27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þegar hlustað er á getsakir, hártoganir og illyrði hv. framsóknarmanna í þeim umr., sem um þetta mál hafa farið fram hér í dag og raunar einnig fyrir helgina, þá skyldi enginn ætla, að hér væri við að etja eitt mesta vandamál íslenzku þjóðarinnar nú, — vandamál. sem með engu móti verður umflúið að leysa, — vandamál, sem kemur af því, að á Íslandi hafa á síðustu áratugum orðið meiri fólksflutningar á milli byggða, heldur en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar. Jafnvel fyrir 17 árum, þegar kjördæmaskipun síðast var breytt, var fólksfjöldi Íslands miklu minni, en hann er nú og byggðinni um landið allt öðruvísi háttað. Síðan er ekki aðeins miklu færra fólk í sveitum landsins, en þá var hlutfallslega, miðað við aðra landsmenn, heldur einnig miklu færra að tölu. Breytingarnar eru orðnar svo miklar, að hér á suðvesturkjálkanum, í Reykjavik og hinni fyrri Gullbringu- og Kjósarsýslu ásamt þeim kaupstöðum, sem nú eru í henni, er saman kominn meira en helmingur allra landsmanna.

Það er vafalaust, að mörgum okkar geðjast ekki að öllu sú þróun, sem orðin er. Við vildum áreiðanlega flestir, að þessi mál hefðu skipazt á annan veg, þannig að byggð hefði orðið með meiri jöfnuði um allt land, því að það er áreiðanlega leitun á þeim Íslendingi, sem ekki viðurkenni, að ef sveitir Íslands og útskagar hætta að vera byggð, þá er Ísland ekki aðeins orðið fátækara land, heldur orðið allt annað Ísland en það, sem við þekkjum og óskum að sé. Menn greinir þess vegna engan veginn á í þessu máli um það, hvort halda eigi við byggð um allt Ísland og að landsbúum, hvar á landinu sem þeir eiga heima, megi vegna eins vel og frekast er kostur.

En sumir segja: Þungamiðja valdsins má með engu móti flytjast úr sveitunum. — En þungamiðja valdsins, þess raunverulega valds í hverju þjóðfélagi, hlýtur ætíð að vera þar, sem fólkið sjálft býr. Við elskum landið og einstaka staði, en fyrst og fremst er það fólkið, sem hlýtur að ráða því, sem gerist á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Ef reynt er að standa á móti eðlilegri þróun í þessum efnum, hlýtur það að enda með ósköpum. Úr því að sú mikla breyting er á orðin, sem ég áður rakti og öllum okkur er kunn, þá verður, hvort sem okkur þykir ljúft eða leitt, að taka afleiðingunum af því. Jafnvel þó að við öll hér á Alþingi sameinuðumst um það, að ekki mætti breyta stafkrók í kjördæmaskipun frá því, sem nú er, þá mundi það ekki stoða.

Í fyrsta lagi mundu kjósendur margra okkar skipta um sína fulltrúa og segja, að við hefðum brugðizt því verki, sem okkur var trúað fyrir. En þar fyrir utan mundu myndast þær hreyfingar utan sjálfs Alþingis, sem tækju völdin af löggjafarsamkundunni og réðu málefnunum til lykta, án þess að lög og réttur væru þar viðhöfð. Það hefur verið sagt, að ekki væri hægt að stjórna þessu landi án verkalýðsins. Það var ekki alls fyrir löngu, að mynduð var stjórn fyrst og fremst byggð á þessari hugsun. Og við höfum heyrt hv. 1. þm. S-M. (EystJ), þáverandi hæstv. fjmrh., lýsa því yfir hér í sölum Alþingis, að ef um fleiri leiðir væri að velja varðandi lausn tiltekinna vandamála, þá væri ætíð bezta lausnin sú að fara eftir því, sem samtök verkalýðsins segðu til um. Það er rétt, að án verkalýðsins er ekki hægt að stjórna, eins og ekki er hægt að stjórna án bænda og annarra atvinnustétta þessa þjóðfélags. En fyrst og fremst er ómögulegt að stjórna án meiri hluta íslenzku þjóðarinnar. Það hefur verið reynt að stjórna á móti Reykjavík.

Hv. 1. þm. S-M. sagði í dag, að Alþfl. hefði farið úr fyrrv. hæstv. ríkisstj. vegna fylgistaps, sem fram hefði komið í bæjarstjórnarkosningunum síðustu. Ég skal ekki dæma um það, hvort þetta er rétt eða ekki. En ég bendi aðeins á það, að þarna tekur sjálfur málsvari mótþróans í þessu efni fram eina höfuðröksemdina fyrir nauðsyn þeirrar breytingar, sem hér þarf að gera, að án samþykkis fólksins sjálfs, hvort sem það á heima í Reykjavík, á Reykjanesi eða annars staðar, verður þessu landi ekki stjórnað. Í þessu felst engin hótun eða neitt ofurlæti af mér sem Reykvíking. Ég bendi einungis á þær staðreyndir, sem hvarvetna eru undirstaða stjórnskipunar og löglegs stjórnarfars, að án fjöldans verður einu þjóðfélagi ekki með neinu stjórnað til lengdar.

Við skulum játa, að hér í Reykjavík og næsta nágrenni sé byggðin, miðað við fjölda okkar þjóðfélags, orðin of mikil, og þá komum við einmitt að þeim vanda, sem við verðum að reyna að leysa. Hvernig er hægt hvort tveggja í senn að láta fjöldann njóta sín, hafa réttmæt áhrif á skipan hinna æðstu mála og tryggja hag hinna fornu byggða Íslands? Ég hygg, að með þessu frv., sem hér er lagt fram, sé sú leið fundin betur og tryggari en nokkur önnur leið, sem menn hingað til hafa komið auga á í þessu máli. Ef við þráumst á móti, ef við gerum okkur ekki grein fyrir vandamálinu, sem við er að etja, vex vandinn okkur yfir höfuð, þá vex upp sú úlfúð og þau illindi á milli fjöldans annars vegar og fólksins í strjálbýlinu hins vegar, sem með engu móti verður við ráðið.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) gerði glögga grein fyrir þessu í sinni ágætu ræðu við 1. umr. þessa máls. Hann sýndi þá ýtarlega og með óhnekkjanlegum rökum fram á, að svo mikilsverð sem þessi löggjöf er fyrir allar stéttir Íslands, þá er hún fyrir engan mikilvægari en einmitt íslenzku bændastéttina. Það sagði einhver hér áðan, að bændastéttin þyrfti ekki og vildi ekki vera biðjandi. Það er enginn, sem ætlast til þess, að íslenzka bændastéttin sé biðjandi. Hún á sinn rétt, og hún er vissulega ómissandi fyrir þetta þjóðfélag umfram allar aðrar þess stéttir. En íslenzka bændastéttin verður að gera sér grein fyrir og hefur áreiðanlega í miklu ríkari mæli gert sér grein fyrir en hv. framsóknarmenn vilja vera láta, að hún eins og aðrir kemst ekki hjá því að taka afleiðingunum af breyttum þjóðháttum, að nú er Ísland orðið allt annað en þegar danski einvaldskonungurinn setti þá kjördæmaskipun, sem hér er verið að verja eins og heilagan arf, og þegar bændastéttin var 97 eða 98% af öllum landsmönnum, en nú er hún 20%.

