessir hlutar hinna stærri kjördæma alveg nákvæmlega sömu aðstöðu og sama rétt til þess að snúa sér að viðkomandi þingmönnum kjördæmisins, og eins er það víst, að þeir þingmenn, einstakir frambjóðendur og flokkar, sem fram bjóða í þessum kjördæmum, hafa að sjálfsögðu ekki minni hagsmuni af því hver um sig að gæta þess að halda uppi fyrirsvari fyrir þessa einstöku og afskekktari hluta og keppa þar um atkvæðin, en annars staðar í kjördæmunum. Fyrir mitt leyti sé ég þess vegna ekki, að kvíðbogi manna í sambandi við þessa einstöku hluta hinna stærri kjördæma, að þeir þurfi að lenda út undan í fyrirsvari, fái með nokkru móti staðizt.