Það stóð að vísu í Tímanum einhvern tíma í vetur, að það væri hægt að verjast þessu frv. með því að sýna hnefann. Það getur verið, að sá, sem er nógu öflugur, geti sýnt hnefann. Það hefur oft verið talað um, að við sjálfstæðismenn værum einræðissinnar og vildum hafa einhverja aðra stjórnarhætti en það, sem hv. framsóknarmenn og sumir þeirra félagsbræður kalla lýðræði. Ef eitthvað væri til í þeim ásökunum, hefði einhvern tíma á því borið öll þau ár, sem við sjálfstæðismenn höfum haft meiri hluta hér í Reykjavík, að við hefðum beitt ofheldi, beitt valdi hnefans. Við höfum aldrei viljað grípa til þvílíkra ráða. Við höfum ætíð haldið í heiðri lögum og rétti, haldið trúan vörð um hin gömlu norrænu sannindi, að með lögum skal land byggja.

En eins og ég segi, á staðreyndirnar verður að líta. Það tjáir ekki að koma hingað, jafnvel þó að af ágætum mönnum sé, eins og hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) í dag, og segja, að ef Reykvíkingar fái aukinn rétt, þá sé það sama og gefa skrílnum vald. Ég hygg, að sá ágæti þm., sem þetta mælti, hefði betur látið þau orð ómælt. Reykvíkingar þurfa ekki að blygðast sín fyrir sitt tillag til íslenzkrar menningar, og þeir eru ekki lakari Íslendingar en aðrir. Og vissulega er sá andi, sem í þessum orðum lýsti sér, mjög ólíkur því, sem annar maður, alinn upp í Þingeyjarsýslu, mælti fyrir rúmum 60 árum, Einar Benediktsson, sem einnig hafði flutt úr Þingeyjarsýslu til Reykjavíkur, sagði, með leyfi hæstv, forseta:

„En þó við Flóann byggðist borg

með breiða vegi og fögur torg

og gnægð af öllum auð,

ef þjóðin gleymdi sjálfri sér

og svip þeim týndi, er hún ber,

er betra að vanta brauð.

Þeir segja, að hér sé hættan mest

og hérna þróist frónskan verst

og útlend tízka temjist flest

og tungan sé í nauð.“

Það var eins og hann hefði heyrt ummæli hv. 1. þm. Skagf. í dag. En Einar Benediktsson svaraði fyrir meira en 60 árum:

„Nei, þegar öldin aldna flýr

og andi af hafi kemur nýr

að vekja land og lýð,

er víkka tún og breikka ból

og betri daga morgunsól

skín hátt um strönd og hlíð,

skal sjást, að bylgjan brotnar hér.

Við byggjum nýja sveit og ver,

en munum vel, hvað íslenzkt er,

um alla vora tíð.“

Við Reykvíkingar erum stoltir af því, að þannig var spámannlega mælt um okkar borg, þegar hún enn var fámenn, og við teljum það bæði heiður okkar og skyldu að starfa í þessum anda, að skilja, að það er Íslandi nauðsyn að eiga glæsilega og mannmarga höfuðborg. En höfuðborgin verður einnig að skilja nauðsyn landsbyggðarinnar, að skilja skyldur sínar, þá skyldu, sem á henni hvílir umfram alla aðra við íslenzka menningu. Og það er einmitt í þeim anda, sem við Reykvíkingar höfum fallizt á og styðjum af alhug það frv., sem hér liggur frammi, þó að það ætli okkur mun minni staðarlegan rétt til þingmannafjölda heldur en öllum öðrum landshlutum, meira að segja svo miklu minni, að sums staðar, eins og á Austurlandi, má segja, að atkvæði sé metið eitt á móti hverjum 3 í Reykjavík.

Það má segja, að þetta er ekki tölulegt réttlæti. Við játum, að það er ekki tölulegt réttlæti, en við játum einnig, að það er fleira, en tölurnar einar, sem hér koma til greina. Það verður að líta á landshætti, það verður að líta á íslenzka sögu, á íslenzka menningu, eins og hún er, og þar verður hver að leggja fram nokkuð, til þess að vel fari. Og í þessum efnum er ekki farið fram á við neinn, að hann láti af neinum þeim rétti, sem hann í raun og veru á og hefur haft. Staðreynd er, að við Reykvíkingar og aðrir, sem á þéttbýlustu stöðunum búa, við heimtum ekki fullan rétt á við aðra landsmenn í þessu.

Hv. 1. þm. Skagf. og aðrir fleiri hafa talað látlaust svo sem eftir þessu frv. ætti allt vald að vera flutt hingað til Reykjavíkur og á hinn ömurlega Reykjanesskaga, sem ég hygg að hv. þm. Dal. (ÁB) hafi mjög gert sér tíðrætt um. Hvernig lítur þetta út í raun og veru? Eftir því frv., sem hér liggur fyrir, á Reykjavík og Reykjanesskaginn samanlagt að fá aðeins 17 þm. Önnur héruð landsins eiga að fá 31. Og í þessu meginatriði er enginn munur á milli frv. Hv. framsóknarmenn hafa lagt fram frv., sem veitir Reykjavík og Reykjanesskaganum nákvæmlega jafnmarga þm. og lagt er til í frv. okkar. Hins vegar telja Reykvíkingar og aðrir, sem í þéttbýlinu búa, að það sé ærið nóg að njóta ekki þessa staðarlega réttlætis, tölulegs, þó að það komi ekki ofan á, að tvennar gersamlega ólíkar aðferðir til kosninga séu viðhafðar, tvenns konar aðferðir, sem ekki er hægt að rökstyðja með neinu móti öðru en því, hvers hagsmunir eins tiltekins flokks krefjast, en eiga ekkert skylt við hagsmuni strjálbýlisins hvað þá þjóðarheildarinnar.

Hv. þm. Framsfl. hafa að vonum gefizt upp við að rökstyðja, af hverju þeir vilja ekki láta sömu kosningareglu gilda í Reykjavík og annars staðar. Þeir segja: Reykjavík er ein fjárhagsleg heild. — En hvernig ætluðu þeir að fara sjálfir í till., sem þeir samþykktu á framsóknarþinginu um miðjan marz í vetur um það að skipta öllu landinu utan Reykjavíkur upp í einmenningskjördæmi? Hvernig var hægt að skipta núverandi tvímenningskjördæmum, t.d. Eyjafjarðarsýslu og Árnessýslu, upp, án þess að þær sýslur væru skornar í sundur, eða var ætlunin sú ein að taka annan þm. af þessum sýslum? Þessu hafa hv. þm. ekki með neinu móti fengizt til að svara.

Það er vegna þess, að þessar till. eins og annað, sem þeir hafa borið fram, er ekki borið fram sem lausn á vanda, heldur til málamynda til þess að skjóta sér undan því að segja hvað fyrir þeim í raun og veru vakir, því að það hefur enn ekki fengizt þrátt fyrir öll þau ár, sem þetta mál hefur verið til meðferðar. Við höfum heyrt það nógsamlega í þessum umr., að hv. framsóknarmenn hafi verið á móti tilrauninni, sem gerð var til þess að leysa kjördæmamálið 1931. Víð höfum heyrt nógsamlega í þessum umr., að þeir hafi verið á móti samkomulagslausninni, sem þeir kalla, 1933. Um ekkert hefur hv. þm. V-Húnv. farið háðulegar orðum, en einmitt uppbótarþingmennina, sem voru lögskipaðir 1933. Við höfum heyrt í þessum umr., að hv. framsóknarmenn voru á móti lausninni, sem var gerð 1942.

En með hverju hafa þeir verið í málinu? Jú, nú vill svo til, að þeir eru með lausninni frá 1933, sem þeir eru búnir að berjast á móti í 25 ár, þó að þeir greiddu henni raunar atkvæði á sínum tíma. Og nú eru þeir með lausninni 1942, sem þeir töldu ganga landráðum næst að þá var samþykkt.

Þeir tala um, að aðrir skipti um skoðun og þetta sé byrjun á einhverju, sem síðar skal koma. Ég játa það hreinlega, að ég sé ekki í framtíðina, en ég er alveg viss um, að það verður ekki langt þangað til margir framsóknarmenn segja: Þessi lausn var þrátt fyrir allt ekki svo afleit, sem fundin var, og tryggði hag strjálbýlisins betur, en allt braskið, sem framsóknarmenn hafa verið með, að þvælast á móti og bera aldrei fram neina raunhæfa till. til lausnar einu mesta vandamáli íslenzku þjóðarinnar.

Það var vitnað í það, að ég hefði haldið því fram á sínum tíma, að ef Reykjavík væri skipt niður í ein 16–17 einmenningskjördæmi, mundu þeir fulltrúar, sem þar með kæmu, hafa betri aðstöðu og fólkið betri aðstöðu til að nálgast þá heldur, en samkvæmt núgildandi skipan. Ég játa fúslega, að ég sé marga kosti víð einmenningskjördæmi, en þeim eru líka margir ókostir samfara. En varðandi þetta tiltekna atriði gefur auðvitað auga leið, að helmingi fleiri þm. í Reykjavík hafa ólíkt betra færi á því að sinna málum sinna kjósenda, heldur en meðan þeir eru helmingi færri, að ef Reykjavík fengi þingmannatölu á borð við aðra landsmenn, mundi vitanlega verða miklu auðveldara fyrir fulltrúa þessa bæjarfélags að vera í nánu sambandi við alla sína kjósendur, en nú er. Ef ekki væri atkvæðið metið hér einungis á við einn þriðjung, miðað við það, sem er á Austfjörðum, þá mundu vitanlega verða hér fleiri þm., sem gætu jafnvel sinnt málefnum sinna umbjóðenda og hv. 1. þm. S-M. (EystJ) og aðrir væntanlegir þm. hins nýja Austurlandskjördæmis, sem hver um sig þarf ekki eftir þessa breytingu að hafa áhyggjur af á mann fleiri en innan við 1.150 kjósendur, auk þess sem margfaldlega hefur verið á það bent, að eftir því sem fleiri fulltrúar koma úr hverjum flokki í hvert kjördæmi, verður réttur kjósendanna aukinn, þá getur kjósandi ætíð snúið sér til þess fulltrúa, sem hann ber traust til, sem hann er tengdur miklu nánari böndum vegna flokkslegs samstarfs og sameiginlegra skoðana og sannfæringar heldur en nú er.

Ég hef getið um það áður, hvernig Framsfl. beitti sínu flokksvaldi hér á þingi 1934–37, þegar beinlínis var bundizt um það samtökum, að þau kjördæmi, sem höfðu gerzt svo djörf að kjósa sjálfstæðismenn á þing, voru alveg afskipt um allar framkvæmdir innan sinna endimarka. Það var sanngirnin og hugurinn til byggðanna þá, hjá þessum herrum.

Fram hjá því verður ekki komizt, að eftir frv. verður, þrátt fyrir það, þótt röskur meiri hluti landsmanna sé nú búsettur í Reykjavík og á Reykjanesi, yfirgnæfandi meiri hl. þm. úr öðrum kjördæmum, úr öðrum landshlutum, þannig að aðrir landshlutar verða á engan hátt afskiptir frá því, sem nú er, þannig að allt tal um það, að verið sé að ganga á þeirra rétt, er staðlausir stafir. Má nærri geta, hvort sé heillavænlegra fyrir landshlutana að eiga þess kost að hafa menn sem sína fulltrúa innan allra þingflokka, þannig að þar sé á þeirra mál hlustað, þeirra málefni fyrir brjósti borin, eða hvort það sé þeim heppilegt, að þm. séu sameinaðir í einum flokki, sem óhjákvæmilega, eins og Framsfl., hlýtur að verða í miklum minni hl., jafnvel á Alþingi, hversu mikið ranglæti, sem í verður haldið, vegna þess að jafnvel framsóknarmenn sjálfir dirfast ekki lengur að segja berum orðum, þó að það skíni út úr þeirra umsögnum, að þeir vilji á ný fá sama skipulagið sem gilti 1931, þegar 1/3 hluti landsfólksins fékk rífan meiri hl. þeirra, sem kosnir voru.

Framsfl. reyndi þá sjálfur, hvílík gæfa fylgir þvílíkum rangindum. Aldrei hefur neinn flokkur beðið annað eins afhroð og Framsfl. eftir þennan sinn rangfengna sigur. Sá sigur varð upphaf þess, að margir beztu menn Framsóknar hröktust úr flokknum, menn eins og Tryggvi Þórhallsson, Ásgeir Ásgeirsson og — þótt síðar væri — aðalhöfundur flokksins og stofnandi, Jónas Jónsson, vegna þess að einmitt í átökunum 1931 og þá á eftir komust til valda í Framsfl. sömu ævintýramennirnir, hv. núv. 1. þm. S-M. og hv. þm. Str., sem hröktu stofnanda flokksins, Jónas Jónsson, úr flokknum og hafa síðan hreiðrað þar um sig, ekki sem þjóðmálaflokk, heldur sem valdaklíku, sem nú stendur uppi einangruð og örvilnuð í íslenzkum stjórnmálum, eins og við höfum séð og heyrt þeirra harmagrát undanfarna daga og nú mikinn hluta dagsins í dag.

„Illur fengur illa forgengur“ hefur sannazt á skyndisigrum þessa flokks, og svo mun enn reynast, þó að sigur nú muni ekki verða eins og þessir menn vona. Til þess er þetta mál allt of ljóst og verður orðið almenningi um land allt allt of kunnugt, þegar til kosninga kemur.

En landsbyggðin hefur einnig þessa sérstöku tryggingu í frv., að jafnað er á milli flokkanna með uppbótarmönnum, sem verða a.m.k. að hér um bil helmingi utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, þannig að fyrir utan það að þessi byggðarlög eru í miklum meiri hl. varðandi sjálfa kjördæmakosnu þingmennina, þá er einnig vitað mál, að þeir fá sinn bróðurhlut af hinum landskjörnu þm., eins og verið hefur. Og þegar er verið að tala um það, að þetta frv. auki flokksvaldið frá því, sem verið hefur, verður að benda á, að einmitt ein breytingin í frv. er sú, að ætlazt er til, að svokallaður landslisti verði lagður niður, sé úr sögunni, sá þáttur, að flokksstjórn geti ráðið því að einum þriðja, hverjir hljóta uppbótarsæti. Það er allur yfirgangur flokksstjórnanna í þessu frv.

Hins vegar heyrðum við það áðan glögglega á hv. 2. þm. Rang. (SvbH), að hann sagði, að það væri ekki nema sjálfsagt, að flokksstjórnir réðu frambjóðendum, og fór um það fögrum orðum, að þannig ætti það og hlyti að vera. Það er í raun og veru ekki nema sjálfsagt, að þessi hv. þm. játi það, því að flokksstjórnin í Framsfl. hefur ekki aðelns skipað sínum kjósendum að kjósa hvern frambjóðanda úr sínum eigin flokki, sem hún hefur sent þeim, heldur hefur hún sent þeim menn úr öðrum flokkum, sem enn þá voru í öðrum flokkum, og látið þá kjósa þá og hælt sér af því, að allir kjósendurnir hafi hlýtt skipuninni. Það er von, að þessir menn tali um flokksræði og veldi flokksstjórna! Þeir hafa sýnt það í verki, að þannig er ástandið í þeirra eigin flokki. En það er bara allt öðruvísi í öðrum flokkum.

Hv. 2. þm. Rang. sagði hér áðan, að það hefði staðið í Morgunblaðinu, sem hann fór um fögrum orðum, að Einar Ingimundarson, frambjóðandi Sjálfstfl. á Siglufirði, hefði verið tilnefndur til framboðs af flokksfélögunum hér í Reykjavík. Hv. þm. fór um þetta mörgum orðum og sagði, að þetta væri hægt að skoða. Ég náði í það eintak Morgunblaðsins, sem segir frá framboði Einars Ingimundarsonar, og ef ég má lesa fyrstu málsgr., með leyfi hæstv. forseta, þá hljóðar hún þannig:

„Siglufirði, 22. apríl.

Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna s.l. laugardag og á fjölmennum sameiginlegum fundi sjálfstæðisfélaganna þriggja í gærkvöld var einróma samþykkt að beina þeirri áskorun til Einars Ingimundarsonar bæjarfógeta að vera í framboði fyrir Sjálfstfl. hér á Siglufirði við alþingiskosningarnar í sumar.“

Þetta stendur í blaðinu. Svo leyfir þessi hv. þm. sér hér að koma upp með umvöndun og miklu orðaskaki, segja okkur frá þessu og ýmsum öðrum atburðum. En hvað halda menn að sé að marka það, sem fjarlægara er og ekki er jafngott að staðreyna eins og þetta, þegar hann leyfir sér að segja jafnbersýnilega — ég segi fásinnu eins og það, sem hann leyfði sér hér rétt fyrir kvöldmat í kvöld að gera?

Eftir höfðinu dansa limirnir. Það má segja; að aumingja þm. vilji fara eftir því, sem foringi flokksins hér í deildinni, hv. 1. þm. S-M., hefur gert. Hann hefur byggt hér meginhluta sinna löngu ræðna upp á algerum ósannindum og staðleysum, sem er auðvelt að hnekkja, og enginn veit betur en hann sjálfur, að hann segir ósatt.

Hv. þm. talaði t.d. um það, að við sjálfstæðismenn hefðum ekki 1953 aldeilis verið á þeim buxunum að breyta þyrfti kjördæmaskipuninni, vegna þess að þá hefðum við sýnt fram á það, að samkvæmt núgildandi kjördæmaskipun þyrftum við ekki nema 200–300 atkvæði til þess að fá hreinan meiri hl. Þá hefðum við þess vegna ekki verið á því að breyta kjördæmaskipuninni. Ég held, að hann hafi talað um þetta einn hálftíma. En hv. þm. A-Sk. las hér upp á laugardaginn yfirlýsingu frá landsfundi Sjálfstfl. 1953, þar sem við lögðum höfuðáherzlu á nauðsyn kjördæmabreytingarinnar og tókum fram, að við teldum, að hvort tveggja gæti komið til álita, ef sama regla væri höfð um allt land, einmenningskjördæmi eða hlutfallskosningar í nokkrum stórum kjördæmum. Hv. þm. A-Sk., sem er a.m.k. sannsögull miðað við hv. 1. þm. S-M., las þetta upp og hefur ekki gert neina tilraun til þess að breiða yfir þá staðreynd, sem var raunar öllum vituð.

En það skyldi þó ekki hafa verið svo, að hv. 2. þm. Rang. hefði ekki sjálfur skrifað sina ræðu og þess vegna ætti hann ekki sök á ósannindunum, heldur hefði hún verið tekin úr skjóðunni, sem hv. 1. þm. S-M. ber með sér, — og menn sáu einmitt, að hann var að dreifa út skjölum til nokkurra manna, sem sumir eru búnir að tala hér í dag, og eiga hinir vafalaust eftir að koma.

Þá er þetta mikla tal um stjórnarskrárnefndina, sem brugðizt hafi störfum og hafi staðið sig illa og þó enginn verr en ég, sem mestur trúnaður hafi verið sýndur, vegna þess að ég hafi verið formaður.

Hver er sannleikurinn í því máli? Hann hefur svo oft verið rakinn, að ég nenni ekki að fara ýtarlega út í það. En í nóvember 1952 leggjum við fulltrúar sjálfstæðismanna þar fram ýtarlegar till. um breytingar á stjórnarskránni, m.a. um breytta kjördæmaskipun, og tókum þar fram, að við teldum hvort tveggja koma til álita, einmenningskjördæmi eða hlutfallskosningar í nokkrum stórum kjördæmum, að því áskildu, að sams konar regla gilti um allt land.

Þegar þessar till. lágu fyrir, varð öðrum framsóknarmanninum í n., prófessor Ólafi Jóhannessyni, svo mikið um, að hann sagði sig úr n. Ég hygg, að það hafi verið vegna þess, að prófessor Ólafur Jóhannesson hafi viljað fá að taka afstöðu til tillagnanna, en flokkurinn hafi bannað honum að taka afstöðu til málsins, og þessi mæti maður hafi ekki viljað una því að vera þannig kefldur í n. og hafi þess vegna sagt sig úr henni.

Annar nm., beinlínis tilnefndur af Framsfl., hv. núv. þm. S-Þ. (KK), bar fram till., sem fór alls ekki inn á efni málsins, heldur eingöngu meðferð, um það, að efnt skyldi til sérstaks stjórnlagaþings og kosið til þess eftir sömu reglum og til Alþingis, með þeirri breytingu einni, að stjórnmálaflokkarnir máttu ekki skipta sér af kosningunni. Hugsum okkur nú vitið í þeirri till., að elnmitt þeim samtökum borgaranna, sem eru mynduð til þess að hafa skipti af stjórnmálum, til þess að starfa samkvæmt stjórnarskránni, og þeim mönnum, sem mest þekkja til stjórnarskrárinnar, þeim átti einmitt að banna að koma nærri kosningunum!

Hv. þm. bar þetta að vísu fram. Það fékk engan stuðning. Fulltrúar annarra flokka fengust ekki heldur til að taka afstöðu til tillagna okkar. Allir nm. urðu þess vegna sammála um, að n. þýddi ekki að starfa áfram. Og það var staðfest af þáv. forsrh., hæstv. 1. þm. Skagf. (StgrSt), sem skipaði aldrei mann í stað prófessors Ólafs Jóhannessonar. Ef þeir ætluðust til, að n. héldi áfram að starfa, af hverju var þá ekki skipaður maður í stað prófessors Ólafs Jóhannessonar? Það var vegna þess, að eins og á stóð, vildi Framsfl. stöðva áframhaldandi tilraunir þessarar n. til að koma sér saman. Eins og á stóð, var það fullreynt, að hún gat ekki leyst sitt verkefni.

En ekki nóg með það. 1953, nokkrum mánuðum eftir þetta, gefur landsfundur sjálfstæðismanna út sína yfirlýsingu, rétt fyrir kosningar, um stefnu í stjórnarskrármálinu, m.a. kjördæmamálinu. Framsfl. fékkst ekki til þess að taka neina málefnalega afstöðu til þeirra till. og bar suðvitað enga ósk fram um það, að stjórnarskrárnefndin tæki til starfa á ný.

Ég minnist þess ósköp vel, að einn háttsettur framsóknarmaður sagði þá við mig: Þeir eiga eftir að sjá eftir því, að ekki var reynt að ná samkomulagi á þessum grundvelli. Þessi maður er enn mjög háttsettur í Framsfl. Ég veit ekki, hverjir þeir voru, sem þarna réðu, en það var alveg víst, að það voru þá menn til í Framsfl., sem sáu, á hvílíkri feigðargöngu flokkurinn var lentur, og hafa aðvarað í sinn hóp gegn þeirri einangrun, sem nú er á skollin, alveg eins og við vitum, að bæði á Framsfl.- þinginu og ekki síður í öðrum hópum framsóknarmanna hafa þær raddir verið mjög háværar, að flokkurinn væri lentur í fullkomnum ógöngum og mundi seint bíða þess bætur, hvernig á kjördæmamálinu hefði verið haldið. Þeir reyndu þó að komast úr þessari einangrun, sem víss hópur var að leiða flokkinn í, við stjórnarmyndunina 1956. Þá sömdu þáverandi stjórnarflokkar um að reyna að leysa málið sín á milli, þ.e.a.s. án Sjálfstfl. Hafi þurft frekar vitnanna við, að stjórnarskrárnefndin frá 1947 hafi verið úr sögunni, þurfti ekki annarra en stjórnarsáttmálans 1956.

En þá segir hv. 1. þm. S-M.: Já, en það skapaðist alveg nýtt viðhorf í vetur, þegar það kom í ljós, að allir flokkar þingsins höfðu áhuga á lausn málsins, og þá bar formanni stjórnarskrárnefndarinnar að kalla hana saman.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði nú í dag, að hann vildi ekki ræða um það, hvað menn gerðu á öðru tilverustigi, enda væri víst nóg að hugsa um það, hvað menn gera í þessu lifi. Ég hygg, að það hafi verið nóg fyrir stjórnarskrárnefndina hennar basl, meðan hún lifði, og þess vegna ekki mikil bót í því að vekjast upp eftir sex ár frá því, að vitað var af öllum og talið, að hún væri úr sögunni. Og ef þeir töldu hana vera á lífi, af hverju bar þá fulltrúi Framsfl. ekki fram till. eða beiðni um það, að n. kæmi saman? Við Karl Kristjánsson höfum hitzt hér daglega í allan vetur, og með okkur er mjög ljúft, þótt við séum í sitt hvorum flokki, og ég er alveg viss um, að Karl Kristjánsson hefði þorað að stynja því upp við mig, að nú ætti að kalla saman n., ef honum hefði komið það til hugar, að það gæti greitt fyrir þessu máli eða að n. væri ekki úr sögunni.

En sleppum Karli Kristjánssyni. Af hverju bar fyrrv. hæstv. forsrh., sem var forsrh. þessa lands fram til 23. desember, af hverju bar hann ekki fram ósk um það, að n. kæmi saman, og hnippti í hinn mjög svikula formann um, að hann ætti að gegna skyldu sinni, ef það var raunverulega ætlunin, að þessi n. ætti að leysa allan vandann? Nei, hann lét það vera. Hann lét ekki aðeins vera að biðja mig um að kalla saman n., heldur hélt hann áfram vanrækslu Steingríms Steinþórssonar og skipaði ekki, alla sína stjórnartíð og ekki heldur eftir að málið vaknaði í vetur, mann í stað Ólafs Jóhannessonar í n. Það hefði þá væntanlega nægt að tilkynna, að nú væri maður tilnefndur af forsrh. í stað Ólafs Jóhannessonar, til þess að ýta við hinni sofandi n. Nei, það datt þeim þá ekki í hug.

Þetta er fundið upp eftir á sem hver annar orðhengilsháttur, að þessi n. hefði getað leyst málið, ef hún tæki til starfa. Hitt verð ég svo að segja, að mér hefur sjaldan verið sýnt meira traust, og ég mun lengi hafa það í minni og minna hv. 1. þm. S-M. á það, þá traustsyfirlýsingu, sem hann bar fram til mín með rökstuddu dagskránni hér, sem var felld á laugardaginn var. Þá var eina ráðið að leysa vandann að vekja upp n. undir forustu Bjarna Benediktssonar. Ef það var ekki gert, þá var bara fjandinn laus.

Að hugsa sér aðra eins frammistöðu hjá þessum mönnum, að ef nú Bjarni Benediktsson kemur þeim ekki til hjálpar á síðustu stundu, rétt áður en þeir gefa upp öndina, þá er allur flokkurinn í voða!

Ef eitthvað hefði verið til í því, að ég hefði vanrækt mína skyldu í þessari n. og við nm., þá hefði sannarlega eina rökrétta afleiðingin verið sú að bera fram till. um skipun nýrrar n. og reka hinn ótrúa þjón heim, nema það sé e.t.v. aðferð Framsóknar að sýna mönnum þeim mun meiri heiður sem þeir svíkjast betur um störfin. (Gripið fram í: Er það þá viðurkennt, að það hafi verið svikizt um?) Já, það er það, sem hv. þm. hefur verið að reyna að burðast við að halda fram og vill svo launa á þennan veg.

Svo segir hv. þm., að okkur hafi verið ljóst, að allir flokkar voru búnir að fá mikinn áhuga á lausn kjördæmamálsins í vetur. Þó segir hann og ber það blákalt fram hér, að við sjálfstæðismenn höfum aldrei talað við Framsfl. um kjördæmamálið. Ef við höfum aldrei talað við Framsfl um kjördæmamálið, hvernig áttum við þá að vita um þeirra lifandi áhuga um málið ? Það er spurning fyrir sig. En það vill nú svo til, að við áttum ýtarlegt tal við einmitt 1. þm. S-M. og hv. þm. Str., Hermann Jónasson, um kjördæmamálið, hv. þm. G-K. (ÓTh) og ég, við áttum það í flokksherbergi Sjálfstfl. Við ræddum um það ýtarlega, hvort þeir mundu geta fallizt á þær till., sem við höfðum fram að bera. Og þegar þeir sögðu, að svo væri ekki, þá spurðum við, hvort þeir hefðu einhverjar aðrar till. Jú, þeir sögðust hafa till. Hverjar þær væru? Þeir sögðust sjálfir vita, hverjar þær væru, en það væri ekki búið að festa þær á blað. Hvort við mættum bíða eftir því að fá blaðið? Ja, það mundi nú taka dálítinn tíma að skrifa þær upp. Eins og við líka sjáum, þá hefur það tekið þá töluverðan tíma að skrifa þær, vegna þess að það var í marz, sem þeir loksins samþykktu einhverjar till. í málinu, og blekið var ekki fyrr þornað af þeim till., sem flokksþing þeirra samþykkti, heldur en þeir bera fram alveg gagnstæðar till. hér á Alþingi. Ég spyr: Hvernig á að vera hægt að semja við svona menn um þetta mál? Hvað er það, sem þeir í raun og veru meina? Vilja þeir ekki einhvern tíma segja, hverjar eru þeirra eigin tillögur, ekki einungis hvað þeir vilja ganga inn á til samkomulags?

Þeir segja sjálfir, að það sé alveg ljóst, að við viljum ekki semja við þá og þeirra mál verði fyrir borð borið hér á Alþingi, og þeir segja, að þjóðin eigi að rísa upp og fylgja þeim í málinu. En í hverju á hún að fylgja þeim? Hvað er það, sem þeir vilja sjálfir?

Hv. þm. A-Sk. svaraði því þannig hér á laugardaginn: Það eru alls ekki okkar breytingartillögur. — Sama segja þeir í dag. Nú vill hv. 1. þm. S-M. láta í það skína, að það séu till. frá því í marz, sem séu þeirra tillögur, en hv. þm. A-Sk. sagði allt annað, hann sagði, að þeir ætli ekki að koma með neinar tillögur fyrr, en á stjórnlagaþinginu fyrirhugaða, vegna þess að það væri þeirra aðaltill. í málinu, og allt, sem þeir segðu um kjördæmamálið, bæri að skoða í því ljósi, að þeir vildu láta kjósa stjórnlagaþing og þar ætti að taka afstöðu til málsins.

Það verður áreiðanlega erfitt fyrir hv. 1. þm. S-M. að ætla að reyna að fara í fótspor hins mikla meistara, hv. fyrrv. þm. S-Þ., Jónasar Jónssonar. Þótt menn að vísu taki eftir því, að hann sé mjög farinn að tíðka hans ræðustíl og látbragð í ræðustól, mun mjög fara lítt fyrir honum í nýrri kjördæmabaráttu í stílnum 1931 nú. Þó að við höfum Jónas endurvakinn þarna, þá held ég, að svo lítið sem mönnum þykir til þess Jónasar koma, þá muni mönnum þykja enn þá minna koma til Tryggva Þórhallssonar í líki Sveinbjarnar Högnasonar.

Þessi fylking er ekki sigurstrangleg, allra sízt meðan hún fæst ekki með nokkru móti til þess að segja, hvað fyrir henni vakir, annað en að hún hafi verið á móti því, sem gert var 1931, því, sem gert var 1933, því, sem gert var 1942, móti því, sem þeirra eigin flokksþing samþykkti fyrir mánuði, og móti sínum eigin tillögum núna og móti því, sem við viljum. Þetta er stefnan.

Því er annað veifið haldið fram, að þessi kjördæmabreyting sé gerð til þess, að Sjálfstfl. fái einræðisvald. Hafa margir þm. þeirra komið hér upp og sagt, að af þessari kjördæmabreytingu mundi leiða, að Sjálfstfl. fengi einræðisvald í landinu. Aðrir koma og bera jafnblákalt fram, að hættan sé, að hér liðist allt upp í smáflokka. Hvernig fær þetta staðizt, að einn flokkur verði svo stór, að hann fái einræðisvald, og allt sundrist í smáflokka og landið verði stjórnlaust þess vegna?

En þetta er sá rökstuðningur, sem við megum hér hlusta á dag og nótt, meðan málið er til umræðu. Ég held, að það færi betur að hafa sömu kópíuna af öllu, sem afhent er úr skjóðunni, en ekki svona mismunandi hátt á því, enda þyrfti þá kannske ekki að leiðrétta eins mikið og gert er í sumum ræðum, sem birtar voru í Tímanum í gær og haldnar voru hér s.l. föstudag.

Sannleikurinn er sá, að við sjálfstæðismenn óskum ekki eftir neinu einræðisvaldi á Íslandi eða neinum öðrum rétti en okkur ber. Það er alveg rétt, að við höfum talið sumir, að það gæti orðið til styrktar ákveðinni flokkamyndun í landinu, ef öllu landinu væri skipt upp í einmenningskjördæmi. Það er margreynt, að sú hugmynd hefur ekki nægilegt fylgi, og engir hafa harðar talað á móti því heldur en einmitt hv. framsóknarmenn að skipta öllu landinu í einmenningskjördæmi, enda eins og hv. þm. A-Sk. sýndi fram á hér í kvöld, þá er nú eftir síðustu tillögum þeirra mikill meiri hluti landsmanna, sem á að búa við hlutfallskosningar. (Gripið fram í: Austur-Húnvetninga.) Austur-Húnvetninga, já. Fyrirgefið. En ég játa, að þó að það geti að víssu leyti orðið til styrktar ákveðinni flokkamyndun og því, sem kallað er tveggja flokka kerfi, að hafa einmenningskjördæmi, þá eru líka mjög margir ókostir því samfara, m.a. þessi, að viðbúið er, að flokkur, kannske með kringum 40% af landsfólkinu á bak við sig, fái hreinan meiri hl. á Alþingi, og það hefur verið sýnt fram á það hér í umr.

af hv. 5. þm. Reykv., að miðað við útreikninga Tímans á göllum hlutfallskosninga, þar sem talið var, að einn þriðjungur gæti fengið meiri hl. fulltrúanna, þá gæti svo farið, að jafnvel 15% allra kjósenda gætu fengið alla fulltrúana kosna. Það verður að játa, að þetta kerfi er ákaflega gallað. Og mér kemur ekki til hugar að bera á móti því, að það er mjög veik stjórn, þó að hún fengi kringum 40% af öllum kjósendum og merði meiri hl. á Alþingi.

Ég játa, að það eitt er sanngjarnt og hollt til frambúðar, að sá fái meiri hluta á Alþingi, sem hefur meiri hl. kjósendanna á bak við sig, og ég játa líka, að eins og það er óhagganleg staðreynd, að Framsfl. vildi ekki semja um málið við Sjálfstfl. og hann vildi ekki semja um málið við Alþfl. og hann vildi ekki semja um málið við Alþb., þó að hann ætti þess kost að reyna að komast að samningum við þá alla, þá strandar ætíð á Framsfl., af því að hann vill alls ekki semja um málið. Ég játa, að þótt það sé óhagganleg staðreynd, að það sé Framsfl. fyrst og fremst sjálfum að kenna — eða þakka, réttara sagt, að engir hafa komizt að samkomulagi við hann, þá er hann líka eini flokkurinn, sem má missa sig úr samkomulaginu, vegna þess að það er auðvitað mjög varhugaverð stjórnaraðferð að ætla að reyna að neyða kjósendur til þess að kjósa annan flokk, en þeir vilja með kjördæmaskipun. Ef þau þjóðfélagsöfl eru fyrir hendi, sem styðja ákveðinn flokk og vilja veita honum brautargengi, þá er sanngjarnt, að sá flokkur komi að sínum fulltrúum á Alþingi. Það horfir t.d. sízt til heilla að ætla að eyða slíkum skaðræðisflokk eins og kommúnistaflokkurinn í Frakklandi er á þann veg, sem reynt er að gera með kosningafyrirkomulagi de Gaulles nú. Kommúnistum gerir í sjálfu sér lítið til, þó að þeir séu lögbannaðir eða lögþvingaðir. Það er e.t.v. heppilegast fyrir þá sjálfa, ef þeir geta starfað í myrkri og undir því yfirskini, að þeir séu ofsóttir. Hitt höfum við séð hér á landi, að ekkert er kommúnistum hættulegra, en að sýna sjálfir í verki, hvers þeir eru megnugir og hver þeirra úrræði í raun og veru eru, og dómgreind fólksins á að skera úr um, hverjir völdin hafi í þessum efnum, en ekki valdboð.

Þessi ókostur, að þannig sé bannaður flokkur með einmenningskjördæmum, er þó miklu minni í stóru löndunum, þar sem mörg hundruð kjördæmi eru og þar sem þetta jafnast nokkurn veginn upp, miðað við það, sem mundi verða hér á landi, þar sem menn hafa hugsað sér kjördæmin í mesta lagi eitthvað kringum 50. Hætturnar á ósamræmi á milli þingmannafjölda og kjósendafylgis eru því miklu meiri, á sama veg og einmenningskjördæmi í stóru löndunum eru auðvitað allt önnur, en hér á Íslandi. Það hefur verið sýnt fram á það hvað eftir annað í þessum umr., að í öðrum löndum eru einmenningskjördæmi svo mannmörg yfirleitt, að allir Íslendingar mundu þar vera í einu eða tveimur kjördæmum. Aðstaðan þar er vitanlega allt önnur en í þeim kjördæmum, sem Framsfl. vill viðhalda og þar sem hann nýtur sín bezt, en þar eru einmitt kúgunaraðferðirnar, sem hv. 1. þm. S-M. var að lýsa, í hávegum hafðar. Það er fyrir löngu kunnugt, að hvenær sem framsóknarmenn bera öðrum á brýn, að þeir beiti einhverjum ljótum aðferðum, og því meira sem þeir hafa orð á því, að andstæðingarnir beiti slíkum brögðum, því öruggara er, að það er einmitt sú aðferðin, sem þeir sjálfir hafa þá mest í hávegum í sinni framkvæmd. Aðferðin er sú að reyna að leiða athyglina frá eigin rangindum og vélabrögðum með því að bera andstæðingunum á brýn það, sem þeir sjálfir eru að fremja, eins og þegar hv. 1. þm. S-M. talar um það hér í hverri ræðunni eftir aðra, að það séu hundrað eða nokkur hundruð fyrirtæki í Reykjavík, sem ráði úrslitum kosninga hér, og hér sé varðmaður í hverju húsi eða svo til. Kannske hann haldi, að við höfum einhvern varðmann líka heima hjá honum. (EystJ: Ég tók það fram, að það væri ekki.) En við vitum öll, hvernig þetta er, að þessir menn hafa með sínum aðferðum náð yfirráðum yfir mesta auðsafni, sem í fárra manna höndum hefur nokkru sinni verið á Íslandi. Við vitum, að þeirra hópur hefur bókhald yfir úttekt og hagi næstum því hvers einasta kjósanda í fjölmörgum héruðum þessa lands. Við vitum það ósköp vel, að Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. S-M., hefur ferðazt um landið og sagt á opinberum fundum, að það væru svik við samvinnustefnuna, ef menn kysu ekki Framsfl. Við vitum ósköp vel, hvernig þessi maður hefur beitt sínu valdi, og hans aðferðir eru allt of kunnar og alþjóð vitaðar til þess, að honum tjái að ætla að reyna að fara að bera sínar vammir upp á aðra, enda þarf ekki annað, en líta á kosningaúrslit hér í Reykjavík til þess að sjá, að öldur í kjósendafylgi eru hér miklu meiri, en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Hér koma upp flokkar og hverfa. Hér er þessi flokkur í dag stór og verður lítill á morgun. Sjálfstfl., sem nú er mjög stór hér í bæ og hefur lengst af haft hér mjög mikið fylgi, hefur stundum hrapað mjög niður í sínu fylgi, eins og hann nú hefur vaxið, ekki sízt fyrir tilverknað hv. 1. þm. S-M. Það er ekki sízt hans verkum að þakka og hans stjórn að þakka, að flokkurinn er nú jafnstór og raun ber vitni um, vegna þess að þegar menn sáu, hvernig þessum herrum til tókst án atbeina okkar sjálfstæðismanna, þá sáu þeir, að þó að margt væri athugavert við þá stjórn, sem við vorum í, og því fari fjarri, að við séum eða teljum okkur fullkomna, þá keyrði þó fyrst um þverbak, þegar hv. 1. þm. S-M, fór að reyna að bisa við að stjórna án okkar handleiðslu.

Um það þarf ekki að deila, og það eru ein rökin sannast að segja fyrir þessu máli, að reynslan hefur sýnt, að einmitt í Reykjavík og hinum stærri kaupstöðum er raunverulega frjáls skoðanamyndun fjöldans. Þar getur enginn sagt fyrir kosningar með þeim hætti, sem vitað er að Framsfl. telur sig geta í þeim kjördæmum, þar sem hann á alls kostar við fólkið. Játa verður, að vaxandi ágengni ekki sízt hv. 1. þm. S-M. í Framsfl., sem er að fæla mikinn fjölda góðra manna þaðan burt nú þegar, hefur orðið til þess að sannfæra landsfólkið um, að slíkir stjórnarhættir og aðferðir sem hann hefur beitt innan flokksins og reynir nú að beita gegnum þau fjármálafyrirtæki, sem hann hefur vald yfir gagnvart almenningi, tjái ekki lengur, og þess vegna verður að skapa aðstöðu til þess, að almenningur geti óháð kosið. Og hv. þm. sagði þetta alveg berlega í dag. Hann sagði: Hættan er sú, að við missum það persónulega samband, að hv. þm. geti farið sjálfur eða sent sína útsendara til þess að segja það við þá, sem hann telur sig eiga alls kostar við, er hann telur tryggja, að þeir muni greiða atkvæði rétt á kjördag. Það er einmitt þetta, sem hv. þm. vill ekki missa og gloprast út úr honum, að hann vill ekki með neinu móti missa, enda kemur það, eins og hann sagði: Það er margt fallegt, sem þeir segja, sagði hann um okkur, en það kemur nóta bene við það, sagði hann, og nóta benið, það athugaverða, var, ef flokkslegt réttlæti ætti að skapast. — Hann verður að játa, að eftir þessu frv. er strjálbýlinu, byggðum landsins tryggður fyllilega sami réttur og í raun og veru meiri réttur, öruggari staða, en nokkru sinni áður. En það, sem kemur við kvikuna á honum, er elnmitt þetta, sem þeir óttast, það er hið flokkslega jafnrétti. Þetta sagði hv. þm. A-Sk. á dögunum. Það er nú við þetta frv., að eftir því á bara að verða flokkslegt jafnrétti, og það er einmitt sú stóra aths., sem hv. 1. þm. S-M. hafði við frv. að gera. Það er þetta flokkslega jafnrétti, sem þessir hv. þm. óttast svo mjög.

En fólkið úti á landinu vill áreiðanlega, að hið flokkslega jafnrétti fái að njóta sín. Það er búið að sitja of lengi undir ofurvaldi Framsóknar til þess, að það óski að sitja þar lengur. Það vill áreiðanlega eiga fulltrúa í sem flestum flokkum á Alþingi til þess á þann veg að tryggja sinn hag og sjá um, að ekki sé á hlut þess gengið, eins og hv. 1. þm. S-M. beitti sér fyrir í sinni fyrstu ráðherratíð, að gengið var á hlut allra þeirra, sem höfðu dirfzt að kjósa sjálfstæðismenn.

Almenningur er búinn að sjá, að þetta er honum sjálfum fyrir beztu, og þessar umræður hafa nógsamlega leitt í ljós og sannað, svo að ekki verður um deilt, að hér er eingöngu um það að ræða, hvort einum flokki eigi að haldast uppi að ganga á rétt alls landslýðsins. Það er sagt, að þjóðin eigi eftir að kveða upp sinn dóm. Það er rétt. Þjóðin á eftir að kveða upp sinn dóm, og við fylgjendur þessa frv. bíðum þess dóms óhræddir.